Við vorum á leið inn í Landmannalaugar. Með undursamlegum hætti hafði okkur tekist að fá son okkar til þess að keyra okkur þannig að við gætum gengið sem leið lá inn í Þórsmörk. Sæmilegir hlauparar fara það á rúmlega fjórum tímum eða tæplega fimm. Við ætluðum okkur nokkra daga. Þó að ferðin hefði byrjað klukkan sjö að morgni óð á súðum hjá mér, ég fór á kostum þó að ég segi sjálfur frá. Og reyndar bara ef ég segi sjálfur frá því að félagi minn, sem ég hafði meira að segja eftirlátið framsætið í bílnum, sagði við son minn: „Þetta munum við þurfa að þola næstu dægrin.“ Sonurinn svaraði viðstöðulaust: „Welcome to my world.“
Fyrrverandi félagi og fyrrverandi sonur.
Í Landmannalaugum blöstu við tvær rútur. Ekki þessar venjulegu rútur með útlendum túristum eða lífsglöðum eldri borgurum. Nei, þetta voru rútur eins og maður sér í bandarískum tjaldvagnabyggðum. Í annarri var verslun og hinni íbúð kaupmannsins. Þetta fannst mér snjöll lausn, en félaginn fyrrverandi sagði vagnana ljótan blett á þessum fagra stað og vildi að yfirvöld gripu umsvifalaust í taumana.
Í Laugum biðu okkar vinir okkar sem höfðu komið kvöldið áður, buðust til þess að fylla alla skála á leiðinni af vistum, kræsingum og eðalvínum, þannig að ekki þyrfti neinn að ganga svangur eða láta renna af sér eitt augnablik alla leiðina.
Löng ganga hefst með einu skrefi og eftir að hafa spurst fyrir komumst við að því að best væri að stefna um Grænagil, meðfram Bláhnúk að Brennisteinsöldu. Þetta vissi ég reyndar fyrir enda hagvanur Laugamaður. Eyddi þar viku fyrir 33 árum. Var nánast brúðkaupsferðin mín, nema ég var einn í för ef frá eru taldir 20 Fransmenn sem fylgdu mér hvert fótmál. Ég hafði að vísu talið vænlegra að fara gegnum hraunið, en það er aukaatriði.
Gangan gekk vel. Á tveggja tíma fresti stoppuðum við og nörtuðum í nesti úr malnum. Vinkona okkar las fyrir okkur um svæðið sem við höfðum nýgengið um og það sem við ættum í vændum. Af því að við erum öll á sextugsaldri þurfti að lesa hvern kafla þrisvar og dugði ekki til.
Svæðið kringum Landmannalaugar er einstakt en flestum lítið þekkt nema af myndum. Þegar ég var þarna með Frakkana á sínum tíma hitti ég mann sem var talinn flestum mönnum kunnugri um svæðið. Mig minnir hann hafa heitið Guðmund Laugajarl. Hann svaraði greiðlega úr spurningunum en þó greinilega ekki greindarlega spurt. Þetta sama kvöld var aftakaveður og ég ákvað að hafa tjaldið mitt tómt þessa nótt og eftirláta óveðursnóttina Frökkunum. Beiddist ég gistingar í skálanum sem var auðsótt.
Af því að ég er fyrirferðarlítill eins og kunnugir geta staðfest urðu fáir varir við mig þar sem ég lá í pokanum. Heyri ég þá jarlinn segja: „Ósköp var hann fáfróður þessi drengur sem þeir hleypa með ferðamenn upp á hálendið.“ Bróðir hans svaraði: „Hvað ætli hann viti, þetta grey.“ Systir þeirra sem líka var á svæðinu hafði séð mig og leiddi samtalið annað.
Daginn eftir heilsaði ég upp á höfðingjann að morgni og spurði hvort það væri ekki rétt hjá mér að hann ynni fyrir pabba. Eftir það fannst honum ég ekki alveg jafnvitlaus.
Það var svolítill vindur og það var dálítið kalt. Brekkurnar voru samt ekki neitt mjög háar eða langar. Þegar við komum nærri Hrafntinnuskeri sáum við minnisvarða um mann sem fórst þarna árið 2004 í lok júni. Mogginn sagði þá:
„25 ÁRA gamall Ísraeli varð úti á Laugaveginum svokallaða, vinsælustu óbyggðagönguleið landsins, á sunnudag. Leiðin liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur og er vanalega gengin á 2-4 dögum og er fyrsti áningarstaður við Hrafntinnusker. Talið er að maðurinn hafi aldrei náð þangað, en hann fannst látinn um 1 km norðan við skálann.
Hinn látni hét Ido Keinan og var fæddur 31. ágúst 1979.
Hann fór með rútu upp í Landmannalaugar og hugðist ganga yfir í Þórsmörk á sunnudaginn, en var illa búinn til slíkrar göngu. Var hann á strigaskóm og gallabuxum og sumarjakka. Skálaverðir í Landmannalaugum löttu hann til ferðarinnar en án árangurs og hélt hann því af stað um hádegið. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli hafa skálaverðir ekki heimild til að banna mönnum för og fara þeir á eigin ábyrgð í gönguferðir.
Klukkan 17 barst tilkynning frá Neyðarlínunni til lögreglunnar um mann sem væri villtur og hugsanlega slasaður. Hófst í kjölfarið leit 70 björgunarsveitarmanna á tólf jeppum. Maðurinn hafði sjálfur hringt í Neyðarlínuna úr gsm-síma sínum og sagst vera villtur, auk þess sem hann kvartaði undan kulda. Starfsmenn Neyðarlínunnar reyndu að fá nánari upplýsingar hjá honum um hvar hann væri staddur og gat hann lýst snjó í kringum sig, en þoka, ausandi rigning og rok var á þessum slóðum á sunnudag. Leit björgunarsveitarmanna bar síðan þann árangur að maðurinn fannst klukkan hálfeitt í fyrrinótt, en var þá látinn.“
Á minnisvarðanum stóð „the safe hut nearby yet so far“ og vísaði í að skálinn í Hrafntinnuskeri var ekki nema kílómeter frá eða svo.
Enginn fær að fara inn í skálann í Hrafntinnuskeri nema vera félagi í Ferðafélaginu eða borga 400 krónur. Þess vegna settumst við niður á pallinum en sáum þá fjallið Söðul blasa við. Við í yngri helmingnum sáum að hann varð að klífa og það var vel þess virði, fljótleg ganga, fallegt útsýni og reyndar mesta afrek í ferðinni, ef út í það er farið.
Þegar við komum tilbaka var eldri kynslóðin úthvíld og við gátum haldið áfram. Í hlíðinni glitrar hrafntinnan í sólarljósi eins og milljón perlur.
Á næsta áfanga hittum við útlending sem spurði á íslensku hve langt væri í Hrafntinnusker. Ég greiddi úr því en þegar fallbeygingar fóru að vefjast fyrir viðmælandanum ákvað ég að svara á ensku, en hann hélt ótrauður áfram á íslensku, sem ég nýtti þá til loka samtalsins. Hálf skammaðist mín fyrir að tala niður til mannsins með þessum hætti.
Upp úr klukkan sex birtist Álftavatn. Brekkan þangað niður er svolítið erfið hnjánum eftir átta tíma göngu, líka þeim sem hvílt höfðu á pallinum við Hrafntinnuskálann. Allt gekk samt vel og á leiðarenda vorum við komin um sjöleytið.
Lesendur þreyti ég ekki á tali um dýrar veigar og safaríkar steikur. Þær voru svo ríkulegar að ferðafélagar mínir töldu rétt að bjóða tveimur ungum dönskum stúlkum í matinn með okkur. Eftir þetta má segja að þessar ungmeyjar hafi orðið miðpunktur fararinnar hjá þeim, enda fátt sem gleður menn á þessum aldri meira.
Um nóttina varð fáum svefnsamt. Ekki vegna reimleika heldur hávaða úr þeim sem kom dúr á auga. Ég hvíldist ágætlega enda höfðum við gengið tvær dagleiðir fyrir meðalmenn á einum degi.
Leiðin í Emstrur er sannkölluð eyðimerkurganga að frátöldu Hvanngili, sem Smári taldi reyndar að við ættum að forðast með því að fara aðra leið. Mig grunar reyndar að hann hafi glapist af því að á hinni leiðinni er Klámbrekka, sem hann hafði mikinn áhuga á því að kynnast nánar.
Ofan Hvanngils átum við nesti og fræddumst um leiðina. Ekkert stoppuðum við í húsum þar heldur héldum áfram og komum að fljóti sem þurfti að vaða. Það er svolítið mál að vaða ár. Í hvert skipti sem þess þurfti tók það hálftíma eða svo. Taka af sér gönguskóna, bretta upp skálmar eða fara úr buxum, fara í vaðsokka, vaða, úr vaðsokkunum, í buxurnar og loks sokka og skó.
Skömmu síðar var önnur áning. Leiðin liggur á þessum stað eftir akveginum og við vorum varla sest þegar akandi kom jeppi. Ökumaðurinn stoppaði bílinn fyrir neðan okkur. Úr bílnum stigu íslensk hjón sem spurðu hvort við hefðum orðið tiltekinna útlendinga vör. Við kváðum nei við og þá spurði maðurinn mig hvort ég ætlaði ekki að stofna nýjan flokk. Það var merkilegt að við hittum örfáa Íslendinga á leiðinni, en allir spurðu mig þess sama. Ekkert af því fólki þekkti ég.
Eyðimerkurgangan hélt áfram. Þetta er örugglega fábreyttasta dagleiðin. Með samanburði milli GPS-tækja töldum við að við værum alltaf að komast í Emstrur. Mitt tæki hefði verið lítils virði í nauð því að það beindi okkur að heitinu Emstrum á landakorti en ekki skálanum.
Þangað komumst við á endanum, sem enginn endir var, því að þá þurftum við að halda áfram í gljúfur Markarfljóts, sem eru stórbrotin, en ekki fyrir lofthrædda. Þar urðu hinar vingjarnlegu dönsku stúlkur verðugt myndefni fyrir félagann, sem hefur atvinnu af því að vita hvaða myndir eru fallegar.
Vigdís hafði tekið með svo margar steikur að við gátum opnað steikhús í óbyggðum. Auk stúlknanna fögru af jósku heiðunum buðum við landverðinum, konu í víkingakjól og bandarískum manni frá Savanna-borg í Georgíu-fylki. Hún er frægust fyrir að þar gerist sagan: Midnight in the Garden of Good and Evil. Með hin spjölluðu dönsku ræddi ég við þennan sárfætta pilt. Tek það þó fram að Suðurríkjapiltar eru ekki sérlegt áhugamál mitt.
Landvörðurinn varaði okkur við. Búist var við roki upp úr hádegi daginn eftir og þá er ekki gott að ráfa um öskuþaktar heiðar. Við ákváðum því að vakna snemma til þess að komast á leiðarenda fyrir eyðimerkurstorminn.
Nú svaf ég með tappa í eyrum og sofnaði nánast um leið og ég lokaði augum. Það er ekki gott að sofa með tappa í eyrunum. Mér fannst eins og ég væri í einangrunarklefa (þetta fann ég í gegnum drauminn, en eftirlæt lesendum að leysa úr því hvernig ég veit hvernig það er að vera í einangrun). Um tvöleytið vaknaði ég og losaði tappana úr eyrunum. Svaf miklu betur eftir það.
Næsta morgun var ég einn útsofinn. Upp úr átta lögðum við af stað, síðust allra. Fljótlega fer maður yfir brú sem snillingar smiðu að sögn bókarinnar góðu sem úr var lesið kvölds og morguns. Gilið sem brúin liggur yfir er djúpt og erfitt að því að komast.
Gerðist nú fátt markvert nema upp úr ellefu sáum við sandfjúk í fjallshlíðum til vesturs og fljótlega sáum við að bakvið okkur var þykkt moldrok. Samt stóð það nokkurn veginn á endum að við komumst í gróðursældina þegar rokið náði okkur. Þetta eru einu óþægindin af ösku á þessari leið sem ég varð var við.
Síðasti farartálminn er Þröngá við Þórsmörk, straumþung á sem best er að leiðast yfir (það er haldast í hendur þegar maður fer yfir). Áfanginn yfir í skála Ferðafélagsins er drjúgur og varð drýgri hjá okkur því að við ákváðum að ganga alla leið yfir í skála útivistar í Básum á Goðalandi.
Þar sagði landvörðurinn okkur að Íslendingar væru fáséðir í sumar. Fólkið sem kom hálfmóðursjúkt í fréttir í lok maí, til þess að segja frá því að Þórsmörk væri grafin í ösku líkt og Pompei forðum daga, hefur greinilega hrætt aðra frá ferðalögum í þessa náttúruperlu sem var nákvæmlega jafngróðursæl og venjulega, ef ekki grösugri.
Af því tilefni að við höfðum komist á staðinn gaf hann okkur bjór.
Svo kom sonur Smára og Ingibjargar til þess að sækja okkur, eftir að faðir hans hafði gert sitt besta til þess að afvegaleiða hann með leiðbeiningum.
Ferðin búin og ekki þarf að fara Laugaveginn aftur. Hægt að haka við hann.