Í gamalkunnum brag segir frá bræðrum tveim sem áttu ekki færri en tvær mæður. Þetta hefur mér ég alltaf þótt ég eiga sameiginlegt með bræðrum þessum, því móðir mín er svo lánsöm að fast á hæla hennar í þennan heim fylgdi Ólöf systir hennar, sem í fyllingu tímans varð svo „tvíburamóðir“ okkar systkinanna. Margt gott á ég Ólöfu að þakka, en ekki hvað sízt að hún skyldi giftast slíkum öðlingsmanni sem Páll Björnsson var.
Allt frá fyrstu tíð minnist ég Páls sem eins þeirra manna sem ég hafði mest gaman af að hitta. Páll var einstaklega barngóður og taldi ekki eftir sér að hafa börn í eftirdragi. Meðal annars bauð hann bæði mér og öðrum börnum að sigla með sér á dráttarbátnum Magna og eins og nærri má geta voru það eftirminnileg ævintýri.
Alla tíð hefur verið mikill samgangur á milli fjölskyldnanna í Laugarásnum og í Sporðagrunninu og þegar ég óx úr grasi kynntist ég Páli betur og gerði mér þá enn frekar ljóst hvaða kostum hann var búinn. Páll var enginn galgopi og var yfirleitt hægur í samræðum, en gat verið hverjum manni fyndnari og orðheppnari ef því var að skipta. Hann var hjálpsamur og greiðvikinn, en fastur fyrir og lét engan vaða ofan í sig.
Páll var góður við þá sem minna máttu sín og tamdi sér að tala aldrei niður til vangefinna eða illa gefinna heldur kom fram við þá eins og jafningja. Hann var ákaflega atorkusamur og var varla kominn heim úr vinnunni, þegar hann fór að dytta að einhverju heima fyrir, innan húss eða utan. Langvinn veikindi og slysfarir hrjáðu Pál öðru hverju síðustu æviárin og hann var ekki í essinu sínu fyrr en hann var farinn að vinna aftur. Hann var hins vegar ekkert að kvarta yfir óhöppum sínum og bar sig vel.
Páll hafði gaman af ferðalögum utan lands sem innan og kunni góð skil á gönguleiðum um fjöll. Spurði ég hann stundum ráða í þeim efnum og gáfust þau vel. Hann var áhugasamur um landafræði og sögu og hafði lesið margt um þau efni. Hann var því fróður um menn og málefni, en var ekki að flíka þeim fróðleik nema eftir því væri gengið.
Ég tel að Páll hafi verið hamingjumaður í einkalífi. Hann kvæntist árið 1946 Ólöfu Benediktsdóttur og var með þeim hjónum mikið jafnræði. Þau hafa ekki verið hvers manns viðhlæjendur en reynst sínum vinum og frændliði vel. Þau hjónin eignuðust tvær dætur, Önnu og Ragnhildi, en Ólöf á einnig dóttur af fyrra hjónabandi, Guðrúnu Guðjónsdóttur. Allar bera þær systur og börn þeirra merki um gott upplag og veganesti úr heimahúsum.
Ég og fjölskylda mín vorum svo heppin að fá á leigu íbúð á efri hæðinni í Sporðagrunni 12 þegar við komum heim frá námi erlendis. Þá sá ég það glöggt hjá börnum mínum að vinsældir Páls meðal yngstu kynslóðarinnar höfðu sízt dvínað með árunum. Sonur minn sagði einu sinni við mig í óspurðum fréttum þegar hann var tveggja ára: „Pabbi, þegar ég var lítill, þá var Páll bezti vinur minn.“
Páll lézt 15. apríl síðastliðinn eftir skamma sjúkdómslegu og hafði verið við vinnu næstum til síðasta dags. Þótt okkur sem eftir lifum þyki illt að missa Pál svo skyndilega þá er það huggun harmi gegn að hann þurfti ekki að heyja langt dauðastríð.
Foreldrar mínir mátu Pál mikil og ég veit að fátt er þeim meira virði en vináttan við fjölskylduna úr Sporðagrunninu. Ég veit að ég tala fyrir hönd allrar minnar fjölskyldu, þegar ég segi að það hafi verið okkur öllum mikið lán aðkynnast Páli Björnssyni.
Ólöfu frænku minni og dætrum hennar votta ég samúð mína og minna.
One comment