Menningin hefur tekið völdin. Á undanförnum vikum hef ég séð tvö leikrit og hlýtt á tvenna tónleika. Svo gekk ég á eina fjallið í Mosfellssveit.
Fyrst sá ég Reisur Guðríðar í Víkingasafninu í Njarðvíkum. Það er erfitt að fara á þessar slóðir. Enginn maður með sjálfsvirðingu getur fengið af sér að segjast fara í Reykjanesbæ en maður má heldur ekki segjast vera í Keflavík, þá verða Njarðvíkingar móðgaðir. Svo þarf maður helst að vita hvort maður er í innri eða ytri Njarðvík og báðar eiga örugglega að vera með stórum staf. Þannig að auðvitað er öruggast að vera heima, en okkur buðust semsé miðar á frumsýningu á Guðríði og mér fannst það áhugavert.
Sá ekki eftir því. Sýningin er í Víkingasafninu sem er eitt og sér þess virði að mæta á svæðið. Þar er áhugaverð sýning um víkinga og meira að segja fornleifar af svæðinu (úr Höfnum sem líka eru í bæjarfélaginu ónefnda). Það eru þeir feðgar Pétur Einarsson og Einar Benediktsson sem standa fyrir sýningunni. Sýningin sem er eina kona, Þórunn Clausen, sem er vel þess virði að leggja á sig ferðina fyrir (nú ættu glöggir lesendur að velta því fyrir sér hvort átt er við sýninguna eða Þórunni). Leiksviðið er víkingaskipið sem þeir sigldu á til Ameríku árið 2000 Hjálmar Árnason og fleiri. Hann var á staðnum og sagði að eftirminnilegast hefði verið að hitta Díönu Ross á bryggjunni. Hugsið ykkur, hún beið á bryggjunni eftir því að þeir kæmu að landi, Hjálmar og Árni Johnsen.
Á undan sýningunni er hægt að fá súpu sem óhætt er að mæla með. Eiginlega held ég að það sé óhætt að mæla með ferð suður með sjó á þessa sýningu einhverja helgina í sumar. Það er upplifun sem er vel þess virði.
Íslandsklukkan er þekktara verk og á hana fór ég með hálfum huga eftir að hafa séð Gerplu, sem er hálfgerður skrípaleikur (sem er í sjálfu sér í lagi fyrir þá sem hafa áhuga á þannig leikjum). Byrjunin benti til þess að Íslandsklukkan yrði verri. Enginn vill lengur setja á svið leikrit sem er venjulegt, með leikmynd og fólki sem gæti hafa verið til á tíma leikritsins og syngur ekki gamanlög eða slagara.
Smám saman hvarf þó ónotatilfinningin og leikritið var nokkurn veginn eins og það væri eftir Halldór Laxness en ekki leikstjórann. Hann er nafni minn Erlingsson, sem reyndar mætti líka á Guðríði, sem er samin af mömmu hans. Eitt atriði var reyndar svolítið kjánalegt þegar Arne Arneus og þýskur greifi sátu við borð með hljóðnema eins og nútíma samningamenn.
Mér fannst enginn vinna leiksigur, helst Ilmur sem Jón Grindvíkensis, en enginn lék illa eða tilgerðarlega sem oft hendir íslenska leikara.
Þetta er sýning sem ég held að flestir hafi mjög gaman af að sjá. Mér fannst hún ekki jafnlöng núna og mér fannst hún árið 1968. Þá var skólasýning hjá Langholtsskóla. Ég sat líka á efri svölum þá (nú eru reyndar bara einar svalir, en það eru þær sömu). Á bekknum fyrir aftan mig voru engu minni tilþrif en á sviðinu þar sem tvær ástarsögur voru í gangi með tilþrifum. Þær enduðu báðar fljótlega að sýningu lokinni ef ég man rétt.
Megas var aðalnúmerið á Listahátíð og það eina sem ég sá. Hann hélt kannski þrenna tónleika þetta kvöld. Fyrst með pönksveit, svo kór og loks strengjasveit. Það hefði verið markvissara að hafa þá tvenna, jafnvel færri, og blanda þeim ekki saman eins og hann gerði. Það skildist ekki orð af því sem meistarinn sjálfur söng, en þeir sem sáu hann fyrir þrjátíu og fimm árum eða meira geta undrast að hann kom inn á sviðið teinréttur og sperrtur. Í gamla daga undraðist maður stundum að hann lifði af kvöldið þegar maður sá hann á öldurhúsum. En Megas er klár karl og hefur samið ágæt lög, en textarnir skipta miklu og þá vantaði. Með honum söng ung söngkona sem hafði greinilega heldur ekki lært textana frekar en ég því að mér sýndist hún lesa þá af skjá. Ekki mjög prófessionelt fannst mér.
Klassíski kaflinn byggði á því að klæmast á nokkrum vel þekktum stefjum eftir löngu liðna höfunda sem ekki eiga lengur höfundarrétt og blanda inn í það textum Megasar sem líka voru óskiljanlegir. Ég veit að það á alltaf að segja að svona tónleikar séu flottir og að meistarinn klikki aldrei, en …
Kórinn var í bláum dulum. Þær gerðu það að verkum að stúlkurnar sem sungu virtust vera mjög gerðarlegar. Megas stóð í hópnum en hann var ekki í bláum poka þannig að hann virtist grindhoraður. Sumt af þessu var fallegt.
Þegar við Vigdís förum saman á tónleika virðum við fyrir okkur mannlífið. En við erum komin á þann aldur að samræðurnar eru ekki alltaf vitrænar. Vigdís sagði: „Er þetta Sölvi frændi þinn þarna?” og ég svaraði „Nei, þetta er Pétur frændi.“ Vigdís: „Er hann ekki að tala við Möggu?“ og ég fer að hafa áhyggjur af henni og segi sem öllum mátti ljóst vera að hann væri einfaldlega að troða sér gegnum þvöguna. Svo leit ég á hana til þess að athuga hvort hún virtist ekki vera með öllum mjalla og þá sá ég að hún horfði í vesturhluta salarins meðan ég leit í austur. „Þú vilt fara þinn veg, ég vil fara minn veg,“ söng Óli áttavillti í gamla daga.
Daginn eftir fór ég á aðra tónleika sem voru miklu heilsteyptari. Það voru brottfarartónleikar Helgu Svölu Sigurðardóttur flautuleikara. Setjið nafnið á minnið, hún á eftir að skara framúr um langa framtíð. Mér skilst að svona tónleikar séu líka próf og minnugur tónlistarprófa sjálfs mín átti ég ekki von á toppframmistöðu. Þar hafði ég rangt fyrir mér. Prógrammið get ég ekki þulið, en það var fjölbreytilegt. Eitt var útsetning á fiðlukonsert fyrir flautu. Í fylgiriti kom fram að tvö tilbrigðin væri nær ómögulegt að spila á fiðlu, hvað þá flautu. Mér fannst að það hefði vel mátt reyna, þá hefðu áheyrendur getað dæmt sjálfir, en kannski á maður ekki að taka þannig sénsa á prófi.
Í prýðilegu og upplýsandi prentuðu prógrammi kom líka fram að eitt verkið væri „kærkomin hvíld fyrir áheyrendur milli tveggja 20. aldar verka.“ Það var hárrétt, en ég hefði ekki þorað að skrifa það því að annað tónskáldið, Þorkell Sigurbjörnsson, sat í Salnum. Það verk var líka meistaralega spilað, en það var gott að fá hvíldina.
Loksins gekk ég á eina fjallið í Mosfellssveit. Það er ekki Esjan heldur Æsustaðafjall. Það er á milli Helgafells, Reykjafells, Mosfells og Grímmannsfells. Auk þess eru Úlfarsfell, Lágafell, Hádegisfell og Flatafell í Mosó. Skálafell líka ef ríflega er talið. Bara fell nema þetta eina fjall. Gangan er létt verk og löðurmannlegt. En þar með lauk ég fjallahring þessa sveitarfélags.