Sagnaþættir úr Engey

Ég fór út í Engey um daginn með mörgum ættingjum mínum. Líklega er þetta fjórða ferð mín þangað. Ferðin varð til þess að ég fór að kann ýmsar heimildir um forfeður mína og –mæður sem bjuggu á eynni. Baldur frændi minn Hafstað flutti ágætt erindi um eyna fyrir hópinn, en hann hefur skrifað um hana, bæði Landnám Ingólfs, sem var rit sem kom út í þremur bindum, og Lesbók Morgunblaðsins.

Að gamni mínu fletti ég upp í nokkrum blöðum frá 19. öld og tók upp sumt af því sem sagt er um Engeyinga. Til þess að skýra ættbogann lauslega þá er hann svona á þessu tímabili. Ég strika undir nafn þeirra sem koma við sögu í heimildum hér á eftir:

Snorri ríki Sigurðsson (1754-1841) og Guðrún Oddsdóttir (1752-1818)
Ólöf Snorradóttir ( -1854) og Pétur Guðmundsson (1786-1852)
Guðrún Pétursdóttir (1817-1900) og Kristinn Magnússon (1827-1893)
Pétur Kristinsson (1852-1887) og Ragnhildur Ólafsdóttir (1854-1928)
Guðrún Pétursdóttir
Guðrún Benediktsdóttir
Benedikt

Á myndinni hér að ofan eru Kristinn Magnússon, Guðrún Pétursdóttir, kona hans, og Pétur Kristinsson, sonur þeirra.

Ég er reyndar líka afkomandi Ólafar Snorradóttur og Péturs Guðmundssonar á þennan veg:

Ólöf Snorradóttir og Pétur Guðmundsson
Guðfinna Pétursdóttir og Hafliði Nikulásson
Guðný Hafliðadóttir og Jóhannes Zoëga
Tómas Zoëga
Jóhannes Zoëga
Benedikt

Fyrstu heimildir í blöðum á timarit.is voru um Guðrúnu Oddsdóttur. Um hana segir Klausturpósturinn, 1891, 11. tbl. 2. árs. bls. 176:

Hér geymast moldir góðrar Konu
Guðrúnar Oddsdóttur
Ektaquinnu
Snorra Bónda Sigurðarsonar
Hún deyði að Engey 1818
þá 66 ára gömul
Tíu Barna merkileg Móðir

Greind, dugleg, gædfturík,
gjafmild húsfreya, ró
þyggur nú, lögð hjer lík
lifir sæll undi þó.
Með orðstýr minning lifir
loflegum, þeim hún lifði’ og dó.

Sigurður bróðir minn hefur velt fyrir sér örlögum Péturs Guðmundssonar, bónda í Engey. Pétur drukknaði árið 1852. Frásögn samtímablaða er svona:

Þjóðólfur , 92. tölublað , 29. september 1852.

Að kveldi 22. d. þ. m. drukknaði bóndinn Pjetur Guðmundsson í Engey á leið hjeðan úr bænum út í eyjuna. Hann var á litlum bát með sonarsyni sínum nýfermdum. Hvolfdi bátnum undir eyjunni, því bæði var dimmt og gekk að hið mikla aftakaveður, sem var daginn eptir. Pilturinn skolaðist í land og skreið heim undir bæinn, þar fannst hann um kveldið máttvana, en fjekk aptur bæði fjör og líf. Lík Pjeturs sáluga hefur ekki fundizt. Hans sakna margir menn, því Pjetur var sómamaður mikill, góðviljaður og hjálpsamur.

Þjóðólfur , 93.-94. tölublað

Lík Pjeturs sáluga í Engey fannst rekið af sjó upp á Akranesi; þangað var það sókt og flutt hingað til bæjarins,og var útför hans gjörð 28. f. m. með heiðri og sóma,eins og hæfði harmdauðum heiðursmanni.

Norðri, 1.-2. tölublað 1853

Að kveldi hins 22 septembrm. [1852] drukknaði Pjetur bóndi Gubmundsson í Engey, á leið úr Reykjavík heim til sín ; hann var á bát með sonar syni sínum; veður var fjaskalegt; hvolfdi þá bátnum við eyna, en drengurinn komst að landi. Lík Pjeturs rak upp á Akranes.

Baldur Hafstað bætir við í áðurnefndri grein í Lesbókinni: „ Pétur … mun hafa verið við skál.“ Sigurður segir að mamma hafi sagt svo frá að báturinn hafi komist að landi, en Pétur verið svo drukkinn að hann ekki komist úr bátnum. Drengurinn hafi ekki kunnað við að segja strax frá því hvernig ástatt var og menn hafi átt von á Pétri fljótlega á eftir honum. Þegar loks var vitjað um hann hafði bátinn rekið frá landi aftur. „En það er óþarfi að vera að tala mikið um þetta“, hafði mamma bætt við. Baldur segist ekki hafa heyrt þessa sögu og ég man heldur ekki eftir því að mamma segði mér hana.

Ekki veit ég hvernig fjárhagur Péturs var, en a.m.k voru opinber skipti á búi hans eins og sjá má í næstu fréttum:

Ingólfur, 2. tölublað 1853

Allir þeir, sem eiga til skuldar að telja í dánarbúi bóndans Pjeturs sál. Guðmundssonar á Engey, innkallast hjer með til að sanna þessar kröfur sinar, fyrir undirskrifuðum settum skiptaráðanda búinu, innan tólf vikna frá þessari auglýsingu.
Kjósar- og Gullbringusýslu skiptarjetti
d. 26. jan. 1853.
Th. Jonassen.

Þriðjudaginn þann 10. maí næstkomandi um hádegisbil, verður haldið uppboð í Engey á dánarbúi Péturs heit. Guðmundssonar, og verða þar seldir ýmsir búshlutir, sængur – og íverufatnaður, bátar og veiðarfæri og nokkuð af lifandi skepnum. Skilmálarnir verða birtir á uppboðsstaðnum.
p. t. Kjósar- og Gullbríngusýslu skrifst. 28. apríl 1853.
Th. Jónasson.

Þjóðólfur , 126.-127. tölublað 1853

Föstudaginn þann 30. þessa mánaðar, um hádegisbil, verður jörðin Skálpastaðir i Lundarreykjadal,30 hndr. að dýrleika, tilheyrandi dánarbúi Péturs heitins Gúðmundssonar á Engey, boðin upp í Keykjavík, hvað hér með auglýsist.   –
Kjósar og Gullbr. s. Contóri 14. sept. 1853.
Th.  Jónassen.
(settur).

Pétur hafði skrifað um öryggi sjómanna, þó að það hafi gleymst með skelfilegum afleiðingum í hans hinstu för:

Fáeinar formannareglur

handa ungum formönnum (úr Búnaðariti S. A. Húss og bústjórnarfjelags 2. byndi Viðeyjarklaustri 1839) eptir fyrrum hreppstjóra og Dannebrogsmann Þórð Jónsson á Bakka, með athugasemdum eptir 0. M. Stephensen Viðey sekratera; Pjetur Guðmundsson Engey meðhjálpara, Jón Snorrason í Reykjavík hreppstjóra og X.

P. G.: Margt er það, sem ungur formaður þarf að athuga, áður hann, sem menn kalla, er kominn til lags og ára; fyrst og fremst tel eg það, að hann finni það hjá sjálfum sjer, að hann kunni vel að öllum þeim verkum, sem til sjómennsku heyra, því annars hefir hann eigi fullt vit á, hvað hann í hvort sinn, eptir kringumstæðum, á að skipa hásetum sínum. Hann ætti sjerílagi meðan hann er ei fullæfður í skipstjórn og umsjón skips og manna, að velja sjer einn eða fleiri æfða og reynda háseta hverra ráð hann gæti haft fyrst um sinn, ef eitthvert vandhæfi upp á kemur, því mikið er í húfi, ef eitthvað fyrir einræði hans fer miður en skyldi; sjálfur þarf hann þó að vera öruggur og úrræðagóður i öllum hættum, svo honum fallist ei hendur, þó nokkuð ábjáti; hressir það hugmóð háseta hans, en opt hefir það vel farnast, sem tvísýni þótti á, ef því var með einbeittum og einhuga öruggleika áfram haldið; þó er honum allt kapp bezt með forsjá, og þarf hann því að vera aðgætinn, með veður, bæði á sjó og landi, og passasamur um að sjerhverjar skipsnauðsynjar sjeu af hásetum vel umhirtar á sínum vissa stað í skipinu, og til taks, ef á þarf að halda.
Hann verður að sjá fyrir því, að allt það til skipsins heyrir, segl, reiði, árar, keypar og allt annað sje traust og öflugt, svo ekki bili, þegar mest á liggur. Hann ætti að venja sig á, að fara vel að sjó, og kalla jeg það, ef hann sækir djarft en situr ekki lengi, sízt þegar tvísýnt veður er á loptinu. Fyrir engan mun ætti hann að bíða á sig myrkur á haust- eða vetrarvertíðum og róa ekki fyr en í dögun að sjóbjart sje.

Endurprentað í Sæbjörg 1. árg. 1892

Þegar Pétur dó tók tengdasonur hans Kristinn Magnússon við búinu. Kristinn var kunnur útgerðarmaður og skipasmiður. Flestir virðast á því að hann hafi verið afbragð annarra manna. Ég man að Ólafía ömmusystir mín sagði mér að hún myndi vel eftir honum og talaði um með væntumþykju.

Um Kristins Magnússonar er þess m.a. getið í blöðum að hann hafi gefið Þjóðgripa- og minjasafni trafakefli fagurlega útskorið frá árinu 1705.

Hann vann verðlaun fyrir æðardún.

Í mars 1870 bjargar Kristinn mörgum mönnum þegar bátar þeirra fórust í aftakaveðri.

Kristinn leggur til kappsiglingar og kappróður og er heitið verðlaunum.

Hann kom semsé víða við. Engeyjar er nánast alltaf að góðu getið í blöðum. Þó er kvartað yfir einu þ.e. vitanum, en ég veit ekki til þess að hann hafi verið neitt á vegum Kristins. Enda er spurt hver eigi þennan vita eiginlega:

Þjóðólfur 26. tbl. 1878

Vitalampinn i Engey. Er leyfilegt að spyrja:Hver á vitalampa þann, sem stundum er kveykt á í Engey, þegar von er á póstskipinu? Kostar póstskipið hann? Kostar bærinn hann? Kostar landið hann? Hver sem á að kosta lampa þennan, þá er stór þörf á að hann logi optar en hann gjörir. Nýlega viltist skip í slæmu veðri um nótt frá sundi því, sem fara á inn með Engey inn á höfnina, og lág við sjálft að það færi í strand, og hefði það hlotizt af því, að ekki logaði á lampa þessum, sem vér sjáum ekki betur en sé bráðnauðsynlegur hér við innsiglinguna þegar myrkur er. Hver sem lampa þennan á, ætti ekki, úr því honum er nú einu sinni klúngrað upp, að spara nokkra steinolíupotta og hætta á að stór tjón af því hljótizt, heldur ætti lampi þessi að loga á hverju hausti meðan skipa er von, t. a. m. frá 1. september.

Yfirleitt voru ekki kindur í Engey vegna æðarvarpsins en þó var undantekning árið 1877.

Ísafold, 24. tbl. 1877

Kindur þær 4 úr Mosfellssveit og Kjós, er sendimaður Húnvetninga, herra Jóhannes Guðmundsson, sagði með kláða í vor, hafa verið látnar ganga einar sjer út í Engey í allt sumar, til þess að kláðinn fengi að eiga sig, og engin mannshönd á þeim snert, fyr en nú fyrir hálfum mánuði, að lögreglustjórinn í kláðamálinu skoðaði þær ásamt dýralækninum (T. Finnbogasyni), dannebrogsmanni Geir Zoëga og bændunum í Engey. Reyndust þær þá með öllu kláðalausar, og engin merki þess, að þær hefðu nokkurn tíma með kláða verið. Samt sem áður var afráðið, að láta þær vera úti í eynni enn fram eptir haustinu.

Kristinn átti þilskip sem Fanny hét með tveimur öðrum mönnum. Hún sökk þegar verið var að flytja hana frá Færeyjum eins og kemur fram hér á eftir. Langafi minn, Jóhannes Zoëga, var í þessari ferð stýrimaður. Þegar hann kom aftur heim hitti hann Geir frænda sinn á bryggjunni og Geir spurði hvar Fanny væri. Jóhannes svaraði þá: „Hún liggur í bleyti.“ Frásögnin hér á eftir er af skipstapanum:

Þjóðólfur 4. 1878

Strand. Með póstskipinu komu enn fremur menn þeir, sem með síðasta póstskipi f. á. voru sendir til Færeyja eptir „Fanny”, skipi þeirra G. Zoega, Kristins í Engey og Jóns Þórðarsonar. Höfðu þeir látið út 15. marz, en hreppt brátt aftakaveður landnorðan, og hrakti þá suður fyrir Skotland. 24. s. m. braut stórsjór skipið, svo það að eins marði, en næsta dag bar að þýzkt barkskip, er kom með timbur frá Noregi og hafði verið þar veðurtept í 3 mánuði. Þetta skip lagði að Fanny, er hún var að því komin að sökkva, og náði öllum skipverjum heilum en engu öðru. Fengu þeir góðar viðtökur hjá skipstjóra, er lét setja þá í land norðan til á Englandi, og tók ekkert fyrir ómak sitt. Skipverjar fengu hjálp og leiðsögn hjá dönskum konsúlum (sem búa í flestum stærri borgum), og fluttust svo til Leith, og biðu þar póstskips.

Mótmælaaðgerðir af ýmsu tagi eru ekki nútímafyrirbæri. Thomsen kaupmaður hafði svonefndar laxakistur í Elliðaánum, en með þeim náði hann nánast öllum fiski sem í árnar kom, öðrum til hinnar mestu gremju. Kristinn, Þorbjörg Sveinsdóttir, föðursystir Einars Ben. og fleiri tóku til sinna ráða og urðu brautryðjendur á þessu sviði:

Ísafold júlí 1879, 21. tbl.

Laxveiðivjelarnar í Elliðaánum, Thomsens kaupmanns, voru brotnar allar og burtteknar í gær, af 30 manna, með forgöngu Kristins bónda Magnússonar í Engey. Þær hafa verið skemmdar tvívegis áður i sumar, af 4—5 mönnum í hvort skiptið með grímum fyrir andliti og á náttarþeli; þó hefir orðið uppvíst um suma þeirra. Það er nú í ráði á þingi að umbæta laxalögin 11. maí 1876 svo að þau gefi eigi tilefni til slíkra hervirkja sem þetta, og að laxinn verði jafnframt verulega friðaður.

Fróði 17. tbl. 1880

Nú er mælt, að hjer um bil þrjá tigi manna eigi að setja innan skamms í hið mikla fangahús höfuðstaðarins fyrir þessar sakir, og höfum vjer heyrt talinn meðal þeirra hinn nafnkunna heiðursmann Kristinn bónda Magnússon í Engey, oddvita hreppsnefndarinnar í Seltjarnarneshrepp.

Norðlingur 6. jan. 1881,

Athgs. Oss er skrifað að sunnan, að hinn setti dómari í málinu hafi dæmt sómabóndann Kristinn Magnússon í Engey í 1500 króna útlát og annan mann í fangelsi eða tugthús! Og þetta er nú aðeins byrjunin á þeirri miklu rannsókn. Vér erum á glóðum um hver endir hér  á verði.

Þekktastur var Kristinn fyrir skipasmíðarnar eins og hér má sjá:

Tímarit Hins íslenzka bókmenntafélags 1883:

Skipalag það, er nú tíðkast á Suðrlandi, er kallað Engeyjarlag, og mun það nafn komið af þvi, að brœðrnir Jón og Guðmundr, er vóru synir Pétrs bónda í Engey, munu fyrstir hafa notað það, enda hafa þar lengi verið einhverjir hinir beztu skipasmiðir sunnanlands, og töluverðan þátt hefir bóndinn Kristinn Magnússon í Engey átt í því, að bæta seglbúnað og siglingu á Suðrlandi, og hefir það þannig tekizt fyrir áhuga einstakra manna, sem stjórnin gat eigi komið í verk með miklum fjárframlögum á seinni hluta 18. aldarinnar.

Pétur sonur Kristins dó ungur. Af honum segir lítið í blöðum fyrr en tilkynnt er um andlát hans:

Fréttir frá Íslandi 14. árg. 1887

Pétur Kristinsson, bóndi í Engey, dáinn 6. des.,35 ára.

Ísafold 7. desember 1887

Dáinn er í fyrri nótt Pjetur bóndi Kristinsson í Engey, efnismaður á bezta aldri, eptir mikla vanheilsa hin síðustu missiri,

Ragnhildur Ólafsdóttir, kona Péturs, var hin mesta dugnaðarkona. Meðal annars prjónaði hún fyrir fólk eins og hér má sjá:

Þjóðólfur 6. tbl. 11.feb. 1887

Jeg tek að mjer að prjóna klukkuprjónað, brugðið og úbrugðið, svo sem nærfatnað herðasjöl og duggarapeysur, yfir höf’uð allan fatnað, sem brúkaður er úr prjóni, allt eptir því, sem hver vill hafa. Bandið verður að vera þvegið og nokkuð meira en prjónað er í höndunum.
Engey.                  Ragnhildur Ólafsdóttir.

Ragnhildur vildi ekki að farið væri með neitt fleipur um sinn prjónaskap og áréttaði með tilkynningu hvað hún tæki fyrir sitt:

Þjóðólfur 14. tbl. 1888

PRJÓN.
Af því að sumir hafa eigi sagt rjett frá, hve mikið jeg tek fyrir að prjóna, þá vil jeg hjer með auglýsa það, svo að hver sem vill geti gengið að því vísu:
Á skyrtur handa fullorðnum, klukkuprjónaðar 1 kr., með saumaskap 1 kr. 25 a.; brugðnar, eptir stœrð 40—75 a., með saumaskap 60 a. til 1 kr.; buxur eptir stærð 33—75 a.; pils eptir stœrð 50 a. til 1 kr. 50 a.; barnakjóla eptir stærð 1 kr. til 1 kr. 50 a.; karlmannspeisur eptir stærð 75 a. til 1 kr., með saumaskap 1 kr. til 1 kr. 50 a., með kanti 1 kr. 20 a.; trefla 30—50 a.; brugðna sokkaleggi 20—30 a.
Það er áríðandi, að bandið sje vél þvegið, vel unnið, ekki mjög stórt, og sje það hnýtt saman, verður að hnýta það með stórri lykkju.
Hjer með leyfi jeg mjer einnig að auglýsa, að jeg gef þeim, sem því vilja sæta, kost á að fá tilsögn í mjólkurmeðferð, svo sem skyrgjörð og ostgjörð, en einkum smjörtilbúningi, án þess, að þurfa að fá sjer önnur eða kostnaðarsamari verkfæri, en tíðkast á hverju heimili.
Engey, 1. mars 1888. Ragnhildur Ólafsdóttir.

Kristinn lést árið 1893 og var hrósað þá sem fyrr og síðar:

Skírnir 68. árg. 1893

Kristinn Magnússon, bóndi í Engey andaðist 31. júlí (f. í Brautarholti á Kjalarnesi 2. marz 1827). Foreldrar hans voru Magnús bóndi Sigurðsson og Solveig Kortsdóttir. Kona hans var Guðrún Pétursdóttir, bónda í Engey Guðmundssonar. Kristinn bjó í Engey 40 ár og bætti hana mjög, sléttaði um 20 dagsláttur í túni og mjög jókst æðarvarp á eynni á búskaparárum hans. Hann lét sér og mjög annt um að bæta lag á skipum, seglbúnað og sjávarútveg allan og varð allmikið ágengt i því efni, enda smíðaði hann á 3. hundrað af róðrarskipum. Hann var og einna fyrstur manna til að koma á stofn þilskipaútvegi við Faxaflóa. Heiðursgjöf hlaut hann 1882 af styrktarsjóði Kristjáns konungs IX. „fyrir framúrskarandi starfsemi til eflingar sjávarútveg og fyrir jarðabætur“ og heiðursviðurkenningu fékk hann fyrir hreinsun á æðardún frá iðnaðarsýningunni í Kaupmannahöfn 1872; þótti hann jafnan í flestu vera einhver merkastur maður í bændastétt á Suðurlandi.

Lýkur þá að sinni Engeyjarfrásögn.

Benedikt Jóhannesson

PS. Kunni einhver réttar eða ítarlegar frá þessu að segja væri gaman að heyra frá hinum sama.

1 comments

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.