Frásagnir Ólafíu Jóhannsdóttur af Engeyjarfólkinu

Í síðasta pistli rakti ég ýmis blaðaummæli um Engeyjarfólk forfeður mína og –mæður. Ólafía Jóhannsdóttir sem var þekkt sem rithöfundur og trúkona lýsti fólkinu þar í bók sinni Frá myrkri til ljóss. Hún var í þrjú ár í Engey og lá afar gott orð til Engeyjarfólksins alls:

Kristinn Magnússon

Kristinn rjeði í raun og veru öllu utan húss. Hann var þá kominn yfir fimtugt og ef til vill nær sextugu. Guðrún kona hans var tíu árum eldri. Hann var sækonungur og kominn af víkinga ættum. Hann var hugrakkur maður, karlmenni mikið, ágætur sjómaður, brautryðjandi á sjó og landi, og fús til þess að reyna allar nýjungar. Þegar hann var 18 ára, þóttist hann sjá, að sigla mætti beitivind á bátum eins og skipum, og fjekk Guðrúnu, sem þá var fyrir búi föður síns, til þess að útvega ljereft og sauma segl eftir fyrirsögn hans, en sjálfur bjó hann rá og reiða, og áður en nokkrum kom til hugar að sigla bætti beitivind á fiskibátum, sigldi hann smábáti sínum, – við annan  mann – fram hjá áttæringum, sem róið var öllum árum móti vindi. Eftir það fjekk hann heimasætunnar í Engey, sem sagt var að hefði hryggbrotið ellefu biðla, og gerðist bóndi í Engey. Hann var sjálfkjörinn foringi, og bar höfuð og herðar yfir aðra menn. Honum var aldrei ráðfátt, og horfði aldrei í kostnað, jarðirnar voru góðar og hafið úti fyrir fult af fiski, og maðurinn var fæddur til þess að sækja auðævi í skaut náttúrunnar. En ráðríkur þótti hann. Hann var oddviti í sinni sveit og ljet þá oftar en einu sinni taka upp heimili, sem hann taldi ekki til annars fallin en auka ómegð. En jafnan sá hann um, að öllum heimamönnum væri komið á góð heimili og liði vel. Sjálfur hafði hann eitthvert barnið heim með sjer. Ellefu börn höfðu alist upp hjá honum í Engey, auk þeirra, sem þar höfðu fæðst, og komust þau öll vel til manns, nema ein stúlka, sem var heilsulaus. Þó að þurfalingar kæmu þangað, þá leið ekki á löngu áður en þeir yrðu sjálfum sjer ráðandi. Einu sinni átti að setja vin hans í varðhald, sem grunaður var um að hafa ætlað að skjóta á mann í reiði sinni, en þá bauð Kristinn að taka hann til sín og ábyrgjast hann, þangað til dómur fjelli, og setja tryggingu ef krafist yrði, og var honum þá fenginn maðurinn. – Hann kom öllu fram sem hann tók sjer fyrir hendur. Alt virtist ganga að óskum, þegar hann kom til sögunnar, og aldrei sá ég nokkurn mann stýra örugglegar í stórsjó en hann. Þegar hann sat við stýri var öllu vel borgið.

Guðrún Pjetursdóttir, kona Kristins

Guðrún var hin mesta reglukona, þrifin og ágæt húsfreyja og móðir. Hún var hæglát, kvenleg og dul, en alúðleg og skemtin. Hún átti til að vera langrækin og var þá kuldaleg í svörum eða þögul. En mjög var hún góð öllum fósturbörnum sínum og gömlu fólki og fátæklingum, sem að garði bar, og barnabörnum sínum. Hún var mjög þrifin og reglusöm, og varð hver hlutur að vera á sínum stað. Hún vildi ekki breyta til, var trygg og rólynd og bar mikla virðingu fyrir gömlum venjum.

Ragnhildur Ólafsdóttir

[Ragnhildur] og tengdafaðir hennar voru lík í mörgu; hún kom líka með nýbreytni á heimilið. Hún hafði mikinn hug á umbótum í öllum efnum. Hún var trygglynd mjög, vildi að allir gætu notið sín sem best og enginn væri kúldaður, og hafði sjerstakt lag á því að láta alla, sem unnu hjá henni, vera sjálfsráða og svo sem þeir ættu alt, sem þeir unnu að. Alt gekk eins og í sögu; hver vann það sem honum hafði einu sinni verið falið. Stundum rjeru þaðan 25 menn eða fleiri, en úti og inni fór alt fram með hinni mestu reglu. Jeg hugsa að þar hafi ekki veið sá hlutur, stór eða lítill, hvorki í bænum eða í skemmunni niður við sjá, sem ekki mátti ganga að vísum í myrkri. Henni var gefinn sá fágæti hæfileiki, að líta eftir öllu og gæta alls, án þess að vart yrði, og aldrei skifti hún sjer af neinu, nema það væri nauðsynlegt, og þá oft þannig að hún vann verkið sjálfi, án þess að hafa orð á því við nokkurn mann. Hún vissi, að sá, sem hlut átti að máli, mundi sjá, að það hefði verið vel gert, og ljeti ekki þurfa að gera það aftur. Hún átti að því leyti hægara en margar húsfreyjur, að vinnufólkið kom oftast ár eftir ár, en ef ný stúlka kom, þá samdi hún sig að siðum þeirra, sem fyrir voru. Þar var og gnægð í búi til alls; margir kornvörusekkir og margir sykurkassar, og svo var um hvað eina, sem til þurfti. Gestrisni var þar mikil. Á hverju sumri komu gestir í hópum, nálega hvern sunnudag, þegar gott var veður, og þeir komu raunar allan ársins hring, bæði vinir og fólk, sem átti einhver erindi, eða  sjófarendur, sem ætluðu til Akraness, en urðu að snúa við vegna stórviðra. Allir voru hýstir og gert gott, án endurgjalds. Heimilisstjórn komst af sjálfu sjer í hendur Kristni og Ragnhildi.

Pjetur Kristinsson

Pjetur Kristinsson, maður Ragnhildar, var líkur báðum foreldrum sínum. Hann var mikill vexti og sterkur eins og faðir hans, mildur og athugull eins og móðir hans. Hann var allra manna friðsamastur. Honum fylgdi glaðværð og sáttfýsi, hvar sem hann kom; var hann svo mikill gleðimaður, að þá þótti sem margmenni kæmi, þar sem hann bar að garði, og hjelt hann eins gleði sinni síðasta ár æfinnar, þó að hann væri þá lengstum dauðvona. Einu sinni kom fátæk ekkja til þess að leita sjer sveitarstyrks hjá föður hans, sem þá var oddviti, og minnist jeg varla að hafa sjeð alúðlegri viðtökur en þá, þegar hann fylgdi henni inn göngin og lauk upp fyrir henni stofuhurðinni og bauð henni að koma inn. Enginn aðalsmaður hefði getað leitt drotningu til sætis af einlægari virðingu. Jeg óskaði þess, að allir gætu sýnt bágstöddum sömu nærgætni, og jeg óskaði, að jeg gæti það sjálf.

Andlát Pjeturs

[Pjetur] hafði þjáðst af mænusjúkdómi og verið heilsulaus tvö síðustu ár ævinnar.

Jeg fór út í Engey, þegar hann var jarðsunginn og fylgdi honum til strandar, þegar líkið var flutt til Reykjavíkur til greftrunar. Farið hans var þá orðinn blindur og fjekk enga bót á því, þó að hann væri ekki fullra sextíu ára.

Kistan var látin á þófturnar í áttæring, sem flaut þar í vörinni. Kristinn stóð í fjörunni, hár og beinn, og starði fram fyrir sig á sjóinn. Otti, fóstursonur hans, bar hann út í bátinn og setti hann á þóftu hjá kistunni. Þar settist hann rólegur, án þess að stynja eða tárfella. Þá minntist jeg þess, þegar jeg sá Pjetur, hálfu öðru ári áður, þar sem hann sat á kistu við loftskörina, í fyrsta skifti, sem hann komst svo langt eftir legu sína, mestan hluta vetrar. Hann gekk þangað á tveim hækjum og vissi þá, að hann kæmist aldrei til fullrar heilsu. Þrjátíu og fjögra ára gamall var hann orðinn heilsulaus maður. En hvorki stundi hann nje grjet, kvartaði ekki og var glaðlegur og skemtinn, eins og hann átti að sjer.

Jeg hvarf heim aftur til þess að vera hjá yngstu dóttur þeirra [Marenu] á meðan hitt fólkið var að heiman. Hún var þá ekki nema þriggja ára. Um kveldið, þegar móðir hennar var frammi og jeg sat við rúmið hennar, þá sagði hún mjög alvarlega við mig: “Jeg veit vel. hvað þið hafið gert við pabba minn. Þið hafið flutt hann til Reykjavíkur og jarðað hann. En jeg vil ekki gráta, því að mamma fer að gráta, ef hún sjer mig gráta.” Og þegar mamma hennar kom inn, lagði hún augun aftur og ljet sem hún svæfi.


Úr munnlegri geymd hef ég það, að þeim Engeyjarsystrum, ömmu og systrum hennar, hafi ekki verið vel við nafnið Steinunn. Það var þannig til komið að vinnukona nokkur í eynni hét þetta og Kristinn Magnússon mun hafa átt vingott við hana meira en góðu hófi gegndi. (Sigurður bróðir minn hafði heyrt að hún hefði heitað Hildur, en Baldur Hafstað sagði að móðir hans, Ragnheiður dóttir Marenar, hefði sagt að þetta hefði komið upp þegar Steinunn systir hans var skírð).

Sagt hafði verið að síðustu ár sín hafði Guðrún Pétursdóttir setið á loftinu við gluggann og horft út á hafið. Ekki veit ég hvort vísað er í þessi mál þegar Ólafía Jóhannsdóttir segir: „Hún átti til að vera langrækin og var þá kuldaleg í svörum eða þögul.“

Ólafía ömmusystir mín sagði mér að hún hefði munað vel eftir afa sínum blindum í eynni. Hann fékk þær systur oft til þess að leiða sig úti við.

Mamma hélt að bæði Kristinn og Ragnhildur hefðu gifst til fjár. Kannski var hún bara að gantast með það. Hún hafði það helst fyrir sér að þau voru bæði fríð sýnum en makarnir venjulegri. Guðrún virðist þó hafa verið eftirsótt miðað við alla þá vonbiðla sem hún hryggbraut og Pétur greinilega hrókur alls fagnaðar. Þeir eru til frændur mínir sem lýsingin á honum gæti vel átt við.

Þó að ég muni vel eftir ömmu, sem bjó heima hjá foreldrum mínum, þá var ég of lítill til þess að spyrja hana um Engey. Hún las fyrir mig þjóðsögur löngum stundum og var mér ákaflega góð, en dó þegar ég var átta ára, áður en ég hafði vit á að spyrja um gamla daga.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.