Hvar erum við David Bowie núna? (BJ)

Þegar Bowie gaf út plötu lagði maður við hlustir. Þess vegna hlustaði ég strax á Blackstar, en verð að viðurkenna að ég náði henni ekki í fyrstu hlustun, eiginlega fannst mér ekkert lag sérstaklega fallegt á henni, þó að ég sæi á netinu að ýmsir segi að þetta sé besta platan hans í áratugi, jafnvel sú besta frá upphafi.

Þvættingur, hugsaði ég, og fór að velta því fyrir mér hver væri í raun besta plata Bowies. Ég hitti konu á árshátíð í fyrra. Það hafði ekki verið í frásögur færandi nema að hún minnti mig á að við hittumst líka í hitteðfyrra við sambærilegt tækifæri. Þá hafði ég sagt henni að Aladdin Sane væri besta plata snillingsins. Hún hafði keypt plötuna en náði henni ekki og spurði kurteislega hvaða lög væru best. Þetta er auðvitað ekki spurning sem hægt er að svara, því að þau eru öll meira og minna frábær.

Netverjar eru ekki sammála um hvaða plata er best, en margir voru hrifnir af Berlínar trílógíunni, plötum sem karlinn gaf út í vímu, undir miklum áhrifum frá Brian Eno. Jú, jú, margt af því er allt í lagi, jafnvel mjög gott. Samt ekki á við blómaskeiðið 1970-73.

Helgin fór sem sé í að hlusta á Bowie.

Ég er einn af þeim sem segi að ekki sé mark að draumum og tek svo samt mark á þeim. Kannski er ég undir áhrifum frá Sturlungu, Sturla Sighvatsson sagðist sama sinnis þegar hann vaknaði við vondan draum sama dag og hann var veginn.

Í morgun vaknaði ég upp við vondan draum klukkan kortér yfir fimm. Ég ákvað að fara fram úr til þess að hrista hann af mér og hugsaði: „Vonandi er þetta ekki fyrir slæmum tíðindum.“ Í tölvunni var ekkert að frétta og ég hallaði mér aftur.

Svo þegar ég vaknaði sá ég að David Bowie var dáinn.

Líklega hefur það verið árið 1969 – eða kannski frekar 1970 sem ég heyrði Bowie fyrst nefndan. Þó man ég ekki eftir nafninu hans þá. Það var einhver íslensk hljómsveit sem var í sjónvarpinu sem sagði söguna bakvið Major Tom og spilaði svo Space Oddity. Því miður man ég ekki hvað hljómsveit þetta var. [Stefán Halldórsson sendi skilaboð á FB: „Hljómsveitin sem þú sást og heyrðir flytja Space Oddity í sjónvarpinu var væntanlega Trix sem flutti lagið í þættinum Í góðu tómi í janúar 1970. Ég var umsjónarmaður þáttarins og valdi eina hljómsveit til að spila í hverjum þætti. Hljómsveitin kemur í huga mér í hvert sinn sem ég heyri David Bowie flytja lagið.“ – Netið er snilld.]

Ég var mikill áhugamaður um breskar hljómsveitir og var áskrifandi að Melody Maker sem var aðal tónlistarblaðið fyrir rokkaðdáendur. Pabbi sagði mér að hann hefði líka keypt Melody Maker stundum þegar hann var í menntaskóla, en þá hafði hann gaman að djassi. Jóhannes minn keypti líka MM þegar hann var í menntaskóla, en þar lokast hringurinn, því blaðið fór á hausinn árið 2000. Þetta kom reyndar Bowie ekkert við, en ég las þetta blað sem sé upp til agna og var framarlega í poppfræðunum á þeim tíma.

Þess vegna hlýt ég að hafa heyrt The Man Who Sold the World fljótlega eftir að hún kom út. En ég þekki hana ekkert mjög vel. Fyrsta platan sem ég kann utan að er Hunky Dory. Eða kunni, nú eru þær ekki lengur spilaðar á hverjum degi.

Á þessum árum velti Vikan, og reyndar allir, því fyrir sér hvort Bowie var kynvilltur, eins og sagt var þá. Ekki spillti það svefni fyrir mér.

Goggi vinur minn, Þorgeir heitinn Kjartansson, sagði að Bowie væri arftaki Bítlanna þegar Aladdin Sane kom út. Mig minnir að það sé á henni sem ártölin 1913, 1938, 197? stóðu. Ári fyrir fyrstu, aðra og þriðju heimsstyrjöldina.

Þá var Ziggy Stardust náttúrlega komin út, plata sem enginn getur hlustað á án þess að átta sig á að flytjandinn er snillingur. Allar plöturnar á þessum árum voru spilaðar fram og tilbaka. Ég man eftir því að Vigdís mín sagði mér frá því þegar hún kom úr sögutíma hjá Hugh Walker, sem kenndi Asíusögu, að frasinn „Wham Bam Thank-you Ma’am“ hefði verið notaður sem slangur á sjötta áratugnum. Okkur fannst þetta merkilegt og aldrei datt mér í hug þá að einhver vafasöm merking byggi á bakvið.

Diamond Dogs var fyrsta platan sem okkur félögunum fannst ekki hrein snilld. Svo fór meistarinn að daðra við Brian Eno og diskóið. Það var ekki hátt skrifað hjá okkur rokkaðdáendum. Líklega svipað og reyfari í hópi bókmenntaunnenda. Sem var synd, því þannig misstum við af mörgum snilldarlögum.

Mér finnst það svolítið skrítið að Bowie skuli hafa orðið heimsfrægur eftir að ég gafst upp á honum – í bili. En jafnvel ég verð að viðurkenna að hann samdi mörg flott lög eftir þetta.

Einu sinni fórum við Vigdís í bíó og sáum hljómleikamynd með Bowie, Ziggy Stardust. Frábær mynd, en í hléi hittum við menningarelítu Reykjavíkur sem teygaði að sér Fanný og Alexander, hrútleiðinlega og langa bíómynd eftir Ingmar Bergmann. Allir héldu samt að við værum voða menningarleg, en annað hefði runnið upp fyrir þeim, ef þau bara vissu …

Árið 1985 kom ég fram í Versló sem kynnir á skemmtikvöldi, að hluta til í silfruðum samfestingi undir This is not America, minnir mig. Svo sungu þeir Jagger auðvitað Dancing in the Street í góðgerðaskyni á þessum árum. Þá var ég hálfnaður á leiðinni hingað.

Einhvern tíma var sagt frá því að Bowie ætlaði að gefa út framhald af Space Oddity. „Hverjum er ekki sama?“ hugsaði ég. Ég hafði aldrei velt því fyrir mér hvað hefði orðið um Major Tom á ferð hans um himingeiminn. Ashes to Ashes er samt ágætt lag, en auðvitað ekki eitt af þeim allra bestu. Og segir svosem lítið um hvað varð um Tom karlinn.

Þegar Bowie kom hingað árið 1996 heyrði ég að ég hafði skrópað í of mörgum tímum hjá snillingnum og endurnýjaði kynnin eftir það. Samt voru fæstar plöturnar á þessum árum sérlega skemmtilegar, ekki einu sinni með einstökum góðum lögum. Kannski gaf ég þeim ekki séns. Samt keypti ég The Next Day daginn sem hún kom út árið 2013. Where are we now? finnst mér fallegt lag.

Þegar Bowie varð sextugur birtust viðtöl við hann. Hann var búinn að gleyma mörgu, enda var hann ekki alltaf í neyslu á spínati og brokkólíi. Spyrjandinn þekkti ferilinn miklu betur en goðið.

Besta lagið? Það er ómögulegt að svara því. Besta lagið í gær er ekki eins gott í dag og verður aftur frábært á morgun. Auðvitað var gaman þegar þeir Lennon sömdu saman Fame, hvernig sem það gerðist nú. Tvær hetjur í sama laginu.

Hvernig endar svona minninga – grein?

Svona:

Though nothing, will keep us together

We could steal time,

just for one day

We can be Heroes, for ever and ever

What d’you say?

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.