Daniel Hannan frá Englandi kom hingað til lands í síðustu viku. Hann er þingmaður á Evrópuþinginu og Íhaldsmaður og hitti marga á fundum. Mér gafst færi á því að ræða við hann.
Heimdallur stóð líka fyrir opnum fundi sem ég sótti. Mér fannst gaman að því að við innganginn stóð Ragnar Arnalds og bauð mig velkominn í hópinn, en ég hafði ekki áttað mig á því að Ragnar væri Heimdellingur. Enginn vafi er á því að nánast allir sem á fundinum voru höfðu fyrirfram ákveðnar skoðanir um málin og Hannan reyndist létt að spila inn á Evrópuandúð fundarmanna.
Hannan er mælskumaður og hefur lag á að koma fundarmönnum í stuð og margoft var klappað. Hann sagði margt áhugavert þó að flest sé hafi reyndar verið mælskubrögð og ýmislegt sem erfitt er að sannreyna. Hann tók það fram, bæði á skrifstofunni hjá mér og á fundinum að hann talaði bæði frönsku og spænsku. Það er líka tekið fram á heimasíðunni hans. Hann fékk ekki að vita hvaða tungumál ég tala eða skil.
Hann kvartaði undan því að reglugerðir streymdu frá Evrópusambandinu á ógnarhraða. Íslendingar munu taka upp eina Evrópureglu á dag að jafnaði en þær eru miklu fleiri sem við tökum ekki upp, einkum í landbúnaði. Það er athyglisvert að hann nefndi sem dæmi ýmsar reglur sem hann hrósaði, en taldi að prinsippið ætti að vera að löndin ákvæðu þetta sjálf.
Eitt dæmið var um að börn ættu að nota bílstóla þar til þau næðu ákveðinn hæð eða yrðu tólf ára. Hann lét þess ekki getið, en hæðin er 135 sm sem flest börn ná þegar þau eru níu ára. Ég sagði honum að þetta væri ekki vandamál á Íslandi því að við gæfum börnum að borða. Ég fletti reglugerðinni upp og eftir fimm ára aldur er nóg að hafa sessu. Á fundinum talaði hann bara um reglugerðina sem skikkaði tólf ára börn í bílstóla.
Hannan taldi miklu betra fyrir Breta að eiga viðskipti við Nýja Sjáland en Evrópulönd vegna þess að lagaumhverfi Nýsjálendinga væri svo svipað og í Englandi. Ég spurði hann hvort það væri ekki einmitt tilgangurinn með Evrópusambandinu að samræma reglur þannig að auðvelt væri að eiga viðskipti. Hann svaraði því ekki.
Þingmaðurinn sagði að Bretar hefðu átt 65% af fiski í Norðursjó þegar þeir gengu í Efnahagsbandalagið, hefðu fengið 25% og 15% af verðmæti. Þetta hefði verið kallað aðgöngumiðinn að félaginu. Ekki veit ég hvað er til í þessu.
Hann sagði frá því að hann byggist við að Íslendingum yrði boðinn viðauki við samninginn þar sem þeim yrði lofað fullum yfirráðum yfir fiskimiðunum, en þegar fyrsti spænski fiskimaðurinn færi með má fyrir Evrópudómstólinn yrði viðaukinn felldur úr gildi. Samningur myndi alls ekki standast nema fiskveiðistefnunni yrði breytt allri. Boðskapurinn var sá að jafnvel góður samningur væri einskis virði því honum yrði kollvarpað af dómstólum.
Oft var hlegið og klappað á Heimdallarfundinum, en þó ekki þegar Hannan sagði að eðlilegast væri að ljúka viðræðunum og greiða svo atkvæði um samninginn. Ekki láta málið hanga yfir sér endalaust. Margir fundarmanna hafa eflaust staðið að ályktun á landsfundi um að draga bæri umsóknina tilbaka og voru ekki upprifnir yfir þessari uppástungu. Hannan sagðist tilbúinn að aðstoða Íslendinga við að gera eins góðan samning og gott væri. Ég sagði honum að það væri mikilvægt að hafa svona ráðgjafa sem væri viss um að ætti að plata okkur, fremur en einhvern sem fyndist geislabaugur yfir öllu evrópsku.
Á fundi okkar sagði hann að Íslendingar ættu alls ekki að taka upp evru, veikustu mynt í heimi. Frekar dollar, pund, norska eða danska krónu (sem er evra í dulargerfi. Ég sat á mér að nefna færeysku krónuna). Þegar ég hitti hann voru með honum tveir félagar hans úr Íhaldsflokknum, annar þingmaður held ég. Þeim fannst afleitt hve pundið hefði veikst gagnvart evrunni. Sérstaklega væri það vont fyrir Íra, sem seldu mikið til Breta. Ég spyrði ekki hvort þetta hefði ekki verið vont fyrir Breta sjálfa, því það fylgdi ekki sögunni. Eitt pund var 1,5 evra árið 2007 en er nú um 1,2 og var næstum komið á par í janúar 2009. Ein mynt virðist því vera veikari en evran.
Ég spurði hann um Icesave-málin. Hann sagðist telja að menn hefðu færst mjög nálægt samkomulagi og vonandi tækist að brúa bilið. Hann taldi að Gordon Brown hefði spillt miklu fyrir Íslendingum með upphlaupi sínu í október 2008. Hannan sagði að þingmenn væru hræddir í málunum vegna þess að mörg sveitarfélög hefðu tapað peningum á Icesave.
Í lok Heimdallarfundarins þakkaði ég honum fyrir mikla mælsku, bæði hér og á Evrópuþinginu þegar umsókn Íslands var samþykkt. Hann hefði þá líkt Íslendingum við hetjuna í Sjálfstæðu fólki, sem hann hefði meira að segja nefnt á íslensku.
Söguhetjan hefði barist hetjulegri baráttu fyrir sjálfstæði sínu en í bókarlok hafði hann misst tvær konur, son, búið og bústofninn og væri á leið til fjalla með dauðveika dóttur sína til þess að setjast að í eyðikoti. En sjálfstæðinu hélt hann.
—
Hannan þessi barðist gegn því að Danir tækju upp evruna og hefur um árabil verið helsti baráttumaður gegn því að Sambandið efldist. Agúrkumaðurinn er hann kallaður vegna þess að hann vitnar máli sínu til stuðnings í reglugerð um að agúrkur eigi að vera beinar. Í raun er aðeins um gæðaflokkun að ræða, en eins og með bílstólana er aðalatriðið að láta líta svo út að um sé að ræða fáránlegar reglur hjá mönnum í Brüssel sem ekkert hafi annað að gera en leggja reglustikur við agúrkur eða mæla hæð 12 ára barna.
Hannan líkti Lisabon-sáttmálanum árið 2008 við yfirtöku nasista á völdum með samþykkt þingsins árið 1933 og var í kjölfarið rekinn úr þingflokki Íhaldsflokksins á Evrópuþinginu og starfar nú með nokkrum þingmönnum frá Póllandi og víðar í litlum hægriflokki.
Honum mun hafa orðið tíðrætt um íslenska efnahagsundrið sem sýndi hve miklu betra væri að vera utan Evrópusambandsins en innan.
Á fundi okkar var hann kurteis og frekar málefnalegur, en á Heimdallarfundinum lét hann gamminn geysa og talaði meira í frösum.
Þrennt fannst mér standa eftir:
- Ykkur verður boðinn góður samningur í Evrópumálum en það verður ekkert að marka þann samning ef fiskveiðireglunum almennt verður ekki breytt.
- Þið eigið að ljúka samningunum og bera þá undir þjóðaratkvæði.
- Það er ekki langt í land í Icesave-málinu (tók þó fram að hann væri þar ekki í innsta hring).