Að undanförnu hef ég komist yfir býsna margar bækur. Ekki í þeim skilningi að ég hafi eignast einhverjar fágætar bækur heldur hef ég unnið það afrek að lesa slatta af bókum. Flestar hef ég reyndar nýlega eignast. Svo skemmtilega vill til að þær fjalla flestar um tímabilið frá upphafi 20.aldar fram undir 1960 og tengjast lauslega innbyrðis.
Skáldsaga Böðvars Guðmundssonar, Enn er morgunn, vakti talsverða athygli þegar Helga Kress skrifaði bréf þar sem hún sagðist vilja stöðva dreifingu bókarinnar. Að sögn var það vegna þess að hún byggði á atvikum úr lífi föður hennar Brunos Kress. Sagan er reyndar skáldsaga, en sumt er augljóslega líkt atvikum úr ævi fólks sem tengist Helgu. En upp til hópa er þetta fólk gert geðugt þannig að varla hægt að skammast yfir því. Sumir gerðu það af skömmum sínum að segja að Helga hefði með þessu verið að auglýsa bókina, væntanlega vegna þess að þeir töldu það fráleitt. Ég er ekki viss. Hún var um tíma gift Böðvari og kannski vill hún að fólk haldi að bókin sé líkari raunveruleikanum en hún er.
Söguþráðurinn er þannig að drengur af Gyðingaættum á erfiða æsku í Þýskalandi. Hann er tvíburi og afar náinn systur sinni, en Böðvar tekur fram að þau hafi ekki verið eineggja , sem bendir til þess að hann sé ekki vel að sér um líffræði slíkra tvíbura. Fyrir slysni villist pilturinn, sem er tónlistarmaður, inn í Nasistaflokkinn og fær flokksskírteini án þess að biðja um það. Svo uppgötvast að hann sé ekki arfhreinn, en á sama tíma hefur hann fengið verkefni á Íslandi. Þangað fer hann, fljótt kemur á eftir honum bréf um hvers kyns sé og hann verður að hafa ofan af fyrir sér með tónlistakennslu. Hann giftist íslenskri konu og á með henni tvö börn. Þegar Bretarnir koma er hann handtekinn og fluttur til Bretlands. Síðan vill svo til að skipt er á honum og fleiri föngum í fangaskiptum. Eftir stríðið kemur hann ekki tilbaka og lætur ekkert frá sér heyra. Endinn er rétt að fjalla ekki um því að bókin er í sjálfu sér læsileg og ástæðulaust að spilla fyrir ánægjunni af honum.
Á bókinni eru ýmsir gallar sem vel hefði mátt laga með því að láta kunnugan lesa hana yfir. Tónlistarmaðurinn er sagður hafa fengið bréf með milljón marka frímerki árið 1931, en þá var búið að skipta um mörk og frímerkin væntanlega aftur komin á eðlilegt verð. Hann segir að hakakross Nasista og Eimskipafélagsmerkið, gamli Þórshamarinn, snúi andstætt, en svo er ekki þó að margir krakkar hafi haldið það í gamla daga. Þetta hefði hann getað séð með því að nýta sér þjónustu Gúguls. Hakakrossinn hallast hins vegar um 45°. Samningur Hitlers og Stalíns var gerður 1939 en ekki 1938. Fleira mætti tína til.
Hins vegar er öllum ljóst sem þekkja til Brunos Kress, að tónlistarmaðurinn sem sagan fjallar um er annar maður. Bruno kom til Íslands og var þýskukennari við Menntaskólann í Reykjavík, en hann var ekki gyðingur og gekk örugglega í Nasistaflokkinn af fúsum og frjálsum vilja. Á Íslandi var hann einn aðalforingi Nasista.
Hann kenndi mömmu og Ólöfu systur hennar þýsku í Menntaskólanum og þeim fannst hann ekki skemmtilegur. Þær voru eineggja tvíburar, ólíkt söguhetju Böðvars, og Bruno sakaði þær um að ganga hvor upp fyrir hina í munnlegum prófum. Ég man ekki eftir að þær hafi talað um að hann hafi verið Nasisti, líklega látið nemendur í friði með það.
Bruno var giftur dóttur Sigurðar Thoroddsens verkfræðings og menntaskólakennara. Menn geta gert sér leik að því að líkja Theódór við Gunnar prófessor og ráðherra, en hliðstæðurnar þar eru ekki sláandi, þó að nefna megi ýmis líkindi. Bruno var handtekinn þegar Bretar komu til landsins og fluttur til eyjunnar Manar. Svo var skipt á honum og einhverjum Bretum í fangaskiptum. Fangaskiptin eru reyndar afar veikur hlekkur í sögu Böðvars, því hvers vegna hefðu Þjóðverjar átt að vilja fá mann sem þeir vissu að var gyðingur í fangaskiptum? Miklu líklegra var að þeir vildu fá traustan flokksmann.
Brunos er lauslega getið í nokkrum bóka Þórs Whiteheads um seinni heimsstyrjöldina. Hann kemur einnig fram í tveimur greinum eftir Hendrik Ottósson í Þjóðviljanum árið 1946. Hendrik er lítið um Bruno gefið og kallar hann flugumann. Seinna var þó fjallað um Bruno með jákvæðari hætti í Þjóðviljanum þegar hann var orðinn virtur félagi í Kommúnistaflokki Austur-Þýskalands og fræðimaður sem þýddi íslenskar bækur. Ekki mun þó Hendrik hafa gleymt gömlu flokkstengslum Brunos. Árni Björnsson skrifaði skemmtilega minningargrein um Bruno þegar hann lést fyrir rúmum áratug, háaldraður maður.
Bókin er læsileg, en kannski hefði sannsöguleg bók verið skemmtilegri. Stöku sögulegir karakterar koma við sögu og Böðvar leikur sér að nöfnum. Páll Ísólfsson dómorganisti verður Njáll Veturliðason og listvinurinn Ragnar í Smára er Runólfur í Fjólu. Ég veit ekki alveg hvað þetta er fyndið.
Jón Leifs er mörgum hugstæður, og í nýlegum pistli vék ég að bók Árna Heimis Ingólfssonar um hann. Jón var óvenjulega ósympatískur maður. Árni Heimir getur þess til að hann hafi haft væg einkenni geðklofa. Nokkrir tónlistarmenn hafa viljað setja Jón á stall á undanförnum áratugum, en satt að segja er stærstur hluti af tónlist hans mjög fráhrindandi fyrir allt venjulegt fólk. Eflaust er það mikið afrek að flytja sum af stærri verkunum, en hvað með það? Þegar upp er staðið lifir það sem hittir einhverja taug og veldur ánægju en ekki sársauka.
Besta sagan í bókinni nær kjarnanum í lífi og skapgerð Jóns. Hún segir frá því þegar Jón Leifs hitti Þuríði Pálsdóttur, dóttur Páls Ísólfssonar, tónskálds og organista. Jón og Páll höfðu verið vinir, en það breyttist vegna skapbresta Jóns. Í þetta sinn segir hann við Þuríði: „Ef ég hefði ekki verið í 30 ár í útlöndum væri ég í þeim stöðum sem pabbi þinn gegnir núna.“ Þuríður svaraði: „Það getur vel verið, en ef pabbi hefði verið 30 ár í útlöndum, þá væri hann núna heimsfrægt tónskáld.“
Bókin er listavel skrifuð og að mestu hlutlæg lýsing á Jóni. Vonandi verður framhald á skrifum frá hendi höfundar.
Bók Jóns Karls Helgasonar um Ragnar í Smára er skemmtilega skrifuð. Jón Karl beitir því stílbragði að taka bréf Ragnars og fleiri og breyta þeim í samræður sem verða á fjórum dögum í kringum Nóbelshátíðina 1955 þegar Laxness fékk verðlaunin. Þetta er snjöll leið, því að með þessu móti er bæði hægt að segja sögu sem raunverulega gerðist með orðum þeirra sem komu fyrir, jafnvel þó að þau hafi fallið við önnur tækifæri. Eini gallinn er að samræðurnar verða svolítið formlegar, en það er allt í lagi.
Jón Karl er einn snjallasti rithöfundur landsins og á afar auðvelt með að skrifa skemmtilegan texta. Ég hef áður sagt frá bókum eftir hann, t.d. Ferðalokum, bók sem líklega seldist ekki mikið en er afar snjöll. Þar segir hann frá ferðalagi beina Jónasar Hallgrímssonar.
Ragnar þekkti ég ekki og man ekki til þess að hafa hitt hann. Hann var vinur Péturs Ben. móðurbróður míns, en ég man að mamma var ekki hrifin af Ragnari, fannst hann tilgerðarleg listaspíra. Hann hefur þó örugglega gert margt vel og það er gott að þessi bók hafi orðið til.
Ég las fleira, en nú tími minn á þrotum.