Mér finnst gaman að fá jólakort. Ég hef uppgötvað að til þess að fá jólakort þarf maður líka að senda kort á móti. Mér finnst ekki beinlínis leiðinlegt að skrifa jólakort en það tekur tíma. Mín kort eru flest skrifuð skömmu fyrir jól. Ekki jafnseint og hjá syni mínum sem sendi nokkur jólakort með tölvupósti á aðfangadag á sama tíma og ég keyrði út pakkana frá honum. Enda fyndist mér það ekki mjög jólalegt að fá jólakort í tölvuna sem öll hétu Re: Jólakort.
Ég fékk sem sé fjölmörg jólakort í ár. Í vinnunni var reyndar svolítil kortakreppa. Mér sýnist að jólakort fyrirtækja hafi dottið niður um 40%. En heima var engin kreppa. Þvert á móti var mjög góð uppskera í ár. Ég geri sama og flestir. Sit með bunkann frá fyrra ári og skrifa þeim sem sendu mér það árið. Vegna þess að flestir nota þetta sama bragð þýðir það að sumir fá bara kort frá mér annað hvort ár. En það er allt í lagi því að þeir senda mér ekki heldur nema annað hvert ár.
Sumir fá ekkert kort frá mér. Sparisjóðurinn sendir mér kort og jafnvel Vigdísi líka en þeir fá ekki tvö kort frá okkur. Ekki einu sinni eitt kort. Geir Haarde fær heldur ekki kort. Ég hef nefnilega tékkað á því að kortið frá honum er með prentaðri undirskrift sem klessist ekki þegar maður strýkur yfir hana með rökum fingri. Geir fær örugglega mjög mörg kort og tekur ekki eftir því að hann fái ekkert frá okkur hjónum.
Við lesum alltaf jólakortin upphátt. Í gamla daga gerðum við það á aðfangadagskvöld. Þá átum við klukkan sex. Tókum upp pakkana hálf sjö og lásum kortin klukkan sjö. Hálf átta reyndum við að líma saman jólagjafirnar sem búið var að skemma. Svo fór ég að róast. …. Reyndar voru það börnin sem héldu uppi tempóinu. Til þess að hægja á beittum við ýmsum brögðum. Við fórum í kirkju klukkan sex. Svo fórum við að borða hægar, tyggja hvern bita og hafa marga rétti, hættum að hafa hamborgara og elduðum rjúpur. Loks tókum við upp á því að láta börnin lesa á pakkana, en það tók langan tíma því að þau voru bara þriggja og fimm ára og kunnu ekki að lesa.
Eftir því sem börnin urðu hraðlæsari beittum við öðrum brellum eins og til dæmis að setja breitt umbúðalímband á alla pakka og vefja því margoft utan um þá.
Eftir þrjátíu ára jólahald er svo komið að jólakortin eru ekki lesin fyrr en eftir hádegi á jóladag.
Mér finnst mest gaman að kortum sem stíluð eru á mig. Hr. Benedikt Jóhannesson. Þau fara í hæsta gæðaflokk. Benedikt Jóhannesson og fjölskylda fær fjórar stjörnur. Svo raða ég þeim sem segja Benedikt og Vigdís. Mér finnst Vigdís og Benedikt mun lakara, en læt það samt eiga sig. Vigdís Jónsdóttir og fjölskylda segja sumir.
Hvað eru þessir menn að hugsa? Halda þeir að manni sé alveg sama hvernig maður er ávarpaður? Þetta fólk er ekki mikið að hugsa um að gleðja mann á jólunum. Í allra neðsta flokk fara kortin sem árituð eru: Vigdís Jónsdóttir. Þegar Vigdís les þau held ég fyrir eyrum og syng jólalög. Ef þetta fólk vill ekki þekkja mig þá vil ég ekkert heyra frá því heldur. Eftirá kanna ég samt hverjir senda þessi kort til þess að þurfa ekki að heilsa því fólki árið 2009.
Umslagið gefur auðvitað forsmekkinn að kortinu sjálfu. Það er greinilegt að fólk leggur mjög mismikla vinnu og hugsun í kortin. Sumir eyða greinilega mestum hluta nóvembermánaðar í að viða að sér efni. Bæði texta og myndum. Þetta er fólk sem veit til hvers jólakort eru. Ljósmyndir af börnum eru klassískar. Maður horfir á myndirnar og hugsar með sér: Hvaða börn eru þetta? Þá kíkir maður á kortið og sér að þetta eru Súsí, Billi og Jarpur. Svo horfir maður aftur á myndina og hugsar: Hvaða börn eru þetta?
Þeir sem giftust á árinu senda myndir af sjálfum sér. Yfirleitt er maður alveg klár á þeim. Þeir sem hafa skrifað upp gjafalista þakka manni fyrir brauðristina. Það er hugulsamt, ég man hvort sem er ekkert hvað ég gaf þeim. Mér finnst brauðrist fín gjöf og vænti þess að hjónabandið verði gæfuríkt með fínu ristinni frá okkur Vigdísi.
Sumir kaupa bara fjölrituð kort og setja nöfnin sín undir prentaða kveðju. Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Pála og Kobbi. Eða stendur Páll og Karen? Breytir engu, ég þekki ekkert fólk sem heitir þessum nöfnum. Það er ekki fyrr en ég finn gleraugun mín að ég átta mig á því hvað fólkið heitir í alvöru og að þetta eru okkar bestu vinir. Að minnsta kosti fólk sem heldur að það sé svo náið að það spilli ekki vinskapnum að senda fjölritaða kveðju.
Þeir sem eru alvöru fagmenn í jólakortaskrifum senda vísur. Þeir allra bestu setja sér vísu í öll kort. En það er mikil vinna og ekki nema fyrir fagmenn. Baldur Hafstað frændi minn er fagmaður.
Nú kom vísa upp úr einu af fyrstu kortunum. Hún var svona:
Í fjárhagskreppu-þoku þétta
þjóðina leiddu bankafólin.
Nú fokið er í flestöll skjólin
og föst í baklás lukkuhjólin.
Sífellt herðist sultarólin.
Sárt að sætta sig við þetta:
En skjótt mun evrópsk skína sólin
skært, og þagga eymdar gólin
svo vonglöð rati veginn rétta
vesöl þjóð við norðurpólinn,
og haldið geti heilög jólin
hátíðleg, með maga metta.
Þessi vísa er eftir Björn Má Ólafsson lækni, frænda Vigdísar. Hann held ég að hafi ekki sent okkur vísu áður, en það gerði Óli Björn faðir hans hins vegar alltaf. Nú er Óli Björn látinn og Bjössi fyllir í skarðið. Ég var ánægður með það því það var alltaf spennandi að opna kortið frá Óla Birni.
Nú bíða tugir manna eftir því að sjá umfjöllun um sín kort en tími leyfir ekki að gera úttekt á þeim öllum. Til þess að gera langa sögu stutta er hins vegar rétt að segja frá því að eftir langan lestur sagði Vigdís: „Þetta var síðasta kortið.“
Ég fann strax að eitthvað var að. Hafði Baldur ekkert skrifað í ár? Mér var alveg sama þó að þetta væru stóru brandara jól. Þau voru ekki söm án korts frá Baldri.
Ég bað Vigdísi að fara aftur gegnum bunkann. Í þriðju yfirferð fannst rautt umslag sem ekki hafði verið opnað. Enn í dag veit ég ekki hvort Vigdís gerði það sér til skemmtunar að fela kortið fyrir mér. En Baldur klikkaði ekki. Auk ljósmyndar, listaverks (pennateikning af bréfritara með húfu frá Landsbankanum) og sérsniðinnar kveðju var þessi vísa:
Bjart var yfir bönkunum
blik í hverjum eyri.
Aurinn minn og aurinn þinn
nú eiga Dabbi og Geiri.
Gleðileg jól, gott og farsælt komandi ár.