Flestum fannst árið 2008 slappt ár. Ég verð að teljast í þeim hópi. Var hálfsmeykur þegar það byrjaði þó að ég bæri það ekki á torg. Sá ótti reyndist á rökum reistur. Samt var 2008 ekki alvont, en óþægilegt ár. Eitthvað var þó í lagi. eflaust miklu fleira en manni fannst. Best að rifja eitthvað upp.
Ég fór tvisvar til Stokkhólms í sömu vikunni, tvisvar til Englands, tvisvar til Frakklands. Aðalferðin var þó til Indlands. Ferðasagan þangað kemur fljótlega.
Þrisvar fórum við hjónin á Vestfjarðakjálkann á tveimur vikum. Við gengum á Eyjafjallajökul annað vorið í röð. Nú vorum við í betri þjálfun en vorið 2007. Ég gekk á Trölladyngju, Vaðalfjöll, Hlöðufell, Geirólfsgnúp (Geirshöfða frá sjó), Reykjafell og fleiri tinda tengda því og fjölmörg fjöll sem ég hafði gengið á áður. Líklega nálægt 26 fjallgöngum á um 15 fjöll.
Nú skrifaði ég vel yfir 200 greinar (þmt 50 pistla á heimur.is). Langflestar voru í Vísbendingu, en líka nokkrar í Skýjum.
Ég var á palli á fundi í Háskólabíói en náði ekki að gera meira en kynna mig. Mætti óvenjuoft í útvarp meðal annars í spurninga- og vísnaþátt. Eftir hann fékk ég símhringingu um að ég væri einn helsti hagyrðingur landsins. Það var skemmtilegt komment. Kannski komment ársins.
Kláraði tvær smásögur. Held þeim enn fyrir mig. Náði gulu stigi á píanó en þorði ekki í próf fyrir jól 2008. Hafði ekki æft mig nóg.
Eftirfarandi pistlar frá mér voru talsvert lesnir árið 2008,held ég:
nóvember 24 | Frestur er á öllu bestur (BJ)
nóvember 17 | Lausnin (BJ)
október 19 | Steinn í lífsins götu (BJ)
ágúst 25 | Kæra dagbók (BJ)
ágúst 05 | Innipúkinn (BJ)
maí 18 | Heitir hún Oddný? (BJ)
apríl 07 | Frægð og frami (BJ)
mars 24 | Berlínarbollurnar (BJ)
mars 12 | Stutt ævi (BJ)
mars 03 | Ég er ekki að skilja þetta (BJ)
janúar 27 | Sköllótti borgarstjórinn (BJ)
Fjórar góðar frænkur mínar dóu á árinu. Nú síðast Ólöf móðursystir mín, en áður Guðrún Guðjónsdóttir, dóttir hennar og Ólöf Pétursdóttir og Ragnheiður Baldursdóttir. Mér þykir vænt um þær allar og á um þær góðar minningar.
Í ársbyrjun er gott að vera bjartsýnn. Flestum fannst árið 2008 örugglega frekar lélegt í heildina tekið. Samt hafði það sínar góðu hliðar. Það er okkar að gera það besta úr málunum.
Hamingjan felst í því að spila sem best úr þeim spilum sem maður fær á hendi hverju sinni. Jafnvel þó að það séu tómir hundar.