Höfundur Njálu styður landbúnaðarkerfið (BJ)

Í Morgunblaðinu kennir margra grasa. Mér var bent á að fyrir nokkrum dögum birtist þar ritsmíð eftir Hauk Þór Hauksson rekstrarhagfræðing, MBA, þar sem hann er svo vinsamlegur að fjalla um grein mína Hernaðurinn gegn þjóðinni. Þar gagnrýndi ég landbúnaðarkerfið á Íslandi og taldi að það væri óhagstætt öllum sem hagsmuna eiga að gæta: Bændum, sem fá lág laun, neytendum sem borga hærra verð en þeir þyrftu að gera og ríkinu sem greiðir háar fjárhæðir til kerfisins.

Haukur telur að ég fari í „kratísk spólför með andúð á íslenskum landbúnaði efst í huga“. Hann virðist sem sagt telja að gagnrýni á kerfi, þar sem aðeins fjórða hver króna rennur til bænda samkvæmt nýlegri skýrslu Hagfræðistofnunar fyrir Landbúnaðarráðuneytið, lýsi andúð á landbúnaði. Að benda á þá staðreynd að bændur eru einhver tekjuminnsti hópur landsins er „andúð á íslenskum landbúnaði“.

Ég segi reyndar í greininni: „Styrkirnir enda í raun hjá kerfinu sjálfu, kerfi sem hefur þann tilgang einan að viðhalda sjálfu sér og skaffa talsmönnum sínum störf.“ Haukur gengur skrefinu lengra og virðist telja að kerfið sjálft sé íslenskur landbúnaður.

Kratar eru Hauki hugstæðir og hann segir að reyndar séu þeir ekki til lengur og „enginn veit hvað varð af þeim.“ Hér vísar hann til þess að forystumenn Alþýðuflokksins, til dæmis þeir Emil Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason og Benedikt Gröndal voru kallaðir kratar sem er stytting úr sósíaldemókrati. Þessir mætu menn eru allir dánir og ástæðulaust að hafa það í flimtingum.

Væntanlega er Haukur þó að vísa til kjörfylgis flokksins á árum áður. Einhverjar eftirminnilegustu kosningar til Alþingis sem ég man eftir voru árið 1974. Þá fékk Alþýðuflokkurinn 9,1% atkvæða. Þau voru öll horfin annað í kosningunum 2013.

Í kosningunum 1974 fékk Sjálfstæðisflokkurinn 42,7% eftir að hafa verið stjórnarandstöðu í þrjú ár. Árið 2013 hafði Sjálfstæðisflokkurinn verið utan ríkisstjórnar í fjögur ár. Stjórnin beið versta afhroð sem nokkur ríkisstjórn hefur beðið. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 26,7% eða 16% minna en árið 1974. Enginn veit hvað af þessum atkvæðum varð.

Haukur getur þess að á ferðalögum sínum og spjalli við Gúgúl hafi hann fundið ódýrari landbúnaðarvörur en á Íslandi. Ekki lýgur Gúgúll, en væri þetta almennt svo væri engin ástæða fyrir bændaforystuna og stuðningsmenn hennar að óttast innflutning.

Skýrslur, sem byggja á stærra úrtaki en Haukur tekur, benda þó til þess að í raun sé verðlag á landbúnaðarafurðum talsvert hærra hér á landi en annars staðar í Evrópu. Má þar vísa á skýrslur sem núverandi og fyrrverandi starfsmenn Bændasamtakanna hafa skrifað.

Haukur getur þess réttilega að niðurgreiðslur tíðkist víða um heim og hafi lengi gert. Í byrjendakennslubókum í hagfræði er sýnt fram á að þær leiði til óhagkvæmni þar sem allir tapi. Samkvæmt grein Hauks er árlegur stuðningur Evrópusambandsins við landbúnað 50 milljarðar evra. Það eru um 100 evrur á íbúa eða um 14 þúsund krónur. Samkvæmt skýrslum OECD er stuðningur við landbúnað á Íslandi metinn um 20 milljarðar króna eða um 60 þúsund krónur á mann á ári.

Það er þó meginatriði að á Íslandi skipar kerfið bændum að framleiða ákveðnar vörur, ella fái þeir ekki styrk. Í Evrópusambandinu skiptir ríkið sér ekki af því hvað bændur framleiða, en hvetur til ræktunar lands með jarðræktarstyrkjum. Megináherslan er á „bleika akra og slegin tún“. Bændur framleiða þær vörur sem þeir sjálfir telja hagkvæmastar.

Í Morgunblaðinu birtist ágæt grein 18. febrúar árið 2000 undir heitinu Neytendur eru herrar markaðarins. Þar segir meðal annars:

„Menn verða að gera sér grein fyrir því að við lifum í samkeppnisþjóðfélagi, en ekki miðstýrðu eftirlitsþjóðfélagi, og það er hlutverk neytenda að velja og hafna og veita hinum mismunandi aðilum á markaðinum aðhald. Frjáls samkeppni er öruggasta trygging neytenda fyrir góðu vöruvali og hagstæðu verði á markaði. … Neytendur eru herrar markaðarins. Þeir eru og eiga að vera harðir húsbóndar [svo]. Peningarnir eru atkvæðaseðlar neytandans og það er kosið á hverjum degi. Forsendan fyrir áframhaldandi hagvexti og velmegun hér á landi er að samkeppnin virki og það eru neytendur sem ráða því hvort hún gerir það.“

Þetta á auðvitað við um landbúnaðarvörur eins og annan neysluvarning. Núverandi kerfi hindrar neytendur hins vegar í því að kjósa þær landbúnaðarvörur sem þeim sýnist með peningum sínum. Það eru bara ákveðnar vörur kjörgengar. Höfundur greinarinnar er formaður Samtaka verslunarinnar, FÍS, Haukur Þór Hauksson.

Skömmu fyrir hrun var meðaltalssala á Morgunblaðinu rúmlega 50 þúsund eintök. Hrunið fór illa með landsmenn og nú mun salan vera liðlega 15 þúsund eintök. Enginn veit hvað af þessum 35 þúsund varð. Þess vegna fór stórfrétt framhjá stórum hluta landsmanna.

Helsta gáta Íslandssögunnar er hver sé höfundur listaverksins Njálu, mestu perlu bókmenntasögunnar. Ein snjallasta og eftirminnilegasta setning sögunnar er þegar hestur Gunnars drap fæti og hetjan leit um öxl.

Í Morgunblaðinu 14 janúar síðastliðinn stendur: „Fögur er hlíðin, bleikir akrar og slegin tún. Eftir Hauk Þór Hauksson“

Þá vitum við það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.