Sumir símarnir voru þannig stilltir að í þeim heyrðist hringing, í öðrum heyrðist ekkert. Þannig var til dæmis síminn á náttborðinu hjá mér. Það var gert til þess að ég vaknaði ekki af værum eftirmiðdagsblundi. Eftir að síminn kom á náttborðið kom mér aldrei dúr á auga fyrir miðnætti, þannig að þess vegna hefði hann mátt hringja af hjartans lyst. En ef ég heyrði hringingu í fjarska gat ég svarað í svefnherberginu með því að ýta á einhvern takka. Þetta var stórsnjallt, en á það hefur ekki reynt býsna lengi.
Einu sinni var ég að útskýra það fyrir næturgesti að ef hann heyrði hringingu í símtækinu þyrfti hann bara að lyfta tólinu, ef enginn hringing heyrðist þyrfti hann að ýta á þennan takka. Augnablik hugsaði gesturinn sig um en þorði svo loks að spyrja: „Hvernig veit ég að einhver er að hringja ef engin hringing heyrist í símanum?“
En þessir símar hafa smám saman týnt tölunni. Enda hringja fáir í heimasímann núorðið. Að minnsta kosti heyrist ekki oft í honum hringing.
Ég á hins vegar farsíma sem stundum er hringt í. Hann hefur verið að smá grotna niður. Líklega er þetta fjórði farsíminn minn, kannski fimmti. Fyrst átti ég Nokia síma sem var þeim eiginleika gæddur að í hvert skipti sem ég stakk honum í vasann hringdi ég í einhvern. Sá sem varð þess heiðurs aðnjótandi að ég hringdi fékk svo að fylgjast með gönguferðum mínum og spjalli eins lengi og hann lysti. Oftast held ég að menn hafi haft fremur litla ánægju af því.
Svo lærði ég að læsa honum og þar kom að ég fékk síma sem hægt var að loka eins og samloku og enginn hætta á að reka sig í takkana. Ég var býsna glaður með þetta. Nú reyndi ég að safna samviskusamlega saman öllum númerum sem ég gat fundið. Ekkert er eins verðmætt og rétta númerið þegar maður þarf að ná í einhvern. Í skrána voru komin hundruð númera. Ómetanleg skrá.
Þá skall ólánið yfir. Síminn gaf upp öndina. Færustu sérfræðingar gátu ekki bjargað listanum verðmæta og ég sat uppi með örfá númer (273 stykki) sem voru á SIM kortinu. Eiginlega var andlát símans margboðað, en samt kom það á óvart að því leyti að ég náði ekki að bjarga númerunum.
En ég þurfti auðvitað líka nýjan síma til þess að geta hringt í þessa örfáu sem eftir voru á símkortinu. Ég mætti í Hátækni, aðalstaðinn í bænum ef maður vill síma.
Afgreiðslumaðurinn sýndi mér tugi síma, en sá sem fangaði athygli mína var með snertiskjá. Hann hefur ýmsa eiginleika. Ég get tekið myndir með báðum hliðum símans, skoðað, stækkað og minnkað, summað inn og út, sent myndir með tölvupósti og prentað út.
Svo get ég spilað lög. Búinn að setja inn mörg hundruð lög sem af einhverjum ástæðum voru á tölvunni minni. Mikið stuð, Raggi Bjarna, Bubbi og Alfreð Clausen.
Flottast er að í tækinu er GPS-tæki. Nú get ég fylgst með öllum mínum ferðum á korti í símanum. Það sýnir líka hvar Hádegismóar eru. Flott græja.
Öll met slær samt að hægt er nota símann sem hallamál. Engar skakkar myndir hjá mér lengur.
Það eina sem ég hef ekki fundið út hvernig hægt er að hringja