Með kveðju til Reynis frænda (BJ)

Það hefur margt á dagana drifið síðan síðasti pistill leit dagsins ljós. Við höfum gengið Laugaveginn, ég veiddi þyngsta lax sem ég hef veitt (ekki mjög þungan), héldum upp á 33 ára brúðkaupsafmæli, Reynir frændi varð níræður, ég varð afi. Hvað á að stoppa við?

Reyni frænda.

Mér finnst eins og ég eigi að skrifa að Reynir frændi sé sjötugur en það getur ekki verið því að synir hans eru að nálgast eftirlaunaaldur. Að vísu heyrir maður að það eigi að hækka eftirlaunaaldurinn en ég er ekki viss um að það sé þeirra vegna. Reynir vann til áttræðs utan heimilis eins og sagt er. Hann hafði orð á því við pabba að nú færi hann að hlakka til þess að eiga svolítið frí þegar hann hætti að vinna. Pabbi sagði honum að búast ekki við því. Meðan hann væri í vinnu væri frí á kvöldin og um helgar. Þegar hann væri hættur væri aldrei frí. „Það gekk eftir“ sagði Reynir.

Reynir hélt upp á afmælið sitt með bravör. Veislan sjálf var í Svartaskógi sem er, eins og fróðir vita, austur á landi. Það er víðar til Svartiskógur en í Kaupmannahöfn. Þar skýrði hann leyndarmálið bakvið það að verða níræður. Í fyrsta lagi þyrfti maður að fæðast snemma og í öðru lagi sýna þolinmæði. Flóknara er þetta nú ekki.

Ég man fyrst eftir Reyni þegar ég var þriggja ára, en ég er ekki viss um að ég muni eftir honum þá í alvöru eða bara af myndum. Það er anginn vafi á því að ég man eftir honum nokkrum árum seinna þegar ég kom austur með pabba og Filipusi múrara. Við flugum austur á Egilstaði. Í ferðinni fórum við suður í Breiðdal í veiði og ég aftók það með öllu að sofa í húsi, þetta hafði átt að vera útilega. Það var látið eftir mér. Daginn eftir settum við pabbi í „stóra laxinn“ sem var umtalaður í mörg ár þar á eftir því að hann slapp. Mig minnir að við höfum haft hann á í þrjú kortér þangað til pabbi missti hann.

Síðar í ferðinni sigldum við frá Norðfirði út í Sandvík og gistum þar í skipbrotsmannaskýli. Þar var kviksyndi, sagði Reynir, sem mér fannst spennandi því að í ævintýrabókum lentu söguhetjurnar oft í kviksyndi. Kannski var það bara þarna fyrir mig og hvorki fyrr né síðar.

Á heimleiðinni vorum við svo seinir fyrir að búið var að loka flugvélinni. Ég hljóp upp landganginn með miklum hamagangi og minnstu munaði að ég dytti fram af honum, því að það var búið að flytja hann frá vélinni.

Þetta er ágætis afmælisgrein, fyrst og fremst um mig en minnst um afmælisbarnið. Þó get ég ekki sagt að ég ætli ekki að skrifa um ættir Reynis og uppruna, það muni aðrir gera, eins og sagt var í Mogganum, þegar menn vissu engin deili á þeim sem um var skrifað.

Reynir vann það afrek að sitja tuttugu ár samfellt í bæjarstjórn með fimm kommum eða sex. Ég sé reyndar að í Mogganum var sagt að þau væru þrjátíu og ekki lýgur Mogginn. Ég held að Reynir hafi setið í bæjarstjórninni í hvaða sæti sem hann var á listanum í kosningunum sjálfum. Það var skynsamleg ráðstöfun.

Í bæjarstjórn undir þessu kommaoki var eflaust erfitt að vera nema menn væru afar þolinmóðir og því hafði Reynir náð þegar á unga aldri. Þetta er því ekki nýtilkominn eiginleiki þó að hann hafi ef til vill ekki orðið honum til lífs fyrr en síðustu árin. Af reynslu sinni þar kenndi Reynir mér eftirfarandi brellu sem ég hef oft notað síðar þegar þörf hefur verið á.

Þegar einhver komminn setti fram hugmynd um einhverja vitleysu, sem líklegt var að hann næði fram í krafti meirihlutans, sagði Reynir stundum: „Þetta var góð hugmynd sem X kom með, en ég er ekki frá því að betra væri að skerpa hana aðeins með því að orða hana aðeins öðruvísi.“ Svo lagði Reynir fram sína tillögu, sem sneri þeirri fyrri algerlega við, fjallaði jafnvel um allt annað mál. Upprunalegi tillöguflytjandinn var svo upp með sér af hrósinu, að hann brosti útfyrir eyru, og hinir, sem hvort eð er höfðu aldrei skilið neitt, samþykktu athugasemdalaust tillögu félaga síns. Svo oft beitti Reynir þessu bragði að bæjarbúar undruðust hve oft hann greiddi atkvæði með meirihlutanum og hann var stundum kallaður „sjötti komminn,“ en í raun var þessu þveröfugt farið.

Í Mánudagsblaðinu var hann kallaður „gáfaðasti maður Austurlands“ þegar hann var í einhverju sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir alþingiskosningarnar árið 1967. Í kosningunum 1971 þegar Sverrir Hermannsson var efstur hjá Sjálfstæðisflokknum sagði sama merka blað: „Langbezti maður þessa lista er auðvitað Reynir Zoega í Neskaupstað, fluggáfaður maður og mikilhæfur. Manni finnst, að hann hefði átt að vera sjálfkjörinn í efsta sætið.“ Þessi blöð var lengi vel að finna á stofuborði Reynis, gestum og gangandi til fróðleiks. Þetta ár var Reynir í einu neðsta sæti listans, enda hæverskur maður.

Reynir vann íþróttafrek sem ekki er á færi margra. Hann hjólaði kringum landið. Ferðin tók að vísu tvo mannsaldra eða svo eða 55 ár, en það gerir afrekið bara merkilegra. Fyrsti áfanginn var milli Akureyrar og Reykjavíkur árið 1936. Svo tók hann smáspretti en lauk svo ferðinni árin 1990 og 1991 með ferðum milli Reyðarfjarðar og Reykjavíkur annars vegar og Vopnafjarðar og Akureyrar hins vegar. Við bræður hjóluðum á móti Reyni og Sveini dóttursyni hans upp að Rauðavatni þegar þeir komu til Reykjavíkur. Það urðu fagnaðarfundir. Fyrir afrekið veitti ég þeim báðum medalíu og varð það upphaf að verðlaunaveitingum mínum, en síðar fengu þeir verðlaun frá mér Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus, Björgólfsfeðgar og Sigurður í Kaupþingi. Ég er ekki viss um að mér hafi farið fram í verðlaunaveitingum.

Reynir var giftur ágætri konu, Sigríði Jóhannsdóttur, og var mikið jafnræði með þeim hjónum (sem þýðir væntanlega að Sigga hafi ráðið öllu því sem hún vildi, eins og við á í góðum hjónaböndum). Þau voru sammála um að hjónabandið hefði verið hnökralítið og það var mikill missir að Siggu þegar hún féll frá árið 1988, langt um aldur fram.

Sigga hélt dagbók um árabil sem Reynir hefur haldið áfram eftir að Sigga dó. Þetta er einstök heimild um sögu fjölskyldunnar sem margir óttast eflaust að kynni að ljóstra upp um ýmislegt sem smám saman hefur fallið í gleymskunnar dá. Hingað til hefur hún þó fyrst og fremst verið notuð til þess, að Reynir hafi rétt fyrir sér í deilum, en um það hafa menn að sjálfsögðu aðeins hans orð, því bókina fær enginn annar að sjá.

Þau hjón kenndu mér að maður ætti alls ekki að pissa í sig, heldur á sig eða í buxurnar. Þessa hef ég gætt vandlega síðan.

Reynir er ekki bara skemmtilegasti maður sem hægt er að hugsa sér (og þá engin ástæða til þess að takmarka sig við Austurland) heldur líka einhver sá jafnlyndasti. Ég hef einu sinni séð hann skipta skapi. Það var í desember síðastliðnum og ég hafði verið fenginn til þess að tala á vakningafundi um göng til Norðfjarðar úr Eskifirði. Ég sagðist skilja vel þörfina á göngum austur, því að pabbi væri frá Norðfirði. Hins vegar væri mamma frá Reykjavík og því skildi ég jafnvel þörfina á göngum suður. Að þessu var gerður góður rómur og menn töldu að fengur hefði verið að komu minni.

Þennan dag þegar við frændur spjölluðum saman og biðum þess að fundurinn hæfist hringdi Reynir á Hótel Egilsbúð og pantar mat fyrir tvo. Hann kallar á mig þegar hann hafði heyrt í kokknum og spyr hvort ég vildi heldur saltfisk eða siginn. Af þessum spennandi kostum valdi ég heldur þann fyrri, en get ekki beinlínis sagt að ég hafi hlakkað til málsverðarins.

Þegar við mættum svo til leiks sá ég að á öðrum borðum sat ungt fólk sem gæddi sér á pitsum og hamborgurum, en taldi að við hefðum lent í einhverjum fastagestamat. Reynir tilkynnti að við værum mættir og tilgreindi að við hefðum valið saltfiskinn. Settumst við svo til borðs þangað sem okkur var vísað. Gengilbeinan þeyttist svo um salinn með skyndibita fyrir sérhvern nýjan gest, en við máttum bíða. Eftir hálftíma þóf fór Reynir fram að skenknum og byrsti sig og spurði hvort við ættum virkilega ekkert að fá. Stúlkukindin varð undarleg á svip og hörfaði inn í eldhús, kom svo fram og stamaði því upp að okkar matur væri ekki tilbúin.

Reynir lét sér þetta illa líka og sagðist hafa pantað borð og saltfisk. Aumingja afgreiðslustúlkan varð undarleg á svip, leit drykklanga stund niður í dagbókina og sagðist því miður ekki sjá neinn Reyni Zoëga þar. Reyndar var ekki eitt einasta nafn í bókinni, en hún hefur viljað láta líta þannig út að hún hefði leitað af sér allan grun. Eftir alllangt þras, þar sem ég sá að Ítalinn í Reyni frænda er ekki dauður úr öllum æðum, hefur líklega beðið þolinmóður í býsna mörg ár, kom í ljós að okkar borð var alls ekki á þessum veitingastað heldur sjómannaheimili annars staðar í bænum.

Sljákkaði nú heldur í Reyni og okkur voru boðnir tveir kostir: Kálfakjöt þarna á staðnum og saltfiskurinn á sjómannaheimilinu. Greip ég nú til gamalkunnugs bragðs og sagði að eins slæmt og það nú væri að missa af saltfiskinum, þá yrðum við líklega að láta okkur kálfakjötið lynda, sem og varð. Mikið skelfing varð ég feginn þessum lyktum, þó að auðvitað segði ég Reyni ekkert frá því.

Í tilefni af afmælinu var plantað reynitré í Svartaskógi. Þetta er tradisjón á stórafmæli Reynis, þá er alltaf plantað reynitré á þessum stað. Þau eru nú orðin tvö og nefnist þar Reynisskógur.

Benedikt Jóhannesson Zoëga (svo að ekki fari milli mála að ég sé frændi Reynis)

Myndin er tekin vorið 2016 þegar Reynir var tæplega 96 ára í kaffi með okkur bræðrum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.