Úrslitin í kosningunum eru vissulega ákall um breytingar á íslenskum stjórnmálum, en þau sýna glöggt að hatursáróður þeirra Steingríms og Jóhönnu í garð Sjálfstæðisflokksins hefur ekki hrifið kjósendur. Það er ekki nóg að svara sérhverri gagnrýni á aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar með því að segja: Hrun, nýfrjálshyggja. Kjósendur sjá að loforðin um skjaldborgina hafa verið svikin og líklega eru einhverjir farnir að átta sig á því að Jóhanna sjálf hafði meira að segja verið í hrunstjórninni og látið sér vel líka.
Það væru mikil mistök af nokkrum stjórnmálaforingja að hlusta ekki á skilaboð þriðjungs kjósenda í Reykjavík og tæplega helmings á Akureyri. Í kjölfar hrunsins verða menn að hugsa málin upp á nýtt. Margir hafa gagnrýnt framtaksleysi Geirs Haarde eftir hrunið, en hafa gleymt því að hann skipaði tvær nefndir til þess að endurskoða stefnu Sjálfstæðisflokksins, önnur var svonefnd Evrópunefnd og hin Endurreisnarnefndin. Margir komu að starfi nefndanna og unnu af heilindum til þess að reyna að skilja hvað hafði gerst og hvað gera þyrfti í framhaldinu. Því miður var starf beggja að engu gert á landsfundi. Landsfundur sem fyrirhugaður var í lok janúar hefði getað orðið fundur sögulegra breytinga. Veikindi Geirs og ákvörðun um að fresta fundinum urðu þess valdandi að starfið varð að engu.
Skýringanna er annars vegar að leita í því að Samfylkingin rauf samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og það varð til þess að efla mjög tortryggni í hennar garð og allra hennar mála, þar með talið Evrópumálanna. Hins vegar flutti Davíð Oddsson einstæða ræðu á landsfundinum þar sem hann réðst á Vilhjálm Egilsson og Endurreisnarnefndina sem hann stýrði. Ástæðan fyrir bræði Davíðs voru ummæli Vilhjálms um litla lækkun á stýrivöxtum og að eins hefði mátt notast við „gamla settið“ ef ekki átti að lækka meira. Vilhjálmur átti augljóslega við það að ekki hefði verið nauðsynlegt að reka alla seðlabankastjórana með miklum gauragangi, ef þessi vaxtalækkun væri allt og sumt sem út úr því kæmi. Davíð hélt hins vegar að ummælin væru árás á sig sem hluta af „gamla settinu.“ Ræðan mikla, sem varð nýkjörnum formanni myllusteinn um háls, byggðist því á misskilningi. Auk hennar komu svo uppljóstranir um mikil fjárframlög til Sjálfstæðisflokksins frá FL Group og Landsbankanum, tveimur aðalfulltrúum auðmannavaldsins og útrásarinnar. Niðurstaðan var sú að Sjálfstæðisflokkurinn fékk verstu útreið sem hann hefur fengið í Alþingiskosningunum vorið 2009. Hann tapaði rúmum þriðjungi af fylgi sínu (36%) frá kosningunum árið 2007.
Skýrslan mikla um hrunið var ekki til þess fallin að efla fylgi Sjálfstæðisflokksins. Margir foringjar hans eru gagnrýndir harðlega í henni. Öllum mátti ljóst vera að það kæmi flokknum illa að hún kæmi fram svo skömmu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Það virðist hins vegar hafa komið Samfylkingunni í opna skjöldu að skýrslan upplýsti að flokkurinn var í stjórn þegar hrunið varð og hafði verið í átján mánuði. Foringi hennar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hafði á sínum tíma látið í ljós þá skoðun að Baugur, Jón Ólafsson og Kaupþing væru fórnarlömb ofsókna Davíðs. Það er í besta falli broslegt að heyra Jóhönnu tala um lýðræðisumbætur, konuna sem kallaði þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave hráskinnaleik og sat heima.
Niðurstaða kosninganna er sú að Samfylkingin tapar víðast miklu fylgi. Vinstri græn, sem hafa einungis haft tvennt að segja: Nýfrjálshyggja og hrun. Þessi boðskapur hefur ekki hrifið kjósendur. Mikið tap flokksins í Reykjavík kann að mega rekja til þess að ekki hafi verið boðið upp á frambærilegan lista. En sú mikla fylgisaukning sem flokkurinn naut fyrir ári um land allt er greinilega gufuð upp.
Framsóknarflokkurinn er nánast horfinn á höfuðborgarsvæðinu. Þó að hann kunni að hafa haldið fylgi í einhverjum sveitarfélögum og jafnvel bætt það á stöku stað er niðurstaðan engu að síður sú að fylgistapið, sem varð til þess að Halldór Ásgrímsson sagði af sér fyrir fjórum árum, gekk ekki tilbaka.
Það var dapurlegt að heyra Dag B. Eggertsson reyna að skýra mikinn sigur Besta listans með því að fólk vildi breytingar með Samfylkingunni. Þvert á móti sýndu kosningarnar að ríkisstjórnarandstaða hans sem varaformanns flokksins var ekki trúverðug. Stundum hefur maður á tilfinningunni að það sem út honum kemur komi honum sjálfum jafnmikið á óvart og öðrum.
Skoðum fylgi flokkanna í Reykjavík:
Listi | 2006 | 2010 | Breyting |
Besti listinn | 20.666 |
Nýtt |
|
Reykjavíkurframb. | 681 |
Nýtt |
|
Sjálfstæðisflokkur | 27.823 | 20.006 |
-28,1% |
Samfylking | 17.750 | 11.344 |
-36,1% |
VG | 8.739 | 4.255 |
-51,3% |
Framsókn | 4.056 | 1.629 |
-59,8% |
Ólafur og Frjálslyndir | 6.527 | 942 |
-85,6% |
Í ljós kemur að Sjálfstæðismenn tapaði 28% atkvæða úr síðustu borgarstjórnarkosningum, Samfylkingin 36% og bæði VG og Framsókn meira en helmingi. Steingrímur J. Sigfússon talaði í útvarpsþætti um ábyrgð kjósenda í kosningum. Meira en helmingur þeirra sem kaus flokkinn síðast ákvað að bera ekki ábyrgð á honum aftur.
Enginn flokkanna getur vel við unað, en það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn varð ekki fyrir því áfalli sem andstæðingar hans vonuðust eftir. Ríkisstjórnarflokkarnir fá hins vegar alvarlega áminningu. Jóhanna hefur á rúmlega árs stjórnartíð sinni sem forsætisráðherra sýnt einstæða hæfileika til þess að einangra sig frá raunveruleikanum. Aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar og skilningsleysi á aðstæðum almennings eftir hrunið hafa valdið þjóðinni miklum skaða. Í Icesave-málinu voru bæði hún og Steingrímur úr takti við þjóðina þegar þau sátu heima meðan 98% landsmanna hafnaði slæmum samningum. Þau létu skilaboð þjóðarinnar sem vind um eyru þjóta og ekkert hefur breyst. Það væri eðilegt að Jóhanna segði af sér eftir þetta afhroð í kosningunum.
Skoðum stöðu Sjálfstæðisflokksins í nokkrum helstu sveitarfélögunum landsins:
Reykjavík 5 fulltrúar. Tapar tveimur. Vantaði 700 atkvæði upp á að fá sex kosna.
Kópavogur 4 fulltrúar. Tapaði einum.
Garðabær 5 fulltrúar af 7. Hreinn meirihluti. Vann mann.
Álftanes. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti. Vann mann.
Hafnarfjörður. 5 fulltrúar. Vann tvo.
Seltjarnarnes. 5 fulltrúar af 7. Hreinn meirihluti.
Mosfellsbær. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti. Vann mann.
Akranes. 2 fulltrúar. Tapaði 2.
Borgarbyggð. 3 fulltrúa. Óbreytt.
Snæfellsbær. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti.
Grundarfjörður. 3 fulltrúar. Tapaði meirihluta.
Stykkishólmur. 3 fulltrúar. Tapaði meirihluta með 6 atkvæða mun.
Vesturbyggð. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti. Vann mann.
Ísafjarðarbær. 4 fulltrúar. Stærsti flokkurinn.
Bolungarvík. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti. Vann mann.
Skagafjörður. 2 fulltrúar. Tapaði manni.
Akureyri. 1 fulltrúi. Tapaði þremur.
Fljótsdalshérað. 3 fulltrúar. Óbreytt.
Seyðisfjörður. 3 fulltrúar. Tapaði meirihluta.
Fjarðabyggð. 4 fulltrúar. Vann mann og er stærsti flokkurinn.
Hornafjörður. 2 fulltrúar. Óbreytt.
Rangárþing eystra. 2 fulltrúar. Tapaði manni.
Rangárþing ytra. 3 fulltrúar. Tapaði meirihluta.
Árborg. 5 fulltrúar. Vann meirihluta.
Hveragerði. 5 af 7. Bætti við sig manni. Hreinn meirihluti.
Ölfus. 2 fulltrúar. Tapar tveimur. Missir meirihluta.
Vestmannaeyjar. 4 fulltrúar. Hreinn meirihluti.
Grindavík. 1 fulltrúi. Tapar einum.
Reykjanesbær. 7 fulltrúar af 11. Hreinn meirihluti.
Af upptalningunni sést að í þessum bæjarfélögum er Sjálfstæðisflokkur með hreinan meirihluta í 11 af 29. Var áður með hreinan meirihluta í 10, vann fimm meirihluta en tapaði fjórum. Hann tapaði 17 fulltrúum í kosningunum en vann 10. Ekki er hægt að tala um afhroð nema á Akureyri. Hann fær 103 fulltrúa af 241 eða 43% var með 46% fulltrúa.
Staða Bjarna
Margir hafa velt fyrir sér stöðu Bjarna Benediktssonar sem formanns á Landsfundi. Styrmir Gunnarsson og fleiri hafa talað um að nauðsynlegt kynni að vera að endurnýja forystuna alveg. Ekki er hægt að lesa nokkra slíka kröfu út úr niðurstöðum kosninganna. Í kjördæmi Bjarna vinnur flokkurinn alls staðar á nema í Kópavogi þar sem staðbundin mál Gunnars Birgissonar höfðu áhrif.
Ekki hefur legið ljóst fyrir hver ætti að taka við af Bjarna. Helst hafa menn nefnt Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi bæjarstjóra á Akureyri. Úrslitin eru honum ekki gott veganesti í slíka vegferð sem fulltrúi þess sveitarfélags þar sem úrslitin urðu verst, þó að það skýrist auðvitað að hluta til af staðbundnum ástæðum.
Hanna Birna Kristjánsdóttir kom einnig í huga sumra sem kandídat í formannsstólinn. Hefði hún fengið 700 atkvæðum meira hefði staða hennar verið miklu sterkari, því að þá hefði hún aðeins tapað einum borgarfulltrúa í stað tveggja. Margir sáu hana fyrir sér sem varaformannsefni en ekki er víst að hún verði þar í framboði heldur. Enn er ekki komið í ljós hvernig meirihluti verður í borginni, en mikill meirihluti borgarbúa hefur verið ánægður með hennar störf þar.
Hópur í kringum Davíð Oddsson sér fyrir sér endurkomu hans í stjórnmálin með einhverjum hætti á landsfundi. Nokkrir harðir andstæðingar Bjarna hafa lýst því yfir að best væri að fá Davíð aftur. Líklegt er að það hefði svipuð áhrif á fylgi flokksins og ráðning hans á Morgunblaðið hafði á áskrifendahóp blaðsins.
Niðurstaðan er sú að með kosningunum hafi staða Bjarna styrkst. Hann verður hins vegar að gera það upp við sig hvort hann vill að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram aðalvígi þeirra sem aðhyllast frjáls viðskipti og vestræna samvinnu. Hinn kosturinn er sá að flokkurinn standi vörð um einangrun, krónuna og höftin sem einu vörnina gegn óstöðugleika.