Halló! Þekkirðu ekki Sjonna Brink?

Eins og oftar var skemmtanalífið í fyrirrúmi hjá mér um helgina. Á föstudagskvöld var það Gerpla. Hún er sýnd fyrir fullu húsi, a.m.k. var fullt kvöldið sem við Vigdís fórum. Og það er engin ástæða til þess að skrökva um það. Margir skemmtu sér mjög vel. Fólk skellihló og klappaði í lokin. Í sýningunni var fjöldi brandara, alls kyns brellur þar sem leikararnir svifu í slow motion yfir sviðið, kona breyttist í fljúgandi hrafn og ýmislegt fleira.

Svo var líka blandað inn í nokkrum gömlum dægurlögum sem varð til þess að menn skemmtu sér dátt. Til dæmis var sungið Stuðmannalag til heiðurs þjóðleikhússtjóra. Það minnti mig á það þegar blaðamennirnir á Mogganum nefna Davíð Oddsson í greinum til þess að sýna hvað þeir eru kaldir. Og hann leyfir það til þess að sýna hvað hann er líbó.

Nei, það væri synd að segja að fólk hefði farið fúlt heim úr leikhúsinu á föstudag. Það skipti ekki öllu að textinn var tyrfinn og framsögnin svo óskýr að flestir skildust ekki. Nema Ólafur Darri, hann hefur eitthvað skilið af fornaldartexta Laxness. Eini gallinn var sá að leikhústrixin og lögin hjá Baltasar komu Gerplu ekkert við. Þau hefðu getað verið í Hamlet, Gullna hliðinu eða Fást. Fólk hefði hlegið alveg jafnmikið og munað jafnlítið eftir leikritinu á eftir.

Mæli ég með leikritinu Gerplu? Nei, en ég held að fólk sem er ekki fýlupúkar eins og ég muni skemmta sér mjög vel.

Mæli ég með bókinni? Nei, eiginlega ekki heldur, en aðallega vegna þess að hún er allt of löng eins og áður er að vikið.

Ég jafnaði mig fljótt eftir leikhúsið.

Innan við 24 stundum síðar var ég mættur á árshátíð. Fjölmenna skemmtun með hressu fólki. Við Vigdís settumst til borðs þar sem okkur var ætlaður staður, sem er ekki í frásögur færandi, því að við erum hlýðið fólk (a.m.k. ég, enda reyndari á því sviði). Áður en matur var fram reiddur gekk fólk fram og til baka yfir sviðið. Grannvaxin kona og hárprúður karlmaður, ekki sérlega grannvaxinn. Fyrst hélt ég að þau væru ekki klár á því á hvaða borði þau ættu að vera, en svo var ljóst að þetta hlutu að vera einhverjir embættismenn, því að þau gengu valdsmannslega að hljóðnemum og stilltu stjórnborð eins og fagmenn.

Vigdís spurði hvort þetta væru starfsmenn fyrirtækisins og ég varð að svara því að það vissi ég ekki. Fannst það þó ólíklegt því að þau voru ekki mjög vinnuleg að sjá. Gat þó auðvitað ekkert útilokað.

Svo fór að karlinn hóf leikinn. Talaði hátt og snjallt í hljóðnemann sem var stilltur á bergmál, þannig að hann virtist vera inni í helli eða einn í stórri hljómleikahöll. Hann sagði okkur að hann ætti fjögur börn með tveimur konum. Ég veit ekki af hverju hann sagði okkur það. Kannski hefur hann óttast að einhverjum þætti hann vera með hommalegt hár, en það fannst mér ekki. Konan væri ekki konan hans (hjákona, gall í henni) og þau ættu ekki barn saman (þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, sagði sú mjóa). Svo sungu þau syrpu af lögum sem var ágæt eins og Gerpla, hefði verið miklu betri ef hún hefði verið styttri.

Að því loknu varð mér á að spyrja hvort þetta væru frægir skemmtikraftar. „Halló. Ertu að grínast?“ sagði sessunautur minn. „Þekkirðu ekki Sjonna Brink?“

Ég varð að játa að sá þekkti maður hefði ekki siglt inn á radarinn hjá mér svo ég myndi. Líklega yrði ég að fara á miklu fleiri skemmtikvöld og árshátíðir til þess að vera viðræðuhæfur, hugsaði ég niðurlútur. Augunum skotraði ég á sessunautana en sem betur fer var greinilegt að aðrir við borðið ekki miklu betur að sér í Brinkaranum. Eftir drykklanga stund þorði ég að hvísla því að Vigdísi hvort hún vissi hvert hið granna man væri.

Það var engin önnur en Soffía Karls.

Til þess að gera langa sögu stutta fóru þau skötuhjú á kostum þetta kvöld.

Einhver sagði: „Var það ekki þessi sem söng Júróvisión-lagið?“

Þá var eins og minningarnar streymdu til baka. Sjonni var auðvitað náunginn sem söng lagið, sem ég mundi heldur ekki hvað hét, né hvernig var.

Vigdís sagði mér að það hefði verið lagið sem ég vildi að ynni. Langbesta lagið.

Af því að ég veit að enginn annar man eftir laginu er rétt að ég upplýsi að í því sungu fimm glæsilegir og glaðir ungir menn á Hawaí-skyrtum. Þetta var hrein snilld. Vigdís sagðist hafa verið með lagið á heilanum lengi, sérstaklega áður en hún sofnaði.

Hún sofnar alltaf á hálfri mínútu, þannig að það hefur ekki verið nema rétt forspilið sem hún var með á heilanum.

Við borðfélagarnir kröfðumst þess umsvifalaust að Sjonni tæki lagið. En hann varðist fimlega. Það voru auðvitað bara stjörnustælar því að í fyllingu tímans söng hann auðvitað það sem allir höfðu beðið eftir: Waterslide.

Ég man enn ekkert eftir þessu lagi nema að það er frábært. En flutningurinn var það sem situr eftir. Sjonni var ekki fyrr búinn að kynna lagið en fjórir glæsilegir ungir menn í hvítum skyrtum stigu inn á sviðið. Þeir voru líka berfættir með uppbrettar skálmar. Einn var reyndar með bindi, en það flaug af í léttri sveiflu.

Það kom Sjonna greinilega á óvart að þeir höfðu farið úr skóm og sokkum. Hvernig veit ég það? Jú, hann var í þeim skræpóttustu sokkum sem ég hef séð nokkurn eldri en fimm ára í. Sokkum sem enginn fer í nema í mjög síðum buxum eða í stígvélum (Sjonni var í síðum buxum).

Túlkunin var frábær. Drengirnir fjórir lifðu sig svo vel inn í hlutverk gleðipinnanna að unun var á að horfa. Sjonni hélt líka lagi þannig að þetta var stórkostleg upplifun. Nú þekki ég Sjonna Brink.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.