Að undanförnu hafa ráðherrar keppst við að afneita Má Guðmundssyni. Forsætisráðherra segist alls ekki hafa hringt í hann og þaðan af síður í Láru V. Júlíusdóttur. Spurningar um laun Más komu gersamlega flatt upp á ráðherrann. Einungis vantaði að Jóhanna spyrði: Hvaða Má?
Þórunn Sveinbjarnardóttir kom beint að efninu í ræðu á Alþingi. Auðvitað hlýtur Lára að ljúga til um það að hún hafi fengið fyrirmæli um að hækka laun Más. Jóhanna getur ekki hafa sagt ósatt um málið. Það væri slíkt stílbrot á öllum ferli hennar að beita sér fyrir launahækkun bankastjóra, að allir sjá að það getur ekki staðist.
Enda kom hið sanna í ljós í Kastljósi. Tillaga Jóhönnu (fyrirmæli, skipun) snerust alls ekki um launahækkun heldur hve mikið ætti að lækka laun bankastjórans. Þegar bankastjórinn útskýrði þetta varð allt málið afar ljóst.
Þjóðinni létti.
Í Staksteinum höfðu komið aðrar skýringar á málinu. „Skilaboð úr forsætisráðuneytinu“ hefðu getað verið frá mörgum öðrum en forsætisráðherranum. Dyravörður eða þvottakona í ráðuneytinu hefðu getað komið þessum skilaboðum til formanns bankaráðsins. Eins hefði auðvitað mátt hugsa sér að Már hefði sjálfur gengið yfir í forsætisráðuneytið og sent þaðan sms-skilaboð til Láru.
Það hefðu ekki verið fyrstu sms-skilaboðin vegna seðlabankastjórans. Einhver skýrustu skilaboð Íslandssögunnar komu einmitt í sms frá Ingibjörgu Sólrúnu utanríkisráðherra til Geirs forsætisráðherra: Rektu Davíð, ráddu Má.
Þetta gekk svo allt eftir með faglegum hætti.
Enginn skyldi ætla að það væri tekið út með sældinni að vera seðlabankastjóri. Haustið 2005 var skipt um formann bankastjórnar Seðlabankans. Af tilviljun ákvað bankaráðið á sama tíma að hækka laun bankastjórans um 50% eða þar um bil. Launahækkunin snerist auðvitað ekki um persónur heldur var allur launaskali bankans orðinn þannig að hætta var á að viðskiptabankarnir myndu stela öllum fagmönnum úr bankanum ef ekkert yrði að gert. Til þess að halda sérfræðingunum inni varð að hækka laun bankastjóranna. Ella hefðu undirmenn verið launahærri en yfirmenn.
Þannig að nauðugir viljugir urðu bankastjórarnir að sæta launahækkun.
Ódýrara hefði verið að losa sig við undirmennina, enda kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis að formaður bankastjórnar talaði aldrei við þá.