Skáldin Davíð og Matthías (BJ)

Nú halda eflaust flestir að ég ætli að skrifa um Davíð Oddsson og Matthías Johannessen, sem báðir eru góðkunn skáld nú á dögum. Davíð hefur skrifað nokkrar smásögur, ort ljóð og jafnvel sálma, en hann mun þó hafa fengist við fleira en skáldskapinn. Matthías er auðvitað þekktastur sem ljóðskáld. Þegar ég var strákur hafði hann ort Sálma á atómöld og þegar poppmessur voru í tísku var sungið úr sálmum Matthíasar. Nú á dögum er hann auðvitað þekktastur fyrir samtalsbækur sínar og dagbækur sem birtast á Netinu og er þar mikill frumkvöðull.

Ég ætla hins vegar ekki að fjalla um þessi nútímaskáld heldur menn sem eru miklu eldri. Matthías Jochumsson bögglaði saman þjóðsöngnum á sínum tíma, var aldrei ánægður með hann, en við sitjum uppi með afurðina. Kannski hefur gilt sama um lagið við þann ágæta söng að höfundurinn hefur ekki verið ánægður með afurðina, en gert eins vel og hann gat. Sumir hafa sagt, meðal annarra Ragnhildur Ólafsdóttir langamma mín og húsfreyja í Engey, að eftirá spyrji enginn hversu hratt hafi verið unnið heldur hvernig til tókst. Kannski hafa þeir ekki flýtt sér neitt tiltakanlega með þjóðsönginn, bara ekki verið í stuði. Þetta kemur stundum fyrir forsetann okkar þegar hann mætir í viðtöl við fjölmiðla.

Í nokkur ár hef ég átt bók um Matthías. Útgefandinn lagði afar hart að mér að kaupa hana, þó að ég kveinkaði mér ákaft, hafði keypt fyrri bók höfundar um Snorra í Húsafelli. Bókinni um Snorra var hælt á hvert reipi á sínum tíma, en hún var mér mikil vonbrigði. Það var reynt að gera stóra bók úr litlum efniviði og tókst ekki sérlega vel til. Saga Þórunnar Valdimarsdóttur um Matthías er stór og mikil og veldur andþrengslum þegar maður les hana í rúminu. En hún er miklu betri bók en bókin um Snorra. Hér er mikið efni.

Reyndar verð ég að viðurkenna að ég er ekki búinn með bókina um Matthías. Ævi hans var erfið framan af. Hann missti tvær konur og var barnlaus með þeim. Svo henti það guðsmanninn að eiga barn með konu í sókninni. Ekki var Matthías meiri kjarkmaður en svo að hann flúði land. Nú á dögum þætti það líklega ekki mikil synd að ekkill eignaðist barn þó að hann væri ekki giftur móðurinni, sérstaklega þar sem hún var komin yfir tvítugt. Þá gat þetta varðað hempumissi, þó að Matthías slyppi með því að hætta að stunda prestsskap í nokkur ár.

Sagan hafði sér farsælan endi fyrir alla, Matthías giftist Guðrúnu barnsmóður sinni og átti á endanum með henni ellefu börn. Þetta minnir mig á sögu sem Magnús húsvörður í Vogaskólanum sagði mér fyrir tæplega fjörutíu árum, en Magnús var sonur séra Árna Þórarinssonar, sem Þórbergur Þórðarson skrifaði langa ævisögu af. Á meðan á sagnaritun stóð hitti Þórbergur einhvern mann á förnum vegi og sá segir: „Ekki skil ég að þú skulir vera að skrifa sögu hans séra Árna, sem eignaðist barn með fermingarbarni sínu.“ Séra Árni svaraði um hæl: „Og þau urðu nú ellefu á endanum,“ … „.því pabbi fermdi mömmu,“ botnaði Magnús húsvörður.

Það er gaman að kynnast tíðaranda 18. aldar og Matthías þekkti marga þekktustu menn þjóðarinnar, þannig að bókin bregður upp mynd af mörgum. Hún er of löng, það læðist að manni sá grunur að erfitt hafi reynst fyrir Þórunni að skera niður ýmislegt efni sem hún átti, þó að það kæmi sögunni lítið við. Hér og þar lýsir hún skoðunum sínum sem koma svolítið eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Hún segir frá hring í eigu Matthíasar sem nú sé eign tengdasonar forsetans. Jú, ekki óintresant að hringurinn sé enn til. En svo kemur viðbótin: „Svo hringurinn er enn við tignasta borð landsins.“ Ég varð að taka mér viku hlé frá lestrinum til þess að losna við gæsahúðina.

Bókin um Davíð er styttri þó að hún sé líka löng. Einhvern tíma á táningsárum fann ég Svartar fjaðrir, fyrstu ljóðabók Davíðs, í bókahillu heima. Ég hreifst strax af henni enda ljóð vel við hæfi ástfangins unglings. Mamma gaf mér bókina og ég las hana stundum, en fljótlega vék Davíð þó fyrir Steini Steinarr. Steinn var töff, Davíð var væmnisvellukarl fannst manni. Svona getur maður snúið gersamlega bakinu við æskuástinni. Ég sá aldrei Davíð svo að ég muni, en maður heyrði í honum í útvarpinu. Mér fannst hann svolítið draugalegur.

Árið 1930 fékk Davíð fyrstu verðlaun í hátíðasamkeppni Alþingishátíðar. Einar Ben. fékk líka fyrstu verðlaun, en var lítið hrifinn af því að þurfa að skipta þeim með „þessum flatbotnaða drullupramma að norðan.“ Ég hef reyndar hvergi séð þessi ummæli á prenti, en mamma og pabbi höfðu þau oft yfir. Líklega hefur Einar sagt þetta við afa, Benedikt Sveinsson. Þessi ummæli juku örugglega ekki álit mitt á Davíð og í áratugi hef ég nánast ekkert lesið eftir hann.

Hann hefur verið einkennilegur maður samkvæmt bók Friðriks Olgeirssonar. Einrænn, kvennagull, en festi aldrei ráð sitt. Menn velta því fyrir sér hvort hann og Hulda Stefánsdóttir hafi verið kærustupar, en það er gáta sem er best óleyst. Sumt fólk er par alla ævi í huga margra, jafnvel sínum eigin, þó að þau verði aldrei eiginlegt kærustupar. Framan af ár hefur Davíð stundum verið drykkju- og gleðimaður, á efri árum mest drykkjumaður, svo hætti hann því líka. Ég veit ekki hvort það er þess vegna að hann hélt að hann gæti fengið Nóbelsverðlaunin. Rétt eins og Gunnar Gunnarsson. Það var mikil einangrun á Íslandi.

Þetta eru skemmtilegar bækur, en maður þarf að reikna sér drjúgan tíma til þess að lesa þær. Ég þurfti mörg ár til þess að manna mig í að taka plastið utan af. Spenna er takmörkuð, en oft eru líflegir kaflar. Hægt var að styðjast við bréf þessara manna, en hvernig verða ævisögur núlifandi manna skrifaðar. Verða þær eftir tölvupóstum? Nú halda ráðherrar ekki einu sinni fundargerðir þegar þeir hittast.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.