Í hráskinnaleik (BJ)

Ég fór að kjósa um helgina. Kannski finnst sumum það ekkert merkilegt, líklega ekki þeim 62,5% sem gerðu það sama. Þurfti reyndar ekki að hugsa mig um þó að það hafi verið útrásarforsetinn sem olli þeim. Þegar ég var lítill báru allir virðingu fyrir forsetanum. Hann kepptist ekki við að sýna sig í tíma og ótíma. Ég held að hvorki Ásgeir Ásgeirsson né Kristján Eldjárn hafi þjáðst af nagandi efa um hvort þeir væru til ef enginn væri að horfa á þá.

Þetta voru mjög spennandi kosningar. Fyrir mánuði könnuðum við fylgi við Icesave-lögin. Þá voru bara 80% á móti þeim. Ég sagði þetta við einhverja konu sem efaðist um að andstaðan gæti verið svona mikil. Líklega er hún samfylkingarkona.

Svo sá ég að Jóhanna sagði að kosningin væri markleysa. Hráskinnaleikur, sagði hún líka. Ég er ekki viss um að hún skilji orðið hráskinnaleikur.

Hún sagði líka að ekkert yrði að marka niðurstöðuna því að lögin væru orðin úrelt vegna þess að betri samningur lægi nú þegar á borðinu.

Hvað hefði gerst ef þjóðin hefði fylgt fordæmi foringja síns og setið heima? Úreltu lögin hefðu staðið og Bretar og Hollendingar hefðu grætt 80 milljarða króna. Þetta var framlag Jóhönnu og Steingríms til endurreisnarinnar.

En þó að þau séu orðin svo þreytt að þau hafi ekki komist á kjörstað var ég sprækur. Klukkan ellefu var ég kominn út í bíl og skutlaði syni mínum í vinnuna. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að kjósa þá strax, en ég kunni ekki við að fara einn. Líklega höfum við Vigdís alltaf farið saman að kjósa. Utan einu sinni. Þá kaus ég utan kjörfundar, en hvert ég var að fara man ég ekki. Ég man bara að kosningin var niðri í Hafnarbúðum. Mig minnir að það hafi verið stimplar með listabókstöfum. Ég þurfti bara einn.

Ekki er að orðlengja það að fyrir hádegið var ég kominn heim og heyrði í hádegisfréttunum að mín var sárt saknað af kjörstjórninni. Kjörsókn hafði verið mjög lítil um morguninn. Ekki nema 9,3%. Skyndikönnun á heimilinu leiddi í ljós að þar var kjörsókn ekki nema 0% þannig að við vorum undir landsmeðaltali.

Um klukkan þrettán að staðartíma vorum við komin í okkar fínasta púss. Vigdís í smekklegum rauðum kvöldkjól frá þekktum ítölskum hönnuði og tólf sentimetra háum hælum. Undirritaður hafði troðið sér í reykfötin sem sífellt minnka í skápnum og fann blánkskó. Flibbinn særði mig í hálsinn, alveg eins og til stóð og slaufan stakkst inn í barkakýlið.

Í Laugardagshöllinni tók vingjarnlegur maður á móti okkur og bauð okkur velkomin. Þegar inn var komið var þar múgur og margmenni sem dáðist að nýlegum dráttarvélum. Í fljótu bragði hélt ég að þetta væri áróðursbragð af hálfu Icesave-sinnans og bóndans Ásmundar Daða Einarssonar, en í ljós kom að við vorum lent á landbúnaðarsýningu eða viðlíka skemmtun.

Út aftur hrökkluðumst við og fórum inn um næstu dyr. Fljótlega sáum við að í stórum sal var fullt af fjölmiðlamönnum og langar biðraðir. Mér leist illa á að komast ekki að, en biðraðirnar reyndust vera fólk sem átti að taka í viðtöl við heimspressuna.

Enginn vildi tala við mig, en það var auðvitað vegna þess að ég var ekki búinn að kjósa þannig að ég stormaði að kjördeildinni. „Það er deild 11,“ sagði ég Vigdísi hróðugur. Ég hafði nefnilega lesið tilkynninguna frá kjörstjórninni í blaðinu um morguninn. „Nei, var það ekki tíu?“ sagði Vigdís.

Það runnu á mig tvær grímur. Ellefu var það örugglega, að minnsta kosti mundi ég að það var oddatala. „Kannski níu,“ sagði ég.

„Tíu held ég að það sé,“ sagði Vigdís. Hún mátti halda það mín vegna. Mæta í deild tíu, sýna ökuskírteini og vera send burtu og líklega hlegið að henni. Ég var búinn að vara hana við.

Þegar við komum að deild níu fór ég ekki þar inn en kíkti til öryggis á götulistann. Ég hafði munað þetta rétt. Það var ekki deild níu, þannig að ellefu var það. Vigdís gekk áfram og stoppaði í röðinni við deild tíu. Það er stutt á milli deilda þannig að ég gekk nokkur skref aftur á bak, þó í rétta átt, sneri mér svo kæruleysislega við, þannig að það væri ekki áberandi þegar ég gengi framhjá deild 10 og Vigdísi og var kominn inn í deild 11 eins og hendi væri veifað.

Öruggum skrefum gekk ég að skenknum og lagði ökuskírteinið á borðið. Auðvitað hefði vegabréf verið heppilegra og farið betur við fötin, en ég hafði gleymt þessu smáatriði.

„Heimilisfang,“ sagði konan. Ég nefndi Selvogsgrunnið, en var hálfmóðgaður að hún vissi ekki hvar ég bý. Hún klóraði sér í kollinum og sagði: „Það er ekki hér.“

Ósköp er hún vitlaus þessi kona hugsaði ég. Ætli hún sé ein af þessum fimm prósentum? Ég ákvað samt að gera ekkert mál úr þessu og sagði: „Ég veit að það er ekki hér. Það er þar sem ég bý.“ Svo brosti ég eins og maður gerir til barna og fólks sem er ekki á listamannalaunum.

„Það er næsta deild,“ sagði hún.

Það fauk í mig og ég sneri mér að veggspjaldinu þar sem göturnar eru taldar upp. „Hér stendur Sporðagrunn,“ sagði ég sigri hrósandi.

Hún leit líka á skiltið eins og til þess að vera viss. Svo leit hún á ökuskírteinið mitt á máða mynd af mér eins og ég einu sinni var. „Það er nefnilega það,“ sagði hún. „Sagðistu ekki búa í Selvogsgrunni?“

Hún rétti mér skírteinið. Ég var svolitla stund að átta mig, en þegar það loksins gerðist tók ég aftur við plastinu, stakk því kæruleysislega á mig og sagði. „Ég bjó í Sporðagrunni. Er eiginlega nýfluttur.“ Hvað kom henni það við þó að það væru tuttugu og fimm ár síðan ég flutti?

Í deild tíu var Vigdísi hvergi að sjá. Annað hvort var hún í kjörklefanum eða komin í viðtal við Al Jazeera. Ég gekk með tilþrifum að borðinu og sagði hátt og skýrt heimilisfangið. Svo sýndi ég að ég var með skilríki og þegar konan kinkaði kolli og merkti við mig í bókinni gekk ég öruggum skrefum inn í klefann. Það voru þrír klefar, einn fyrir fatlaða, líklega einn fyrir karla og sá þriðji fyrir konur. Í því að ég svipti tjaldinu frá var kallað á eftir mér.

„Viltu ekki fá kjörseðil?“

Nú voru góð ráð dýr. En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Mér varð hugsað til okkar ágæta forsætisráðherra og hopaði á hæli.

„Nei það dettur mér ekki í hug. Ég tek ekki þátt í svona hráskinnaleik.“

Svo gekk ég öruggum skrefum út, framhjá öllum sjónvarpsmönnunum og sagði þeim að það væri ekki siður á Íslandi að tala á kjörstað. Einhver spurði hvað ég hefði kosið og ég svaraði að það væri leynileg atkvæðagreiðsla, „lonely voting,“ eins og það heitir á frummálinu.

Svo horfði ég á sjónvarpið um kvöldið. Það breytti lífi mínu. Steingrímur sagðist hafa spurt útlenda blaðamenn hvort þeir vissu um einhvern sem vildi vera fjármálaráðherra. Ég fékk inspírasjón.

Ég byrja á morgun. Fæ Svavar og Indriða í arf. Glæsileg byrjun.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.