Manst’ ekk’ eftir mér? (BJ)

Ég varð fyrir léttu áfalli um helgina. Ekki hjartaáfalli heldur andlegu sjokki, sem ég hef þá verið að búa mig undir í býsna langan tíma. Ástæðan var að ég hitti stúdentsárganginn minn á laugardaginn.

Ekki svo að skilja að það hafi verið leiðinlegt að hitta gamla hópinn. Þvert á móti mjög gaman. Sjokkið var að átta sig á að nú er ég orðinn hálfsextugur. Og það er býsna gamalt.

Þegar ég átti afmæli í vor sem er hefð hjá mér á þessum árstíma var ég hress með það. Fimmtíu og fimm ár er flottur aldur. 55 árgangurinn verður 55. Getur eiginlega ekki verið glæsilegra. 5+5 eru 10 þannig að þetta jafnast nokkurn veginn á við að vera á heilum tug. nema maður sparar sér dýra veislu (en fær reyndar ekki margar gjafir heldur).

Ég hef líka ímyndað mér það að ég eldist virðulega. Á hárið bregði silfurblæ sem gefi yfirbragð hins vitra manns. Ekki öldungs beinlínis en manns með reynslu. Þetta hljómar nú að vísu eins og ég eigi a.m.k. eina dvöl á Vogi að baki og allmörg hjónabönd, en það er ekki svo. Það er vonlaust að skýra þetta án þess að lenda í ógöngum.

Maður verður ekki 55 ára kvaðalaust. Því fylgir til dæmis 35 ára stúdentsafmæli. Það kemur þessu ekki beinlínis við, en við ræddum það lítillega hvers vegna miklu minna er gert úr öðrum afmælum. Til dæmis barnaprófsafmæli, unglingaprófi, landsprófi, bílprófi (margir halda reyndar upp á það í hvert sinn sem þeir fá prófið aftur eftir sviptingu, en mitt gildir enn, ég má stýra upp í 70 manna rútu held ég) eða háskólaprófum. Mörg af þessum prófum voru miklu erfiðari en stúdentsprófið, minnir mig.

Stúdentshópurinn hefur þann kost að vera þokkalega vel afmarkaður, betur til dæmis en bílprófshópurinn, ætti maður að halda upp á það með öllum sem fengu bílpróf sama ár? Ég hef lítið samband við þá sem ég var með í barnaskóla, þó að vel fari á með okkur þegar við hittumst. Einu sinni var reyndar einhver barnaskólahátíð, sem ég kveið óskaplega, en svo var hún ágæt.

Sambandið við samstúdentana er reyndar ekkert sérstaklega mikið nema við stöku mann. Einn samstúdentinn hefur reyndar búið undir sama þaki og ég í bráðum 35 ár og með öðrum hef ég unnið í næstum 15 ár. Þetta er 1% af árganginum (1,5% ef ég er sjálfur talinn með) þar sem sambandið getur varla verið meira. Líklega hitti ég liðlega 10 úr árganginum á hverju ári, yfirleitt sama fólkið, þó að sambandið sé misskipulegt. Hina forðast ég ekki beinlínis og veit ekki til að þeir forðist mig. Við hittumst hreinlega ekki.

Af því að við vorum fjögur ár í sama skóla finnst okkur ástæða til þess að vera saman í hálfan sólarhring á fimm ára fresti. Líklega hefur þetta gerst frá því að við urðum fimm ára stúdentar, en þá var ég ekki á staðnum. Síðan hef ég mætt staðfastlega: 10, 15, 20, 25, 30 og nú 35 ára stúdentsafmæli hafa verið leyst af hendi af mikilli samviskusemi. Öll gengu vel nema kannski þegar við urðum 20 ára stúdentar. Þá láðist að panta mat. Veitingahúsið var með pinnamat fyrir rúmlega helming hópsins, sem var svangur þó. Stórsending af pitsum bjargaði kvöldinu. Fimmtán ára afmælið var líka heldur hrátt, en reyndar mjög skemmtilegt. Var nánast einkaframtak Sigurðar Helgasonar umferðarráðsmanns, ef ég man rétt, en hann bjargaði árganginum frá því að vera afmælislaus á þeim tímamótum.

Á tuttugu og fimm ára afmælinu sungum við bekkjarfélagarnir í 6. Q. Þrjú hjól undir bílnum ásamt Ómari Ragnarssyni, Sigurði til heiðurs, en Ómar var ekki í árgangi með okkur.

Núna byrjuðum við bekkjarbræðurnir, sem erum vissir um að við séum skemmtilegasti bekkurinn í árganginum, klukkan rúmlega tólf á Lækjarbrekku. Þar var líka hópur úr Versló sem hélt upp á 50 ára afmæli af einhverju tagi, held ég. Af því að Versló og MR eru ekki talin góð blanda vorum við hafðir á sitt hvorri hæðinni. (Nú velti ég því fyrir mér hvort Jón Gúmm, gamli íslenskukennarinn okkar, hefði breytt þessu í „hvor á sinni hæð“)

Þó að við hittumst ekki mjög oft flestir var þó eins og við hefðum sleppt þræðinum daginn áður. Menn sögðu reynslusögur úr hruninu og það myndaðist strax hörku stemning. Einhver sagði frá því að gamla stofan okkar, F-stofan, væri ekki til lengur, en þegar við vorum í henni var hún eiginlega bara hálf, þannig að við rétt komumst inn í hana fimmtán, með kennarann við lítið púlt í fremstu röð.

Við höfðum varla náð að þerra hvarmana yfir þessari dapurlegu frétt þegar annar sagði að við værum síðasti Q-bekkurinn í sögu MR. Þetta fannst okkur sérstakur heiður, nánast eins og íþróttamaður sem er heiðraður með því að skyrtan með númerinu hans er hengd upp í rjáfur og enginn ber það númer framar. Menn geta svo velt því fyrir sér hvers vegna það var ósk skólayfirvalda að ekki kæmu fleiri Q-bekkir í skólann.

Strákarnir, því að auðvitað eru þetta strákarnir enn þó að hátt séu komnir á sextugsaldurinn, fóru út á undan mér. Þegar ég kom út sá ég þá hvergi, en tók hins vegar eftir litlum hópi aldraðra manna sem ég gerði ráð fyrir að væru Verslingarnir úr 60 árganginum (eða var það 55). Eftir tvö hvítvínsglös verð ég mjög alþýðlegur og ákvað að heilsa upp á gömlu mennina þó að þeir væru úr Versló. Flestir voru gráir og lotlegir fannst mér, þangað til að ég kom að hópnum. Kom þá upp úr kafinu að þetta voru alls ekki Verslunarskólagengnir menn heldur hópurinn sem ég hafði nýlokið við að snæða með og hafði eytt mörgum árum með í menntaskóla.

6.Q við LækjarbrekkuSvona var nú komið fyrir strákunum mínum. Ég þakkaði guði fyrir að vera ekki eins og þeir, en sagði auðvitað ekkert við þá til þess að særa þá ekki.

Við röltum yfir á Menntaskólalóðina, sem var auðvitað bara steinsnar í burtu. Þar tók ekki betra við. Mér sýndist að við hefðum lent með einhverju allt öðrum hópi, þó að vissulega þekkti ég nokkra. Sem betur fer voru stelpurnar í árganginum flestar sjálfum sér líkar, hjá fæstum þeirra sást eitt einasta grátt hár og engin þeirra var sköllótt.

Ég stóð við hliðina á Ingunni Guðmunds þegar einhver kom að og spurði hvort við værum par. Af því að Ingunn er mjög glæsileg kona sagði ég að það værum við reyndar ekki, en við værum enn góðir vinir. Þetta var látið gott heita. Fljótlega kom Vigdís og gætti þess eftir það að ég væri ekki að stilla mér upp með öðrum konum.

Allur hópurinn fékk að fara í rúturnar tvær, líka þetta fólk sem ég kunni engin deili á.

Verður nú farið hratt yfir sögu. Fyrst fylgdum við Sigurði Emli á flugvöllinn (aðrir farþegar hafa hugsað með sér að þessi væri ættstór, það þyrfti tvær rútur undir nánustu vandamenn sem vildu fylgja honum í flug). Svo fórum við í Fræðasetrið í Sandgerði. Það er eitthvert mesta menningarslot landsins og framleiðir doktorsgráður á færibandi. Þar var dreginn fram vínandi og forstöðumaður hússins, sem reyndist líka vera bæjarstjóri, hafnsögumaður, menningarfrömuður og skemmtikraftur, sagði skemmtisögur af sér og afrekum sínum. Sannaðist þar að margur er knár þó hann sé smár, en þessi maður hafði einn og sér reist Sandgerði og staðið þar fyrir blómlegu atvinnu- og menningarlífi allt frá dögum Hallgríms Péturssonar.

Hann fylgdi okkur svo í Hvalsneskirkju (þar er hann formaður sóknarnefndar), framhjá minnisvarðanum sem hann lét gera um sjóslysið þegar Jón forseti fórst (eða var það Skúli fógeti), að Reykjanesvita þar sem hann er vitavörður. Loks enduðum við í Bláa lóninu og það kom mjög á óvart að sjá ekki þennan afkastamikla mann sem sturtuvörð.

Á leiðinni gat maður greint einn og einn mann úr hópnum. Það höfðu sem sé slæðst innanum nokkrir samstúdentar. Sigfús Bjartmarsson skáld sagði mér að hann hefði ort mikinn bálk um bankamenn sem hefði orðið úreltur við hrunið. Mér heyrðist reyndar það sem hann fór með fyrir mig vera ágætt og vel þess virði að birta. Eitt var eitthvað á þessa leið: Stundum þarf að breyta miklu til þess að allt geti orðið eins og það var.

Sigfús BjartmarsÉg komst í Bláa lónið. Í fyrsta sinn á ævinni. Smá auglýsing. Nú er hægt að komast þangað á tilboðsverði fyrir Íslendinga, þúsund kall. Ég get mælt með baðinu. Þetta er einstakur staður, algerlega sjálfbær. Húðflygsurnar sem detta af sóreasis sjúklingum falla á botninn og mynda leðju sem er skafin upp og seld sem húðsmyrsl. Á barnum er seldur bláleitur vökvi sem kallaður er Bláa lónið, enda glösin hreinlega fyllt úr lóninu á hverjum morgni. Umhverfisvænna verður það ekki.

6.-Q með Helgu. Byrjaðir á víni hússinsVið fengum fínan mat og vín hússins er heldur ekkert slor. Við í 6.-Q drukkum af því mjög margar flöskur og það batnaði með hverju glasi. Vönduð tónlistardagskrá sem við höfðum eytt hálfum mánuði í að setja inn á Ipod Siggi Grétars og ég heyrðist að vísu ekki nema hálf, því að aðra rásina vantaði. Eftir að margir helstu tónlistarmenn og hljóðsérfræðingar landsins höfðu yfirfarið græjurnar kom í ljós að lausnin fólst í því að ég sótti kaplana sem ég hafði komið með að heiman og þá heyrðist líka söngur Ellýjar og Hauks Mortens, en við töldum vissast að hafa prógrammið ekki mjög villt.

Björgólfur Thorsteinsson og BenediktSigurður söng svo fjölmörg lög í fjöldasöng. Textarnir voru mér flestir framandlegir, en mér skilst að Leonce, indverska prinsessan, hafi lagt gjörva hönd á plóg. Sem betur fer voru bekkjarsystkinin betur að sér í indversku en ég og þátttaka var almenn.

Það olli nokkurri ólgu að borðhald og bað tók svo langan tíma að dansleikur sem sömu smekkmenn höfðu sett saman varð ekki nema 26 mínútur. Eftir 23 mínútna dúndrandi stuð og svo lokalagið, Bláu augun þín, rómantískt vangalag, var mjög nærri hópnum gengið. Flestir komust þó aftur út í rútuna.

Þar sat Sveinn M. Sveinsson kvikmyndagerðarmaður fyrir framan okkur og sagði frá því að Leifur föðurbróðir hans væri kominn á Grund. Leifur hélt lengi úti Sagnabanka Leifs Sveinssonar í Lesbók Morgunblaðsins. Sveinn í Völundi, faðir Sveins kvikmyndagerðarmanns, hafði verið á Grund síðustu árin, en hann lést fyrir nokkrum árum.

Sigurður Grétarsson og Sveinn heitinn hljóðnemastandurSveinn yngri hafði sem sé hitt Leif frænda sinn fyrir nokkru og spurt hvernig honum líkaði á Grund. Leifur lét illa af því og sagðist ekki vera hann sjálfur. Nú, segir þá frændinn, „hvernig stendur á því.“

„Þetta fólk er svo ruglað að þegar ég geng um stoppa allir mig og segja: ‘Sveinn minn, ertu kominn aftur?’ Þannig að ég kynni mig alltaf sem Svein heitinn.“

Þannig að svona endaði þessi stúdentsferð, þrettán tímum eftir að hún byrjaði og við kvöddum alla með kossi, sérstaklega Svein heitinn.

Benedikt Jóhannesson


Myndirnar tók Árni Ólafsson, 6.-Q (nema myndirnar sem hann er sjálfur á, þær tóku aðrir, en á hans myndavél)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.