Þrá um forna innilokun og einangrun (BJ)

Á föstudaginn var, 12. febrúar var félagið Sjálfstæðir Evrópumenn stofnað í troðfullum sal í Þjóðmenningarhúsinu. Ég flutti þar meðfylgjandi ræðu:

Fundarstjóri, góðir fundarmenn!

Ég vil fyrir hönd þeirra sem hlutu kosningu í stjórn þakka fyrir það traust sem okkur er sýnt. Jafnframt lýsi ég ánægju minni með þennan góða fund. Tilgangur fundarboðenda er að styrkja umræðu um þetta mikilvæga verkefni. Frjáls viðskipti, einstaklingsfrelsi og vestræn samvinna hafa verið hornsteinar í stefnu Íslendinga í meira en sex áratugi. Oftast hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið þar í fararbroddi. Oft hefur borið á hræðsluáróðri vegna samninga við erlend ríki en sem betur fer hafa foringjar Sjálfstæðisflokksins leitt umræðuna á skynsamlega braut. Máli mínu til stuðnings leyfi ég mér að vitna í nokkra þeirra með leyfi fundarstjóra:

Árið 1969 sagði Bjarni Benediktsson í setningarræðu á Landsfundi sjálfstæðismanna um efnahagssamvinnu við aðrar þjóðir:

„Hingað til hefur það dregist um of af því, að við höfum verið hræddir um, að samvinna við aðra yrði okkur ofvaxin. Ef við látum þann ótta vera okkur lengur fjötur um fót, fer ekki hjá því, að við drögumst aftur úr. Hinir óttaslegnu menn verða að gera bæði sjálfum sér og öðrum grein fyrir hverjar óhjákvæmilegar afleiðingar óttans eru: Sífelldar sveiflur í lífskjörum og hægari og minni framfarir til lengdar í okkar landi en öðrum, sem búsettar eru af þjóðum á svipuðu menningarstigi og við. Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því, að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nærri hafði drepið þjóðina á löngum, þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir standa uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara. Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin  þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafnt stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slíkt þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn. Auðvitað verður að hafa gát á. En eðlilegt er, að almenningur spyrji: Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Björn Bjarnason sagði í grein í Morgunblaðinu árið 1991:

„Við erum þegar farin að sjá til þess hóps manna, sem þykist betur í stakk búinn en aðrir til að segja afdráttarlaust fyrir um það, að íslenska þjóðin glati sjálfstæði sínu, menningu og tungu með frekara samstarfi við aðrar þjóðir, einkum Evrópuþjóðirnar. Þeir sem þannig tala hafa þann sið að gera sem minnst úr málefnalegum rökum viðmælenda sinna og láta eins og þau hnígi öll að því að þurrka íslensku þjóðina út úr samfélagi þjóðanna. Hræðsluáróður af þessu tagi er alls ekki nýr í íslenskum stjórnmála¬umræðum. Kommúnistar héldu honum á loft um árabil í umræðum um varnir þjóðarinnar.“

Björn segir síðar í greininni: „Þótt menn hafi ekki komist til botns í máli og geri ekki mikið meira en gára á því yfirborðið, stofna þeir samtök gegn málefninu. Er það til marks um einlægan vilja til málefnalegra umræðna?“

Bjarni Benediktsson núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sagði í viðtali við Fréttablaðið í mars 2009:

„Þar erum við komin að einu grundvallarviðfangsefninu, sem er að auka stöðugleikann. Ég er mjög efins um, að það sé hægt með krónunni til lengri tíma. Til skemmri tíma getur það gagnast okkur, að þegar verðbólga minnkar eykur veikari króna samkeppnishæfni landsins og gefur okkur þann sveigjanleika sem er nauðsynlegur. En til lengri tíma finnst mér ólíklegt, að við getum aukið stöðugleikann með krónunni. Þess vegna hef ég verið talsmaður þess að við tökum afstöðu til Evrópusambandsaðildar á komandi árum.  Í pólitísku og peningamálalegu samhengi tel ég engan valkost jafn sterkan eins og evran með ESB-aðild. “

Evrópumálin voru á dagskrá landsfundar Sjálfstæðisflokksins árið 1989.  Í skýrslu Aldamótanefndar sagði: „Við hljótum að vinna heimavinnuna með þeim hætti að laga eigið efnahagslíf og leikreglur þess að því sem viðgengst á Vesturlöndum. Við getum aldrei aftur lýst því yfir að í þessu landi verði ekki beitt þeim úrræðum, sem best hafa reynst í þessum heimshluta. Við hljótum að setja okkur það mark að aldrei aftur þurfi þessi þjóð að hokra undir handafli ofstjórnar og kreppuhugsunarháttar, miðstýringar og mismununar.“ …

„Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngöngu ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkur styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.

Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar með að veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið.

Við megum síst af öllu ganga að þessu viðfangsefni með þrá um forna innilokun og einangrun, alteknir af ótta og kjarkleysi. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærðir um það að reyna að ná fram hinu besta, en jafnframt tilbúnir til þess að hverfa frá þeirri leiðinni, ef niðurstaðan er ekki þolanleg.“

Það er gaman að lesa hve víðsýn þessi skýrsla er og hve sannfærðir höfundar hennar eru um að Íslendingar geti gengið hnarreistir til samninga. Menn skyldu „forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd.“ Formaður nefndarinnar var Davíð Oddsson.

Nú munum við Sjálfstæðir Evrópumenn halda starfinu áfram og stuðla að því að Ísland nái góðum samningi við Evrópusambandið og geti gengið í bandalag 27 sjálfstæðra þjóða. Ekki er víst að annað tækifæri gefist til inngöngu á næstu áratugum. Við munum stuðla að fræðslu og umræðu um sambandið með greinaskrifum í blöð og á Netinu, ráðstefnum og umræðufundum. Engin ástæða er til þess að mála skrattann á vegginn og mikilvægt að umræðan byggist á staðreyndum en ekki hleypidómum.

Ég er sammála þessum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins sem ég vitnaði í hér að framan. Við verðum að sýna reisn og styrk og forðast einangrunarþörf og minnimáttarkennd. Til slíkra viðræðna hljótum við að ganga sannfærð um það að reyna að ná fram hinu besta.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.