Um daginn sat ég að spjalli við þekktan íslenskan rithöfund. Honum hafði nýlega borist athugasemd við skrif sín um ísfirska bræður sem hann nafngreindi A og B. Yfirlesarinn benti honum vinsamlegast á að um bræður þessa hefði aldrei verið talað öðru vísi en B og A. Sögumaður átti vart orð yfir smásálarhætti þessa yfirlesara og andlegri vanlíðan mannsins að leggja sig niður við slíkan sparðatíning. Aðalatriðið væri auðvitað hvað manntetrin hétu, en ekki í hvaða röð þeir væru taldir upp. Sem Ísfirðingar mættu þeir þakka fyrir að komast yfirhöfuð á blað. Í veru og raun skipti röðin jafnlitlu máli og hvort kom á undan eggið eða hænan.
Þetta fannst mér skynsamlegt, enda kemur orsök í kjölfar hverrar afleiðingar og varð mér innblástur til þess að rifja upp mörg þekktustu verk heimsbókmenntanna í myndum og máli.
Ég spurði rithöfundinn fyrst hvernig honum fyndist sagan af Evu og Adam. Honum vafðist tunga um tönn, kom henni ekki fyrir sig í fljótu bragði. Þegar ég gaf honum vísbendingu um að í sömu bók mætti finna söguna af Golíat og Davíð og þeim bræðrum Jafet, Sem og Kam hnyklaði hann brýnnar. Von, kærleikur og trú koma þar líka við sögu.
Bókin jafnast náttúrlega ekki á við ævintýri og þjóðsögur Jóns Árnasonar þar sem segir meðal annars frá þeim bræðrum Helga, Eiríki og Gísla og systrunum þekktu Signýju, Helgu og Ásu. Hins vegar er sagan af Grétu og Hans ekki í þeirri bók. Sumir hafa gaman af leikritinu um Júlíu og Rómeó, sem reyndar er farið að slá í ekki síður en bókina um refsingu og glæp. Bækurnar af Manna og Nonna voru líka afbragðsgóðar.
Kvikmyndaunnendur muna eftir Gokke og Gög eða Costello og Abbot eins og þeir hétu á frummálinu. Annars er danska frummálið í mínum huga á ýmsum bókmenntastórvirkjum eins og sögunum um þá bræður Rap, Rip og Rup. Mér fannst líklegt að þeir Jónatan, Jesper og Kasper væru líka danskir, en svo reyndist ekki vera þegar betur var að gáð.
Auðvitað er farið að fyrnast yfir margar af þessum sögum eins og ýmislegt úr barnsminni manns. Ég var aldrei mikill kaffimaður, en þó man ég að foreldrar mínir drukku aldrei annað en kaffið frá Kaaber og Ó. Johnson. Þeir voru eins konar Skjöldur og Kormákur þeirra tíma. Konni og Baldur töluðu hvor í gegnum hinn líkt og þeir Davíð og Páll Vilhjálmsson nú á dögum.
Frami og frægð eru auðvitað fallvölt, rétt eins og gjörvikleiki og gæfa. Sjaldnast ná þau út yfir dauða og gröf. Satt að segja held ég að réttlæti, frelsi og bræðralag skipti miklu meira máli en allt annað. Þeir félagar Engles og Marx trúðu á öreiganna alræði, en eins og járnfrúin Thatcher benti á hafa þeir nú verið leystir af hólmi af Spencer og Marks.
Kristmann Guðmundsson skrifaði á sínum tíma bókina Gyðjan og uxinn. Í útvarpsauglýsingu hafði misritast Gyðjan er uxi. Þulurinn sá að þetta gat ekki staðist og leiðrétti auglýsinguna umsvifalaust og sagði: „Þetta hlýtur að eiga að vera Gyðjan er hugsi.“ Þessu hefði Kristmann getað komist hjá ef hann hefði kallað bókina Uxinn og gyðjan. Stundum hugsa menn ekki hlutina til upphafs. Sérstaklega ekki Kristmann, sem kemur þessum pistli reyndar ekkert við.
Pistillinn er reyndar farinn út um þúfur enda veltur stórt hlass oft um litla þúfu. En allt á sinni endi og í kjölfar hans upphaf.
PS Smásmugulegur lesari þessa pistils (sem ég gæti best trúað að væri sá sami og upprunalega gerði athugasemdina um bræðurna tvo) segir:
„Gokke og Gög …hétu nú reyndar Hardy and Laurel á frummálinu. Costello og Abbot gengu ekki undir íslenskum heitum í mínu ungdæmi.“
Í mínu ungdæmi voru athugasemdir af þessu tagi afgreiddar með orðunum „Morgunblaðið stendur við frétt sína“, jafnvel þó að sýnt hefði verið fram á að í henni stæði ekki lengur steinn yfir steini.
I see you don’t monetize bjz.is, don’t waste your traffic, you can earn additional bucks every month.
There is one good method that brings decent money, you
can google it: money making by bucksflooder
Líkar viðLíkar við