Árásin á Esjuna (BJ)

Esja hefur alltaf verið Reykvíkingum kær og ekkert benti til annars en að hún yrði áfram sama „sviptigna“ fjallið eins og Einar Ben komst að orði. Af gömlum vana birtust í Mogganumástarjátningar til hennar vorið 1956. Enginn átti von á hinni lúalegu árás sem kom um haustið.

Bregðum upp tveimur myndum úr Velvakanda:

„Ég fékk mér gönguferð frá Reykjavíkurflugvelli einn morgun í vikunni, vestur í bæ. Veðrið var eindæma gott, það lá vel á mér, og aldrei hefi ég séð Esjuna eins fallega og þá. Ég hafði samúð með fólkinu, sem brunaði fram hjá mér í bifreiðum — ég hefi grun um, að því hafi legið svo mikið á, að enginn hafi tekið eftir því, hve prúðbúin Esjan var þennan fagra vetrarmorgun.“

Daginn fyrir þjóðhátíðardaginn sjálfan kvartaði Velvakandi yfir því að geta ekki hvílst þegar hann gengi út á sumarkvöldi til þess að virða fjallið fagra fyrir sér.

„Það er oft kvöldfagurt í Reykjavík, ekki sízt um þetta leyti árs, þegar dagar eru langir og ljósar nætur. Og á engan hátt verður fögru vorkvöldi betur varið en að fá sér góða gönguferð, helzt, sem lengst frá ys og umferð miðbæjarins — bíóum, kaffistofum og „sjoppum,“ Og við þurfum ekki að fara mjög langt til að geta notið fagurrar útsýnar og sæmilegrar kyrrðar á kvöldgöngu okkar. … Á hina höndina — og þar skulum við lofa auganu að dvelja — höfum við Esjuna í allri sinni dýrð, hinu síbreytilega litaskarti, sem Reykvíkingar segja, að eigi ekki sinn’ líka — og svo sjóinn lognværan og roðaskyggndan svo langt sem augað eygir út á flóann. — Það mætti nota það að geta tyllt sér hér niður í stundarkorn bara til að horfa á Esjuna og sjóinn undir mildum vorhimninum. Vantar bekki á Skúlagötuna.“

Ekkert er fegurra en vorkvöld í Reykjavík.

En meðan Reykvíkingar áttu sér einskis ills von og Morgunblaðið, sem þá sem nú var málsvari alls sem er fagurt og rétt, mærði fjallið undirbjuggu framsóknarmenn árás úr launsátri.

Fyrstu merki um að eitthvað væri í aðsigi komu í Degi, blaðsnepli sem gefinn var út af framsóknarmönnum á Akureyri. Þar stóð:

„ÞAÐ ER VÍÐAST hvar fallegt í góðu veðri, og Reykjavík er þar ekki undanskilin. Útsýnið er vítt og fagurt, ekki sízt að sjá Snæfellsjökul. Esjuna hefi ég aldrei kunnað að meta. En ég, sem mjög sjaldan kem til höfuðstaðarins, glápi ekki á himininn né fjöllin — heldur húsin. Reykvíkingar eru nefnilega komnir fram úr skaparanum.“

Reyndar lásu fáir sómakærir menn Dag, en til þess að koma áróðrinum örugglega til skila var óhróðurinn endurprentaður í Tímanum, sem heldur fleiri lásu. Samt áttuðu menn sig alls ekki á hverju var von þó að það væri auðvitað með fádæmum að einhver kynni ekki að meta Esjuna.

Stórskotahríðin kom fáum vikum síðar. Einhver S.S. sem sagður er ungur menntamaður skrifaði ferðasögu á Barðaströnd. Í Tímanum18. sept. 1956 birtist eftirfarandi:

„Aldrei hef ég betur séð það en þennan morgun, hvað Esjan er takmarkalaust ljótt fjall. Það er sannast móðgun við öll sæmileg fjöll að kalla hana sama nafni. Það er eiginlega ekki hægt fyrir nema einhverja flatlendiskaraktera, sem aldrei hafa kynnzt almennilegu fjalli. Einna helzt minnir hún mig á fjóshaug. Útrunninn, gamlan fjóshaug, sem þurrir hnúskar standa hér og þar út úr, en þynnri mykja hefur runnið út á milli. Form Esjunnar er nákvæmlega hið sama. Það er glæpur við fegurðarsmekk fólks að kalla Esjuna fjall, hvað þá þau ósköp að kalla hana fallegt fjall.

Og litbrigðin í Esjunni. Þessi útþvældi húsgangur, sem menn rembast við að básúna á svölunum hjá sér, eftir að hafa kúldrast inni í heitu og leiðinlegu kaffiboði. Jafnvel ljótt fjall eins og Vaðlaheiðin hefur miklu fallegri litbrigði þegar síðsumarsnæturnar læðast inn Eyjafjörð.
Já, það er snautlegt fjall Esjan.“

Reykvíkingar áttu á ýmsu von frá landsbyggðarblaðinu, en hér voru höggin látin dynja fyrir neðan beltisstað. Það varð allt brjálað í bænum þegar níðskrifin spurðust út.

Jafnvel Tímamenn sjálfir áttuðu sig á því að hér hafði verið sett nýtt met í smásálarhætti. Innan viku birtist ámátleg afsökunarbeiðni í blaðinu:

„ BLAÐIÐ HEFIR fengið allmargar upphringingar síðustu dagana vegna greinar, sem hér birtist á dögunum eftir S. S. og var ferðasaga í Barðastrandarsýslu. Einkum eru það konur, sem hringja og eru mjög reiðar. Það er engu líkar en gerð hafi verið á þær hatrömm, persónuleg árás. Og hvað er það svo, sem þær reiðast? Það er fyrir hönd fjalls eins hér í grenndinni. Að vísu er þetta ekkert venjulegt fjall, heldur sjálf Esjan, yndis- og eftirlætisfjall Reykvíkinga.

Það er að vísu alveg satt, að þetta voru ill og ómakleg orð um Esjuna, og von til að menn væru ekki á sama máli. En að þau yllu slíkum sárindum og reiði, sem raun ber vitni um, hefði mig alls ekki grunað. Ég hélt satt að segja að ekkert fjall eða blettur á landinu ætti slík ítök í fólki, að menn mættu ekki segja meiningu sína fullum hálsi jafnvel með ómjúkum orðum, án þess að það vekti slíka reiðiöldu. Menn verða ná að muna, að í lýðfrjálsu og prentfrjálsu landi verður mönnum að leyfast að segja fulla meiningu sína um hlutina — jafnvel Esjuna — þó að aðrir séu á andstæðri skoðun.

— Hárbarður”

En hér skjátlaðist Hárbarði. Í prentfrjálsu landi eru ákveðnir hlutir sem alls ekki má segja eða einu sinni hugsa. Mogginn gætti þess að þetta aumingjalega yfirklór yrði ekki til þess að ummælin gleymdust. Borgarstjórnarkosningar voru í lok janúar og í byrjun árs birtist upprunalega klausan með Reykjavíkurbréfi. Auk tilvitnunar í Tímannbirtist eftirfarandi ljóð Einars Ben:

Sviptigna Esja með ennið hátt,
við elskum þig, börnin þín, fjallið blátt.
Hver sveinn vorra fljótandi fjala,
að fjærstu hverfisins stétt,
skal unna þér einlægt og rétt, —
hvort ættin er fjarða eða dala.
Þú dróst að þér Ingólfs augnakast.
Þitt öndvegistjald skal ei þola blett.
Til mannanna í Vík þú mælir fast —
á máli, sem björgin tala.

Vor landsborg er stolt af þér, stirnandi höll
með stormskýja blæjur og skuggaföll,
þar hafsléttan glitrar í gegnum,
gólfbreidd með tanga og ey, —
hugföst hjá hal og mey,
frá því hnokkinn gat staðið á leggnum.
Með ljósanna hvelfing og litskreytt þil
á lífsveginn skín þú og fyrnist ei.
Þú dregur oss heim. — Engin dásemd er til
— sem dýrð þín á norðurveggnum. —

Engum gat dulist hver hafði rétt fyrir sér.

Á kosningafundi fjallaði Birgir Kjaran um hatur framsóknar á Reykjavík og Esjunni:

„Reykvíkingar hafa vissulega veitt því eftirtekt, að Framsóknarmenn hafa ekki látið sér nægja að níða Reykvíkinga og svívirða Reykjavík. Náttúrufegurðin í nágrenni bæjarins fær ekki að vera óáreitt af illkvittni þeirra. Árás „listfræðings“ Tímans á Esjuna mun t. d. lengi verða í minnum höfð.“

Sjálfstæðismenn unnu mesta kosningasigur sem þeir höfðu unnið í þessum kosningum og fengu tíu borgarfulltrúa af 15. Framsókn fékk einn fulltrúa og fannst mörgum það óverðugt eftir þessa fruntalegu árás.

Esjumálið kom víða við sögu í umfjöllun um kosningarnar og Frjáls þjóð sagði að ritstjóri Morgunblaðsins, Bjarni Benediktsson, hefði stutt Framsóknarflokkinn árið 1930. Ritstjórinn, Finnbogi Rútur Valdimarsson, sagði:

„Þá var Hermann Jónasson lögreglustjóri í Reykjavik og efsti maður á framboðslista við bæjarstjórnarkosningarnar. Guðfaðir þess lista var Jónas Jónsson frá Hriflu. Þá gekk Bjarni Benediktsson í fyrsta skipti fram fyrir skjöldu í pólitískri orrahríð. Þá varð Esjan líka í fyrsta skipti atriði í kosningum í Reykjavík. Þegar Bjarni Benediktsson hugleiddi það heima á Skólavörðustígnum, hvernig hann gæti bezt stutt við bakið á Hermanni Jónas- syni, sem kominn var alla leið norðan úr Skagafirði til þess að vaka yfir löghlýðni Reykvíkinga og vildi auk þess gerast forsjármaður mála þeirra á fleiri sviðum, varð hinum unga manni litið til Esjunnar, sem er þvílíkt fjall, að fornmenn hefðu óskað sér að deyja í það. Þarna gnæfði hún, foldgnátt fjall á frerum í janúarmánuði árið 1930. Og þegar Bjarni Benediktsson leit yfir „íhaldsflögin“ í Reykjavík, sem hann eignaði Knúti Zimsen [borgarstjóra og sjálfstæðismanni] og liði hans, virtist honum Esjan hið eina, sem hönd íhaldsins hefði ekki náð að spilla á stöðvum Ingólfs Arnarsonar. Þetta fékk góðar undirtektir í Reykjavík, því að Framsóknarlistinn fékk 2 menn kosna í bæjarstjórn Reykjavíkur og hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, átt þar neitt svipuðu fylgi að fagna.“

Eflaust hefur ekki verið hægt að æsa Bjarna meira en með því að segja að hann hefði verið framsóknarmaður.

Esjumálinu var ekki lokið. Fyrir bæjarstjórnarkosningar árið 1962 rifjaði Mogginn það upp aftur, Framsókn til mikillar gremju. Það var engin ástæða til þess að nýta ekki þetta vopn sem reynst hafði svo vel fjórum árum áður. Alþýðublaðið skrifaði í forystugrein orð sem verða lokaorðin í pistli dagsins.

„Er Esjan falleg?

BARÁTTAN fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í Reykjavík er hafin af fullum krafti, úr því að Morgunblaðið og Tíminn eru byrjuð að rífast um, hvort Esjan sé falleg eða ekki.

Vafalaust hafa hugsandi borgarbúar þungar áhyggjur út af þessu vandamáli. Telja sumir, að það hljóti að vera brot á meiðyrðalöggjöfinni, þegar Tíminn kallar Esjuna „útflattan fjóshaug“. Aðrir telja, að borgarstjóri ætli að fá styrk út á hauginn. Hvernig væri að skipa gerðardóm í málið, láta Heimdall skipa einn mann í dóminn, FUF annan og hafa yfirlæknirinn [svo!] á Kleppi fyrir oddamann?

Benedikt Jóhannesson

Viðbót. Lesandi hefur ljóstrað upp hver stóð á bak við S.S. (sjá neðst)

PS. Ef lesið er meira í grein S.S. sést að hann hefur ekki verið sérstakur gleðigjafi:

„Von bráðar kom inn fölleit stúlka með ket á fati. Úti um land eru allar fallegar stúlkur fölar. Það er eins og fallegar stúlkur hafi hvergi uppgötvað það nema í Reykjavík, að þær verð’a enn fallegri við að sólbrenna. Úti um landið eru það bara durgslegu stúlkurnar og ólag- legu, sem láta sig sólbrenna. Þær fallegu ganga með hvítt skyrböggulsandlit í svona sólríku sumri. Það lagði fnyk mikinn af ketinu. Þetta var feitt saltket, illa verkað. Það var af því ýldufýla.“

Síðar kom:

„SVO ER GUÐI fyrir að þakka, að í seinni tíð hef ég ekki rekizt á það fyrirbæri tónlistariðkunar, sem hét rútubílasöngur. Það var alveg frámunalegur söngur.. .. Ég man, að árið 1944 fór ég til Akureyrar frá Reykjavík, og þá blómstraði rútubílasöngurinn. Það var sér í lagi ótútlegt að sjá af- gamlar kerlingar, sem sennilega höfðu aldrei rekið upp bofs, nema kannske sálm á jólunum, belgja sig upp og kyrja ljóðlist á borð við Rúgbrauð með rjóma á og þvílíka framleiðslu. Þá var líka bílkelerí í tízku. Þegar allir voru orðnir rammhásir af rútubílasöng og hæfi lega sveittir, af þessari tónlistariðkun, þóttist fólk gjarnan fara að sofa. Lagðist þá hvað utan í annað af andstæðum kynjum, og úr því æxluðust svo faðmlög og kossar, einkum ef ferðir stóðu eitthvað fram í myrkur. Nú í seinni tíð er þetta eiginlega hvort tveggja horfið, í rútubílum heyrist nú helzt ekki sungið nema menn séu fullir eða ungmennafélög séu að heimsækja hvort annað. Og rútubílakelerí hef ég bara ekki rekizt á til fleiri ára.“

Og þegar komið er á Barðaströndina kemur síðasta fýlukastið:

„Ég var farinn að líta æði oft á landakortið mitt, er við tókum að nálgast Bjarkarlund. SVONA NÖFN eins og Bjarkarlundur hafa alltaf farið í taugarnar á mér. Fagranes, Fagrihvammur, Bjarkahlíð, Unaðshlíð, Birki- hlíð. Þessi nýgerðu sætsmeðjuheiti, sem eru eins og þau hafi stokkið inn í íslenzkt landslag af síðum einhverrar skandínavískrar klámsögu um pilsaflettingar og blússurifrildi. Mér datt ekki í hug, að nokkur birkihrísla hefði nokkru sinni alið aldur sinn í nánd við þetta staðarheiti. Það er venjan með þessi uppskrúfuðu, utangarna örnefni, sem stjórnskipuð nefnd sérfræðinga lætur viðgangast, að eyðileggi það hugsæi og þá skáld- legu kynngi, sem einkennir íslenzk örnefni. Það ætti að sekta menn fyrir að leggja niður ágæt, íslenzk bæjanöfn eins og t. d. Kúskerpi og Tittlingsstaði og taka upp eitthvert skandínavískt skrúðgarðsheiti í staðinn.“

Líklega hefur þessi grein S.S. markað ákveðin tímamót í bókmenntasögunni og ekki bara í menningarsögu Reykjavíkur.

PPS. Eftirfarandi bréf barst frá glöggum lesanda:

„Heill og sæll.
S.S. Esjuníðingur mun hafa verið Sveinn Skorri.“

Hans er getið hér (aftarlega í greininni).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.