Frost og funi (BJ)

Það var brunagaddur. Stormurinn að norðan var í fangið og beit í kinnarnar. Eftir fimmtíu metra hafði ég efasemdir um að þetta hefði verið skynsamleg ferð. Ég hélt um göngustafina og fann að mér yrði alltaf kalt á fingrunum. Af hverju tók ég ekki aðra vettlinga með þannig að ég gæti verið í tvennum? Svo fann ég hvernig hviðurnar smeygðu sér inn undir trefilinn minn, höfðu fundið þar smugu. Ég hafði ekki rennt upp í háls. Ég var bara á bolnum undir úlpunni. Svo hafði ég ekki farið í síðar nærbuxur. En ég var í tvöföldum sokkum.

Það auðveldaði ekki gönguna að ég hafði ekki gengið almennilega í rúman mánuð. Það auðveldaði ekki gönguna að fjölmargir sprækir göngugarpar virtust spássera léttstígir meðan ég varð að halla mér fram til þess að halda jafnvægi í verstu rokunum. Eftir tíu mínútur stoppaði ég og renndi upp í háls. Velti því fyrir mér hvort það væri of seint. Hafði einmitt verið að lesa ævisögu Davíðs Stefánssonar. Hann fékk brjósthimnubólgu vegna þess að hann ofkældist. Reyndar úti á sjó og ég reyndi að hugga mig við að ég væri þó að minnsta kosti þurr. Veðrið var fallegt að sjá, en það var blekking. Mér leið ömurlega.

Þegar Jón sonur minn stakk upp á því að við færum í þessa gönguferð virtist þetta vera miklu betri hugmynd. Veðurhorfur voru góðar út um gluggann að sjá. Yfirleitt hef ég orðið að draga Jón á eftir mér, sem ekki er skrítið, hann er miklu yngri en ég eins og synir eru oft. Í þetta sinn arkaði hann áfram upp fjallið eins og hann væri að ganga um túnið heima.

Aftur stoppaði ég og setti á mig aðra húfu. Ekki að ég skipti, ég var með tvær. Hvers vegna tók ég ekki lambhúshettuna með? Hvers vegna var ég hér yfirhöfuð?

Einhver maður gekk á eftir okkur og ég heyrði fótatakið koma nær. Þó að ég viki til hægri hélt hann áfram að ganga á eftir okkur. Þetta var pirrandi, en það var of kalt til þess að stoppa. Var hvergi skjól fyrir norðanáttinni? Eftir nokkrar mínútur sáum við tvær konur framan við okkur, greikkuðum sporið og fórum framúr. Þá loksins stikaði hann fram fyrir okkur öll sporgöngumaðurinn mikli.

„Ertu í lagi,“ spurði Jón. Ég gaf frá mér einhverja stunu. Við gengum upp brekku og þar fékk ég hann til þess að setja á mig hettuna. Það var of hvasst til þess að líta upp, of kalt til þess að stoppa. Svo eina leiðin var að halda áfram. Fyrr eða seinn kæmumst við á áfangastað.

Við vorum ekki með nesti.

Loksins, loksins vorum við komnir. Það er að segja ég var kominn, Jón hafði náð takmarkinu miklu fyrr.

Blóðbragðið í munninum og krampakenndur hóstinn fylltu mig vissu um að þetta hefði verið ákaflega holl útvera. Á þessari stundu gat ég ekki annað en glaðst yfir því að við fórum á Esjuna en ekki Fimmvörðuháls.


En þennan dag lá straumurinn á Fimmvörðuháls og vegna þess að ég er mikil hópsál var ég ekki lengi í Paradís heimilisins eftir að við komumst niður. Við höfðum mælt okkur mót klukkan hálf þrjú við Páll Stefánsson ljósmyndari. Páll er náttúrlega búinn að vera á gosstöðvunum nánast stöðugt. Hann hafði farið á vélsleða og vappaði í kringum gíginn, flogið umhverfis hann og átti nánast bara eftir að mynda hann að innan heyrðist mér. Á föstudag pantaði hann þyrluflug fyrir sig og sagði mér að ég færi með. „Þyrlan tekur tvo.“

Flugið átti að byrja klukkan fimm frá Seljalandsfossi, en vegna þess að við bjuggumst við bílaþröng ákváðum við að taka okkur tvo og hálfan tíma í ferðina. Á leiðinni reyndi ég að hringja í Friðrik Pálsson og spyrja um veðrið. Er hægt að fljúga svona þyrlum í hávaðaroki?.

Ég náði ekki í Friðrik og Páll heyrði ekki í flugmanninum. Skyldi allt vera í lagi?

Við vorum komnir austur fyrir Hvolsvöll þegar Friðrik hringdi. Hann hafði enga þyrlu séð við Seljalandsfoss. Hins vegar var hann að horfa á einhverja amatöra fyrir framan búðina að Skógum og sagði verða forviða í hvert skipti sem þyrlan kæmist á loft og ekki var undrunin minni þá sjaldan hún kom tilbaka. Við höfðum engar áhyggjur af þessu. Okkar vél var við Seljalandsfoss.

Samt var óþægilegt að heyra ekki frá flugmanninum.

Þegar við fórum yfir Þjórsárbrúna vorum við undir vökulu eftirliti lögreglumanna sem höfðu lagt sig í bíl skammt frá veginum. Það var gott að ég keyrði en ekki Páll, þá hefðu þeir þurft að rjúfa hvíldina og elta okkur uppi.

Við Seljalandsfoss var enga þyrlu að sjá, en hún gat auðvitað verið uppi við gosið. Í því að við veltum því fyrir okkur hringdi síminn. Þyrluflugmaðurinn hafði flutt sig að Skógum. Vegna mikils mótvinds var hann orðinn á eftir áætlun.

Ekkert annað að gera en að fara að Skógum. Þegar þangað kom var þyrla að lenda. Hún var býsna gerðarleg. Við vegarspottann að búðinni var pínulítil þyrla, hálfgert prik, sem greinilega tók ekki nema einn farþega.

Við lögðum og gáfum okkur á tal við þyrlurekendur sem sátu inni í búðinni. Þeir töldu að mögulegt væri að troða okkur inn (ekki bara í þyrluna heldur líka í stundatöfluna). Páll sagðist ekki þurfa ítroðslu og nefndi nafn þess sem hafði tekið við pöntun okkar. Þá vildu þessir menn ekkert við okkur tala og vísuðu okkur á eiganda priksins úti á túni.

Til þess að gera langa sögu stutta tekur þyrla þessi tvo farþega ef þeir eru mjög litlir. Hins vegar voru belti fyrir tvo og við gripum til þess ráðs að taka hurðina af þannig að Páll kæmist fyrir. Á örskotsstundu vorum við komnir inn og spaðinn farinn að snúast.

Ég sat í miðjunni og flugmaðurinn bað mig að færa fæturna svo að hann gæti hreyft stýrið og komist í stjórnborðið. Það var auðsótt, en ekki þrautalaust.

Þyrlan tókst á loft. Það andaði köldu frá Páli. Sem betur fer var ég betur búinn en um morguninn, í tveimur bolum, peysu, dúnúlpu, síðum nærbuxum og með lambhúshettu. Okkur miðaði hægt. Vinurinn á móti var greinilega sterkur. Á jörðinni iðaði allt í lífi. Nokkrir voru að leggja í hann þó að klukkan væri að verða fimm síðdegis. Þeir áttu tólf tíma göngu eftir.

Útsýnið var frábært og okkur leið vel að sjá göngumennina á jörðu niðri. Þeim var kalt, þeir voru þreyttir og áttu langa göngu eftir. Við vorum óþreyttir í þyrlunni, en okkur var kalt. Páll hreyfði gikkfingurinn ótt og títt til þess að koma í veg fyrir kal.

Loksins komumst við upp á brún. Engu var logið um að þúsundir manna voru á heiðinni. Ég veit ekki hve margir lesenda hafa farið í þyrlu, en það er svolítið svipað og vera í Formúlu 1 kappakstursbíl. Beygjurnar eru krappar og óvæntar. Hristingurinn samt ekki mikill.

Sjálfur reyndi ég að taka lifandi myndskeið út um gluggann. Það var lítið gagn að því. Myndavélin átti erfitt með að ná fókus gegnum kúpt glerið. Ekkert þýddi að tala við flugmanninn, vélarhljóðið yfirgnæfði allt. Hann og Páll áttu hins vegar í hrókasamræðum gegnum einhvern fjarskiptabúnað sem ég komst ekkert í.

Gosið hafa menn heyrt svo mikið um að ég eyði ekki tíma í það. Það var allt í lagi. Við stoppuðum á hæð ofan við það og Páll tók nokkrar myndir.

Flugið tilbaka tók örskotsstund. Ég reyndi að tala við Pál, en fékk ekkert svar. Hann var hættur að mynda. Mér stóð ekki á sama um þetta fálæti og ýtti hraustlega við honum.

Engin viðbrögð.

Mér datt í hug saga eftir Alistair McLean um mann sem fraus í hel í svipuðum aðstæðum. Þegar félagi hans klappaði honum á öxlina var hann eitt klakastykki sem datt á gólfið með braki og brestum.

Páll hefði væntanlega dottið út, ef ég hefði barið hraustlega í hann. Þá hefðum við þurft að lenda til þess að taka hann upp í aftur og mér var orðið svo kalt að ég nennti því ekki. Svo ég bara beið.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.