Gátan mikla (BJ)

Ég var að stíga úr sturtunni, fálmaði eftir handklæði og strauk framan úr mér. Það var móða á speglinum og enginn hafði nýlega skrifað á hann nein leyndarmál eins og gerist í bíómyndunum. Þegar ég beygði mig til þess að þurrka tærnar sá ég stauk í ruslafötunni. Hún var orðin fleytifull, sem segir svosem ekki mikið því að hún er frekar lítil og þröng. Um leið og í hana koma umbúðir af einum nælonsokkum þarf eiginlega að troða öllu öðru í kringum þetta eina nælonsokkabréf.

Ég veit ekki hvernig á því stóð að mér varð starsýnt á staukinn. Kannski vegna þess að ég hafði aldrei séð þetta vörumerki áður. Hvað skyldi þetta vera: oodways? Eitthvert krem sem Vigdís notar? Varla sterakrem á exem. Þau eru í öðruvísi túbum. Einhvers konar Nivea mjólk kannski? Það gæti verið að Krónan væri farin að selja eitthvert merki frá ókennilegum löndum til þess að spara. Ein hvaða lönd nota svona orð? Í Bandaríkjunum reiknaði maður yfirleitt með því að svona skrítin nöfn væru indíánaheiti. Chattaooga, Tallahassee, Chicago. Kannski þýðir oodways fagurt andlit eða silkimjúk húð á máli einhvers lítils indíánahóps nálægt verksmiðjunum. Í verkmiðjunum sjálfum vinna eflaust bara stúlkur úr sveitinni, kannski einstaka rauðbirkinn bílstjóri sem tekur birgðirnar vikulega og keyrir í vöruhús sem dreifir svo afurðinni í heilsubúðir um allan heim. Allt í kreminu er náttúrulegt og lífrænt ræktað. Plastið utan af að vísu úr verksmiðju í Kampútseu þar sem eingöngu vinna börn og gamlar konur, rotnar að kröftum, en það er ekki hægt að hugsa um allt.

Indíánarnir sjálfir eru auðvitað margir farnir. Nokkrir þeirra leppa fyrir ósvífna auðjöfra og reka spilavíti á verndarsvæðinu sem er skammt frá, en þess á milli rölta þeir milli bara, lenda í slagsmálum og vona svo að konan hafi ekki klárað bjórinn í ísskápnum áður en hann kemur heim.

Kannski er ég kominn allt of djúpt í þessar pælingar. Þetta er gallinn við fjörugt ímyndunarafl. Líklega betra að renna yfir atburði gærdagsins. Þá var í Svíþjóð, búinn að ljúka nokkrum fundum og farinn að huga að heimferð. Ég gisti utan við Stokkhólm og þegar ég kom inn með lestinni ákvað ég að geyma ferðatöskuna á lestarstöðinni. Ómögulegt að burðast með hana um allan bæ þó að hún væri ekki mjög þung.

Það var ekki flókið að koma henni fyrir í skápnum um morguninn. Snúa einhverri sveif, halda henni fastri í þrjár sekúndur og þá prentaðist út miði, væntanlega með einhverjum leiðbeiningum um hvernig opna skyldi skápinn aftur. Ekki vissi ég það heldur einbeitti mér að því að setja miðann í vasa þar sem ég myndi finna hann aftur. Á ferðalögum væri best að maður hefði bara einn vasa á flíkunum. Þar væri farseðill, vegabréf, reiðufé, leiðbeiningar á hótelið, greiðslukort og annað sem máli skipti til þess að komast klakklaust út í heim.

Á mínum fötum eru yfirleitt fjórir vasar í daglegum ferðum mínum um borgina. Á ferðalögum virðist sem þeim fjölgi skyndilega. Innan á jökkum birtast leynivasar sem mér dytti aldrei í hug að nota dags daglega. Á ferðalögum virðast þeir hins vegar verða tilvaldir felustaðir fyrir ýmislega ferðapappíra. Stundum kemst ég að því að hægt er hneppa vösum aftur og það geri ég alltaf þegar ég hef sett í þá mikilvæg ferðaskjöl. Hnappurinn er reyndar furðu oft dottinn af, sem ekki getur gerst af ofnotkun. Mig grunar Friðbert í efnalauginni. Hann á örugglega þúsundir hnappa sem losna við óblíða meðferð hans véla og hreinsivökva. Eða er kannski ekki notaður vökvi þegar jakkaföt eru hreinsuð? Hver veit.

Nema hvað ég var kominn aftur í járnbrautastöðina. Hafði ekki hugmynd um hvar skáparnir voru. Sá miðasölu þar sem stór hluti sænskra búrkukvenna hafi sest í kringum. Allir tóku miða. Nú var verið að afgreiða búrku númer 173. Minn miði var númer 208. Nægur tími til þess að finna farangursgeymsluna.

Eftir erfiða leit komst ég að því að hún hlaut að vera á annarri hæð. Auðvitað hefði ég getað spurt, en það hefði verið viss uppgjöf. Klukkan var að verða fjögur. Ég var í Stokkhólmi og flugvélin átti að fara frá Arlanda klukkan fimm fimmtán. Ég var ekki með töskuna mína.

Sem betur fer fann ég skápana strax. Fyrst fór ég í BX 17, sem mig minnti að væri minn skápur, en miðinn sem var á sínum stað, sagði hins vegar AQ 17, sem var í næsta skápasundi.

Af hyggindum mínum sá ég að með því að nýta snertiskjá skammt frá skápnum gæti ég opnað með því að slá inn kóðann á miðanum. Einfaldara gat það ekki verið.

313 854 936

Ég ýtti á talaborð sem birtist á skjánum og ekkert gerðist. Aðeins fastar og ég sá að talan einn leit út eins og takki sem búið var að ýta niður. Ég ýtti með sama hætti á þrjá, en sá þá að ég hafði byrjað vitlaust og ýtti á annul takkann. Nú byrjaði ég á þremur og þrísti þéttingsfast. Á skjánum birtist 33.

Aftur annul.

Þetta gekk mjög illa. Af einhverjum ástæðum virtist ég alltaf ýta annað hvort of fast eða of laust.

Eftir fimm mínútna basl sá ég í augnkróknum að einhver var að fylgjast með mér. Einhver bölvaður slordóninn hafði náttúrlega sett einhverja aukafilmu á skjáinn til þess að komast að númerinu mínu. Svo þegar ég færi að sækja umsjónarmanninn myndi hann stökkva að skjánum, renna liprum fingrum yfir hann og stela töskunni.

Ég þorði ekki að horfa á hann illilegum augum vegna þess að ég sá ekki hvers konar fýr þetta var. Ef hann var Pólverji eða Tyrki hefði það litið út eins og fordómar af minni hálfu að gefa honum illt auga og ég eflaust fengið á mig kæru fyrir kynþáttahatur. Þess vegna birgði ég mig yfir skjáinn svo hann sá ekki neitt og tókst loks að slá inn skammlausa talnarunu. Skápurinn laukst upp.

Nú var að finna aftur miðasöluna. Ég þorði ekki að fara niður aftur af ótta við að villast, en fann sölu á 2. hæð. Þar var röðin styttri en klukkan tifaði líka stöðugt.

Konan vildi ekki selja mér miða til Arlanda. Jú, kannski vildi hún það, en sagði að önnur kona myndi selja miðann ódýrar. Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri samsæri, setti niður hnefann og krafðist þess að fá að kaupa dýra miðann. Það kom ekki til greina að bíða í enn einni biðröðinni og sjá lestina þjóta hjá.

Hraðlestirnar til Arlanda voru á spori 1 og 2. Það voru 6 mínútur í að lestin sem beið við pallinn færi af stað. Í miðasölunni var þungbúin miðaldra kona og boraði í nefið. Enginn beið þess að kaupa miða. Ég bretti upp kragann, hélt dauðahaldi í minn 251 krónu miða og skálmaði inn í lestina. Það kom ekki til greina að vita hvað miðinn kostaði.

Á veggnum var skilti. „50 krónur ef miðinn er keyptur í lestinni.“ Gat verið að kerlingin hefði náð af mér 201 krónu? Ég starði á lestargólfið, en það var eins og árans skiltið, sem ég vildi alls ekki sjá, drægi mig til sín. „+50 krónur ef miðinn er keyptur í lestinni.“

Auðvitað. Það kostaði 50 krónum meira að kaupa miðann í lestinni. 50 krónum meira en hvað veit ég hins vegar ekki.

Hvernig tengist þessi saga mér og sturtunni. Jú, eftir hlaupin og brasið lak svo af mér svitinn að ég varð að laumast inn á klósett á flugvellinum til þess að skipta um skyrtu. Pappírsþurrkur urðu að duga til þess að strjúka af mestu bleytuna. Þá hefði verið gott að fara í sturtu.

En af því að ég var svo forvitinn að vita hvaða galdrameðal það væri sem Vigdís notaði og heitir oodways að ég stakk hendinni ofan í ruslafötuna, þó að ég væri hreinn og strokinn og dró upp staukinn sem var á hvolfi. Á honum stóð skýrum stöfum:

Shampoo.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.