HEILDARTAP af ökutækjatryggingum á síðasta ári varð 300 milljónir króna eða sem svarar til um þriðjungs af samanlögðu eigin fé tryggingafélaganna. Þetta stafaði af því að tjón jukust meira en svaraði til hækkunar iðgjalda. A þessu ári er búist við mun minni halla á rekstri ökutækjatrygginga þrátt fyrir að umtalsverð aukning í tjónum hafi átt sér stað enda urðu miklar hækkanir á iðgjöldum þann 1. mars sl. Þetta kom fram á fundi Talnakönnunar um afkomu íslenskra tryggingafélaga á árinu 1987 þar sem fyrirtækið kynnti niðurstöður varðandi heildarafkomu og stöðu tryggingafélaganna svo og skiptingu markaðarins eftir greinum og afkomu í einstökum tryggingaflokkum.
Dr. Benedikt Jóhannesson, tölfræðingur, sagði í samtali við Morgunblaðið að þetta væri í þriðja sinn sem fyrirtækið gerði úttekt á íslenska tryggingamarkaðnum. Kvaðst hann telja að viss samkeppni ríkti milli tryggingafélaganna gegnum tilboð og enn fremur kæmi samkeppnin fram í þeim bónus sem félögin veittu bifreiðaeigendum. Hins vegar mætti hagræða í greininni og fækka félögunum. Það sem skipti þó sköpum fyrir félögin væri að auka ávöxtun á heildarsjóðum og draga úr kostnaði. Afkoma tryggingafélaganna á síðasta ári varð sem hér segin Almennar tryggingar töpuðu 15,5 milljónum, Ábyrgð 19 milljónum, Brunabótafélag Íslands 26,9 milljónum, Hagtrygging 500 þús. og enn fremur varð 39,2 milljón króna tap af rekstri Húsatrygginga Reykjavíkur. Hagnaður Íslenskrar endurtryggingar varð 21,8 milljónir, Reykvískrar endurtryggingar 3,6 milljónir, Samábyrgðar fiskiskipa 9 milljónir, Samvinnutrygginga 200 þúsund, Sjóvá 23,2 milljónir, Tryggingar 6,9 milljónir og Tryggingamiðstöðvarinnar 28,9 milljónir. Samanlagt varð tap af rekstri þessara félaga 7,4 milljónir en almennu félögin voru með samtals 900 þúsund krónur í hagnað.
Morgunblaðið 30.6. 1988