Úr öskugrárri forneskju (BJ)

Ég gerði svakalega góð kaup í vikunni sem leið. Í Bókabúð stúdenta er borð þar sem voru bækur hver úr sinn átt. Meðal annars nokkra Íslendingasögur og skylt efni. Af því að ég átti að halda erindi hálftíma síðar og hafði ekkert að gera vantaði mig bók. Reyndar átti ég líka að vera á ráðstefnu sem ég hefði aldrei farið á ef ég hefði ekki talað þar sjálfur. Ég er ekki mikill ráðstefnugaur. Yfirleitt finnst mér lítið varið í ræðuhöld og erindi, þó skánar samkoman til muna ef ég held þau sjálfur, en samt er ekkert óskaplega skemmtilegt.

Í þetta sinn ætlaði ég sem sé að taka með mér bók og valdi hana ekki af lakara taginu. Byskupasögur. Fyrsta bindi. Hver kaupir fyrsta bindi af Byskupasögum? spyr kannski einhver og hið lógíska svar væri að það væri einhver sem ætlaði sér að kaupa líka annað og þriðja bindi. Ég er hins vegar ekkert mjög lógískur og ætla mér að láta staðar numið eftir eitt bindi. Þetta eru elstu sögur af íslenskum biskupum og það er nóg fyrir mig.

Það sem gerði þessa bók ómótstæðilega í mínum augum var verðið. Hver getur staðist bók á 150 krónur? Ég gæti það að vísu ef þetta væri símaskráin eða bók eftir Sjón, en Byskupasögur 1. bindi.

Auðvitað yrðu margir tortryggnir við verðið eitt. Er ekki eitthvað að svona bók? Einhvern tíma gerði ég mér það til dundurs að reyna að finna út hvaða bók hefði prentvillu fremst, þ.e. framar en allar aðrar bækur. Mig minnir að bók eftir Jóhannes Birkiland hafi náð öðru orði í bók sinni röngu. En Byskupasögur eru með prentvillu í titlinum, allir vita að biskupar eru einfaldir. Þeir eru líka sælir því að þeirra er guðsríkið, ef þeir eru ekki kaþólskir, þá eiga þeir varla séns skilst manni. Bókin fjallar um kaþólska biskupa, sem kann að skýra málið. En þetta eru orðnar svo spekilegar vangaveltur að þær skilur enginn sem ekki er annað hvort guðfræðingur eða málfræðingur.

Bókina tók ég sem sé býsna hróðugur og fór að kassanum. Þegar þangað kom sló afgreiðslumaðurinn verðið inn og sagði „135 krónur“. Það var sem sé 10% afsláttur af öllum íslenskum bókum, líka bókum aftan úr pápísku. Þennan dag var enginn endir á heppni minni. Í gleðivímu yfir hve mikið ég hefði grætt greip ég lítið kver sem var á afgreiðsluborðinu og keypti það líka. Það var Vísnafýsn Þórarins Eldjárns. Hún kostaði 2.250 krónur með afslættinum. Mér finnst að Þórarinn ætti að kvarta. Glæný bók með afslætti. Ekki einu sinni prentvilla í titlinum. Hann yrði að náttúrlega að sætta sig við þetta hefði bókin heitað Výsnafísn.

Þetta voru kjarakaup. Í bókinni eru um 50 vísur, hugsa ég. Innan við 50 kall stykkið. Það er ekki dýrt kveðið.

Á ráðstefnuna mætti ég sem sé klyfjaður bókum sem ég gat lesið undir erindum hinna. Þórarin gat ég klárað. Ég las meira að segja tvö kvæði eftir hann sem mér fannst eiga vel við á ráðstefnu um efnahagsmál. Ég endaði ræðu mína svona:

Fé án hirðis

Fé sem ekki hefur hirði
hafnar oft á röngum stað.
Það er naumast nokkurs virði
nema einhver hirði það.

Þetta er skemmtileg bók hjá Þórarni. Hann minnir mig á Piet Hein í mörgum vísum í þessu kveri.

Ég komst ekki jafnlangt með byskupana. Fyrsta sagan er Hungurvaka og hún byrjar svona:

„Bækling þenna kalla ek Hungrvöku, af því að svá mun mörgum mönnum ófróðum ok þó óvitrum gefit vera, þeim er hann hafa yfir farit, at miklu mundu gerr vilja vita upprás ok ævi þeira merkismanna, er hér verðr fátt frá sagt á þessi skrá.“

Hungurvaka vekur sem sé hungur eftir að vita meira. Sögurnar eru þó misskemmtilegar. Byskuparnir voru allir ákaflega góðir menn, sem ekki er alltaf gaman að lesa um. Jarteiknabók Þorláks byskups í þremur hlutum er lýsing á veikindum, kröm og örkumlum manna á öldum áður og áhugaverð lesning læknisfróðum, en minna spennandi fyrir leikmenn.

Þetta var semsé gefandi ráðstefna.

Um daginn lagðist aska yfir Reykjavík. Það hlýtur að hafa vakið gleði fornleifafræðinga. Öskulagið í Reykjavík 2010 mun geta tímasett nákvæmlega aldur alls þess sem askan féll á. Ég hef reyndar áhyggjur af því að gatan er öll sundurgrafin vegna þess að það er verið að skipta út öllum leiðslum. Askan sem fellur ofan í skurðinn gefur það þá til kynna að botnlag hans sé frá 2010. Fornleifafræðingar sem grafa í Selvogsgrunnið eftir þúsund ár munu sjá að leiðslurnar liggja ofan á öskunni og draga þá ályktun að byggðin sé eftir 2010, þó að hún sé nú þegar rúmlega hálfrar aldar gömul. Um þetta verða margar lærðar Skírnisgreinar þar sem sjónarmið stangast á. Mér hefur ekki orðið svefnsamt.

Askan settist líka á bílinn minn. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að láta hana eiga sig þannig að auðveldara yrði að aldursgreina bílinn seinna meir.

Merkilegast var samt að innanhúss fylltist allt af ösku. Það veldur því að nú er hægt að rekja slóðir um allt hús. Ég kemst að því hvort Vigdís er að laumast í ísskápinn á nóttunni, svo dæmi sé tekið um hagnýtingu þessa.

Að lokum svo aftur sé vikið að bókmenntunum.

Í Reykjavíkurbréfi sagði um helgina: „ Ungir bændur viðruðu á dögunum sín sjónarmið um sameiginlega varnarmálastefnu ESB og hugsanlegar afleiðingar hennar hér á landi gengi Ísland í sambandið. Fengu þeir heldur óblíðar viðtökur hjá þeim sem gengið hafa sambandinu á hönd hér á landi og vilja ekki að nafn þess sé lagt við nokkuð það sem þeir ætla hégóma. Var fremur ónotalegt að heyra oflætistóninn í garð hinna ungu bænda, þótt vissulega hafi mátt ræða um gildi og þýðingu sjónarmiða þeirra.“

Ég var ánægður að sjá að það má ræða um sjónarmið bænda. Á hverjum morgni fer ég í Moggann til þess að vita hvað maður má ræða þann daginn. Mér finnst sérstaklega gott að lesa ritstjórnargreinarnar þar sem lítillæti og umburðarlyndi einkenna umræðuna. Hann er greinilega þægilegur maður þessi Haraldur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.