Óttalegur flautaþyrill (BJ)

„Hvað erum við orðin gömul, Vigdís mín?“ sagði ég þegar við vorum að hlusta á útvarpið á sunnudagsmorgni. Kona af Austurlandi sagðist hafa heyrt orðið flautaþyrill í æsku. Það hefði verið notað um fljótfæran mann. Þáttarstjórnandinn hafði aldrei heyrt orðið og tveir íslenskufræðingar kepptust við að fletta því upp í orðabók. Eftir drykklanga stund (drykklangur var notaður í mínu umhverfi í æsku) höfðu sérfræðingarnir tveir fundið orðið í orðabók. Þeir voru greinilega komnir nógu langt í stafrófinu til þess að finna erfið orð. „Áhald til þess að þeyta flautir“ sagði þar. Ekki veit ég hvort þau voru nokkru nær.

„Þetta slangur hefur greinilega náð inn í orðabókina,“ sagði stjórnandinn. Markmiðið með þættinum var að finna orð í nýja slangurorðabók. Umræðan leiddist yfir í pælingar, sem ekki þóttu par fínar á Rás eitt að sögn. Annar sérfræðinganna upplýsti að orðið að pæla var gott íslenskt orð. „Nú?“ sagði stjórnandinn. „Hvað þýddi það?“

Við skiptum yfir á aðra rás.

Fólk veit ekki neitt núorðið. Nema í spurningaþættinum Útsvari. Þar virðast sumir vita allt. Og eru líka fljótir að hlaupa. Ég er farinn að verða fyrir því að vita margt sem ég get samt ekki sagt umsvifalaust. Þess vegna er ég betri í spurningaþáttum heima í stofu en ég væri á staðnum. Heima get ég kinkað kolli þegar keppandinn segir rétt svar og hrist hausinn yfir röngu, jafnvel þó að ég hafi rétta svarið bara í undirmeðvitundinni.

Hverjir hafa leikið James Bond? Ég man þá alla, en var svolítinn tíma að muna eftir George Lazenby. Og hvað hét hann sá sem var á eftir Roger Moore. Hann er giftur Vanessu Redgrave. Tim …, Tim … Mér fannst hann góður, en ég var í litlum minnihluta.

Ég geri ráð fyrir því að flestir lesendur viti hvað ég á við. Vinnufélagi minn sagði mér það á föstudaginn að hann hefði næstum verið sofnaður yfir sjónvarpinu. „Ekki drepa tittlinga heldur …“ Við vissum það báðir, en á sextugsaldri er þetta erfitt.

Ég hringdi aftur um kvöldið. „Draga ýsur.“ Símtalinu var lokið.

Timothy Dalton. Ég fór ekki á Netið.

Ég er farinn að ryðga í lotukerfinu. Meira að segja orðinn lakari í hugarreikningi en í gamla daga. Samt vissi ég hvað 52 deilt með fjórum er. Það eiga allir að vita sem hafa séð spilastokk.

Nú er ég að lesa bókina um Jón Leifs eftir Árna Heimi Ingólfsson. Afar vel skrifuð bók og ég hlakka til að halda áfram með hana á eftir. Árni dregur ekki dul á að Jón Leifs var sérvitur furðufugl. Og afar erfiður í samvinnu, tortrygginn og sérlundaður.

Á seinni árum þykir það fínt að telja Jón Leifs mikinn snilling. Kannski er það rétt. Mér líður alltaf eins og barninu í Nýju fötum keisarans þegar ég heyri menn tala um snilld Jóns.

Sama verð ég að segja um Theódóru Thoroddsen. Þulur hennar eru ekki merkilegur kveðskapur. Hér er brot úr einni:

Gekk ég upp á hólinn,
horfði ég niður í dalinn,“
leit ég yfir laut og mó,
lóan upp af hreiðri fló,
upp í gljúfrum gall við hó,
gegndi berg og seiminn dró.
Hóar um nóttu huldubæjarsmalinn.
Á rændu greni refurinn gó,
í reiði brýndi hann tönn og kló,
harmurinn gegnum hjartað smó,
hefndir sór að vetri.
Sauðnum verður sagan ekki betri.

„Refurinn gó.“ Þa er nebbla þa.

Þetta er ágætur barnakveðskapur, en ekki merkilegt hjá fullorðinni konu. Enda birti hún verk sín fyrst undir dulnefni. Hún var samt örugglega merkileg kona. Hún átti fjölmörg börn. Ég las ævisögu Sigurðar sonar hennar og hafði gaman af. Hann bjó á Vesturbrúninni og ég þekki þrjár dætur hans, allar ágætar. Dagur Sigurðarson var líka sonur hans. Hann var sérstakur maður. Þegar ég var strákur sá ég Dag í Unuhúsi, ekki því eina sanna heldur bókabúð Ragnars í Smára. Dagur hefur líklega búið í íbúð á efri hæðinni. Konan sem afgreiddi í búðinni lét mikið með hann. Líklega hefur honum verið sagt að hann væri snillingur. Hafi hann verið það fór hann illa með hæfileikana, var óreglusamur og dó fyrir miðjan aldur.

Theódóra hefur verið skemmtileg að mörgu leyti. Hún sagði einhvern tíma að hún sæi mest eftir því að hafa ekki byrjað að reykja fyrr en sextug. Það væri mikil nautn og gæfa.

Kannski á ég það eftir og get þá um leið farið að lesa íslenskufræðingunum fyrir orð sem þeir kunna ekki. Það eru ekki nema sex ár í það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.