Ég fór í blómabúð á konudaginn. Ekki að ég haldi mikið upp á hann eða kaupi oft blóm handa Vigdísi. Í dag fannst mér að það gæti verið gaman. Breiðholtinu er blómabúð sem heitir Garðheimar. Hún er álíka stór og rúmgott íþróttahús og strax og maður kemur inn blöstu við nokkrir blómvendir í rekka. Á skilti var þess getið að fleiri fyndust í blómabúðinni. Þá áttaði ég mig á að þarna fæst margt fleira en blóm og ég hafði ekki hugmynd um hvar hana væri að finna í þessu stóra plássi. Sem betur fer blasti samt við skilti sem á stóð blómabúð og þangað ákvað ég af hyggjuviti mínu að leita.
Einhver kynni að velta því fyrir sér hvers vegna ég hafi einmitt viljað kaupa blómvönd núna. Hafði Vigdís kannski fært mér morgunmat í rúmið á bóndadaginn, rjúkandi kaffi, ilmandi vínarbrauð og brakandi beikon? Nei. Og ekki heldur blóm. Reyndar gaf hún mér ekkert nema olnbogaskot um morguninn til þess að segja mér að síminn minn væri að hringja.
Í símanum var Jón Björnsson, bróðursonur Vigdísar. Hann vantaði „kall“ til þess að taka með sér í leikskólann. Á bóndadaginn áttu nefnilega allir krakkarnir að koma með karla með sér. Ég var upp með mér af því að vera beðinn um svo ábyrgðarmikið hlutverk og sagði strax já. Það breytti engu þó að síðar væri upplýst að ég væri fjórði í röðinni af körlum, en hinir voru uppteknir við annað.
Þetta var frábær morgunn. Við fengum blóðmör og harðfisk og krakkarnir léku og sungu. Að vísu kölluðu fóstrurnar á Klömbrum daginn yngissveinadag, en það er fyrsti dagur í Einmánuði, allt annar dagur. Mamma hélt stundum upp á hann, mér til ánægju, en ég var þá yngissveinninn og við bræður. Þarna var gott safn af körlum og ég var hreykinn að vera í þeim hópi. Það var miklu eftirminnilegra en morgunmatur í rúmið.
Í blómabúðinni voru margvíslegir vendir og kransar. Mér fannst óviðeigandi að kaupa krans. Vendirnir voru margvíslegir, en kannski ekki akkúrat það sem ég hafði í huga. Að vísu var ég fyrst og fremst með blómvönd í huga þannig að kannski var þetta ekki alveg rétt lýsing. Réttara var líklega að segja að þeir hafi ekki fallið að hugmyndum mínum þá stundina um hvað væri viðeigandi á konudaginn. Það var reyndar einn vöndur sem mér fannst koma til greina, en hann var allt of dýr.
Ekki misskilja mig að ég hafi ekki tímt að kaupa hann. Öðru nær. En ef ég hefði keypt hann og Vigdís seinna komist að því að ég hefði keypt svona dýran vönd hefði hana getað farið að gruna margt. Ég las það nefnilega einhvern tíma að karlar sem gæfu konunum sínum mjög dýra blómvendi gerðu það yfirleitt af því að þeir hefðu slæma samvisku.
Þess vegna kom þessi dýri vöndur ekki til greina. Í fyrsta lagi hafði ég alls ekki slæma samvisku og í öðru lagi hefði ég alls ekki látið Vigdísi vita af því með svo augljósum hætti ef svo væri.
Svo sá ég annan, sem mér fannst vel geta gengið, en varð þá starsýnt á miðann sem við hann hékk. Tilboðsvöndur. Það gekk auðvitað ekki. Ef ég vildi tilboðsvönd væri ég að gefa til kynna að ég hefði í raun og veru alls ekki ætlað að minnast dagsins, en af tilviljun hefði ég keypt blóm í einhverri sjoppu, bara af því að þau voru á tilboði.
Það kunni greinilega ekki góðri lukku að stýra að kaupa blóm í Garðheimum. Ég hopaði á hæli og strunsaði út í bíl.
Síminn hringdi. Vigdís spurði hvort ég væri ekki á heimleið. Ég játti því. Hún sagði mér að hún ætlaði að arka til móður sinnar, sem auðvitað var snilldarhugmynd. Bæði var veðrið fallegt, gangan mátulega löng og alltaf gaman að hitta tengdamömmu. Sá annmarki var þó á að ég átti eftir að kaupa blómin. Þess vegna sagði ég Vigdísi að ég væri nýstiginn upp úr flensu (sem ég geri reyndar ráð fyrir að henni hafi verið vel ljóst) og vildi ekki eiga á hættu að slá niður aftur.
Ég fór í næstu blómabúð, Blómastofu Friðfinns. Hún hefur verið á sama stað í áratugi. Þar var fjöldi manns inni, mest timbraðir karlar sýndist mér sem létu hámenntað blómaskreytingarfólkið raða saman fyrir sig stilkum, laufi, stráum, rósum og greinum. Það tók langan tíma að afgreiða hvern um sig. Í því að ég íhugaði alvarlega að geyma blómakaupin til næsta árs sá ég hins vegar rétta vöndinn.
Í því kallaði afgreiðslukonan: Næsti! og af því að allir hinir voru önnum kafnir við að raða saman réttu setteringunni var ég einmitt næstur. Þetta fannst mér teikn af himnum um að ég ætti einmitt að kaupa þennan vönd. Ég slengdi honum á borðið, varlega þó, rétti fram kortið og lokaði augunum um leið og ég skrifaði undir þannig að það væri alveg víst að fagurfræðin ein réði valinu.
Svo þegar Vigdís kom heim fékk hún blómin og varð ósköp glöð. Í kvöld kveikti ég upp í arninum og við horfðum í rómantíska logana í nokkrar mínútur. Auðvitað hefði ég líka átt að taka upp rauðvínsflösku en það er sunnudagskvöld, vinna á morgun, þannig að það verður að bíða betri tíma.
Þegar ég les fyrirsögnina núna dettur mér í hug frasinn: Blóm og kallar afþakkaðir.