Íslendingur flytur Frökkum ávarp í skosku blaði (BJ)

Ég las um helgina Vonarstræti, ágæta bók eftir Ármann Jakobsson. Bókin fjallar gagnstætt því sem nafnið bendir til lítið um strætið heldur fyrst og fremst um dvöl Skúla Thoroddsen og Theodóru konu hans í Kaupmannahöfn sumarið 2008. Þá reyndu Íslendingar að semja um réttarbætur á stjórnarfari sínu við Dani. Sjö manna sendinefnd undir leiðsögu Hannesar Hafsteins náði fram miklum réttarbótum, en í samkomulaginu voru alvarlegir ágallar. Í fyrsta lagi var sagt að Ísland „yrði ekki af hendi látið,“ og í öðru lagi voru engin uppsagnarákvæði í samningnum. Sagan er skáldsaga, en byggir á staðreyndum svo langt sem þær ná. Ármann hefur örugglega haft aðgang að fjölmörgum bréfum og nær að skapa andrúmsloft sem líklegt er að lýsi vel samskiptum þeirra hjóna.

 

Skúli varð þetta sumar þjóðhetja vegna þess að hann neitaði að skrifa undir samkomulagið. Ármann dregur það skýrt fram að á þessum tíma var Skúli ólíkleg hetja, orðinn veikur maður líkamlega og hefur að öllum líkindum átt við alvarlegt þunglyndi að etja. Samkvæmt lýsingu Ármanns hafði Skúli lítið samneyti við sína nánustu, borðaði ekki með fjölskyldunni og náði helst sambandi við konu sína. Samt sem áður var Skúli í forystuhlutverki í Sjálfstæðisflokknum gamla og kom til greina sem ráðherra. Miðað við lýsingar Ármanns hefði það ekki farið vel. Það varð á endanum Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, sem fékk ráðherraembættið. Hann reyndist líka vanbúinn og ef til vill vanheill og var að tveimur árum liðnum felldur með vantrausti af eigin félögum. Skúla gætu hafa beðið svipuð örlög, en þó að heilsa hans hafi ekki batnað kom hann enn til greina sem ráðherra vorið 1911. Það varð þó ekki. Kristján Jónsson, sem allir hafa nú gleymt og aldrei var mikill skörungur, varð fyrir valinu.

 

Sumarið 1911 varð undarleg uppákoma sem Ármann víkur stuttlega að í framhjáhlaupi. Skúli var boðinn sem forseti sameinaðs þings til Rúðuborgar, Rouen, í Frakklandi til þess að halda upp á að 1000 ár voru frá því að Göngu-Hrólfur vann sín afrek. Þessu för varð öll hin undarlegasta. Auk Skúla fór Guðmundur Finnbogason, en þeir hittust aldrei meðan á hátíðinni stóð. Reyndar fór Skúli ekki á einn einasta viðburð á hátíðinni. Svo virðist sem enginn hafi tekið á móti honum þegar hann kom á hótel sitt. Líklega hefur hann móðgast, því að eftir þetta mun hann varla hafa farið út úr herbergi sínu alla vikuna sem hátíðin stóð. Danskur konsúll sem var með boðsmiða fyrir Skúla á ýmsa viðburði hitti hann aldrei. Ekki er ljóst hvort Skúli hafði látið gestgjafa vita hvar hann ætlaði að gista. Í Kaupmannahöfn árið 1908 vildi hann ekki vera á sama hóteli og félagar hans í íslensku sendinefndinni og ef til vill hefur hann líka viljað vera sér á báti þetta sumar.

Hvað sem því líður hafði Skúli farið til Frakklands á kostnað ríkisins án þess að þiggja nokkrar velgjörðir af afmælisbarninu. Kannski hefðu þó engin orðið eftirmál ef hann sjálfur hefði ekki birt undarlega grein í blaði sínu, Þjóðviljanum. Þar greinir hann frá því að á heimleið hafi hann viljað birta ávarp til „frakknesku“ þjóðarinnar. Ekki valdi hann þó til þess eitt af stórblöðum Frakklands, eða nokkurt franskt blað yfirhöfuð, heldur Evening News (Kvöldtíðindi Edinborgar).

Skrásett skrifstofa: 18 Market Street.(Markaðs-stræti).í Edinborg, en þar stoppaði skip hans. Flestir telja þetta eflaust óvenjulegan vettvang, en Skúli var á öðru máli. Gefum honum orðið:

„ Úr Frakklandsför minni.

Þegar eg kom úr Frakklandsför minni — hafandi verið við Göngu-Hrólfs-hátíðahöldin í Rouen —, þótti mér vel fara á því, að ávarpa frakknesku þjóðina nokkrum orðum.

Menn þekkja fagurmælin og markleysu-hjalið, sem vanalega er tjaldað með við þess konar tækifæri. En mér fanst fara betur á því, að alvöruorðin kæmust og einnig að, og þess sízt vanþörf, eins og ástatt er hjá frakknesku þjóðinni, sem og hjá öðrum þjóðum jarðarinnar yfir höfuð.

Af þessum rótum var það, að eg beiddi ritstjóra brezka stórblaðsins „Evening News“, sem gefið er út í Edinborg, að birta í blaði sínu greinina sem hér fer á eftir.

Ritstjórinn varð að vonum hissa við að fá þessa óvenjulegu sendingu. Hann svaraði:

„Kæri herra! — Mér hefir nú rétt í þessu gefizt tími til að fara yfir grein yðar, og þykir mér leitt, að geta eigi tekið hana í blaðið, með því að lesendur blaðs vors myndu eigi hafa neinn sérstakan áhuga eða ánægju af málefnunum, sem þar eru gerð að umtalsefni, sem og vegna hins, að mjög er, krýningarinnar vegna, lítið um rúm í blaði voru’). Samkvæmt umtali endursendi eg því greinina hér með.

Yðar einlægur

Robert Wilson, blaðstjóri.“

Þetta fannst Skúla stórfurðulegt að ritstjórinn skyldi frekar vilja birta ómerkilegan fréttatíning um undirbúning krýningar-hátíðahaldsins í Lundúnum, alls nær tveggja dálka langan lista i blaði sinu yfir nafnbætur, er veittar höfðu verið, i tilefni af krýningar-athöfninni (tilnefningu nýrra lávarða, baróna m. m.).

Þingforsetinn reynir ekki að leyna hneykslun sinni: „Þetta var það, sem Bretanum reið mest á að fræðast um og hafði eg þá engan tíma til þess, að koma henni í annað blað, þar sem eg var þá alferðbúinn til Íslands.“

Hann heldur áfram: „Bréf þetta þótti mér lýsa svo lágum hugsunarhætti, sem og bera vott um slíkt kjarkleysi ritstjórans, og lítilsvirðingu á smáþjóð, að eg taldi rétt, bæði mannsins sjálfs, málefnisins og almennings vegna, að svara því, sem hér segir:

  1. t. Leith 18. júní 1911.

Kæri herra!— Bréf yðar, dags. 17. þ. m., hefi eg móttekið, og þykir mér leitt að heyra, að þér hafið það álit á lesendum blaðs yðar, að þeim þykir engu skifta um allra þýðingarmestu málefni mannkynsins, er varða eigi lítils hvern einstakan þeirra sérstaklega.

Hvað þykir þeim þá máli skifta?

Eg hélt eigi, að þér telduð lesendur blaðs yðar sauði. Þér teljið þeim meira áríðandi, að fá að vita alt, er að krýningunni lýtur, og sýnir það hugsunarhátt yðar mjög prýðilega, og skoðun á veslings lesendum blaðs yðar.

Annars gat hvorttveggja mjög vel farið saman í eigi minna blaði, en „Evening News“, er kemur út sex sinnum á viku.

En aðalatriðið er — og þykir mjer leitt að segja —, að þér hafið eigi viljað segja mjer sannleikann. Yður var eigi ókunnugt um það, að sumir lesenda yðar mundu hafa fundið sig ónotalega snortna, vitandi sig eigi hafa gengt skyldu sinni.

En því skyldara var yður, að láta þá heyra sannleikann, enda þeim því nauðsynlegra. Til þessa brast yður þrek. Slæmt fyrir blaðamann, sem vissulega aldrei má gleyma því, að á honum hvílir enn meiri siðferðisleg ábyrgð, en á öðrum, og ríkari skylda, til að átelja það, sem rangt er.

Ef til vill hafið þér og talið yður óvandfarnara, þar sem beðið var hljóðs í nafni smáþjóðar, og eru þær slíku eigi óvanar.

En einmitt þess vegna var nú skylda yðar ríkari, sem og vegna hins, er útlendingur átti í hlut. Mér þykir leitt, að hafa hitt á ritstjóra, sem eigi átti göfugri hugsunarhátt, en svar yðar bendir á.

Stóra-Bretlandi get eg eigi óskað marga yðar líka.

Með virðingu.

Skúli Thoroddsen. •

(Einnig blaðstjóri).“

Greinin er auðvitað ræða sem Skúli hefur verið búinn að semja til þess að flytja á hátíðinni. En þegar enginn tók á móti honum ákvað Skúli að birta hana frekar í skosku „heimsblaði“.

Eiginlega er miður að greinin (ræðan sem aldrei var flutt) skuli hafa orðið aukaatriði í umfjöllun um Rúðuhneyxlið sem svo var nefnt af andstæðingum Skúla. Málið sýnir að hann gekk engan veginn heill til skógar og hafði enga burði til þess að verða ráðherra. Greinin byrjar á heimóttarlegri tilvísun í að Skúli sjálfur sé náfrændi Göngu-Hrólfs. Þá sem nú kunnu Íslendingar að draga fram aðalatriðin.

Meginatriði ávarpsins fjallar hins vegar um mannréttindi og er eins konar krafa um mannréttindaskrá og bann við stríðum. Þó að Skúli segi það ekki berum orðum er augljóst að slíku banni yrði ekki framfylgt nema með alþjóðastofnun eins og Sameinuðu þjóðunum, sem komu miklu seinna til sögunnar.

Eftir skylmingar sínar við skoska ritstjórann biður Skúli frakkneska konsúlinn að koma ávarpi sínu á framfæri. Það er skrítið að Skúli skuli leggja svo mikið á sig í þessu máli eftir að hafa klúðrað því að flytja ávarpið á réttum vettvangi.

Til frakknesku, þjóðarinnar.

Sem forseti Alþingis Íslendinga leyfi eg mér hér með að tjá hátíðanefndinni í Rouen, sem og frakknesku þjóðinni yfirleitt, þakkir fyrir það, að hafa gefið mér, sem forseta þingsins, kost á því, að heimsækja yður við nýnefnt tækifæri.

Þykist eg mega fullyrða, að íslenzku þjóðinni hafi verið þetta kært, eigi að eins vegna skyldleikans — þar sem Hrollaugur, bróðir Göngu-Hrólfs, nam land á Íslandi, og af honum er þar mikil ætt komin.  (Ættfróður maður á Íslandi (dr. Jón Þorkelsson) sagði mér, að eg væri í þrítugasta lið kominn af Hrollaugi). — heldur og engu síður vegna hins, að Ísland hefir, eins og fjölda margar þjóðir á jörðinni notið góðs af því, að meðal frakknesku þjóðarinnar hafa lifað karlar og konur, sem fundið hafa ríkt til þess, að hið illa, og djöfullega á eigi að þolast, hvort sem framið er í skjóli laga, yfirvaldsskipana, eða á annan hátt, — fundið, að gegn öllu slíku er öllum skylt að hefjast handa, og að svífast jafnvel alls einskis, er mestu varðar.

Jeg á hér við byltingarnar þrjár, er einnig leiddu vekjandi strauma til ýmsra annara landa jarðarinnar.

—.———

En það er því miður enn afar margt, er viðgengst hér og hvar á jörðu vorri, sem enginn á að þola, og það því síður, sem lengur hefir gengið, og get eg því — við þúsund ára tímamótin í sögu Normandísins — eigi óskað frakknesku þjóðinni, og þá um leið íbúum jarðarinnar í heild sinni, annars betra og nauðsynlegra, en þess, að henni auðnist að eiga jafnan sem allra flesta, karla og konur, sem að því leyti feta í fótspor frakknesku byltingarmannanna, að þola eigi hið siðferðislega ranga, hvar eða við hvern sem beitt er, né undir hvaða yfirskyni sem er.

Án þess að fara í þessu efni um of út í einstakleg atriði, vil ég í þessu leyfa mér að benda á:

  1. Að öllum íbúum jarðarinnar, hverir og hvar, sem eru, er í sameiningu skylt að sjá um, að hvergi séu önnur lög látin þolast, en þau sem siðfræðilega rétt eru, t. d.:
  • að hvergi séu leyfðar hegningar í kvölum, hve skamma hríð, sem um ræðir, og það þótt að eins væri um augnablikið að ræða,
  • að hvergi sé látið viðgangast, að nokkrum manni sé þröngvað til þess, eða leyft, að fara í stríð, nema um alóhjákvæmilega sjálfsvörn sé að ræða, sem reyndar á aldrei að geta komið til, þar sem öllum er skylt, hverrar þjóðar sem eru, að hefta slíka árás,
  • að hvergi sé leyft að sjálfstæði nokkurs þjóðernis sé traðkað,
  • eða að traðkað sé jafnrétti kvenna og karla í þjóðmálum, eða á annan hátt, eður að sjúkum eða bágstöddum sé eigi hvívetna jafnt hjálpað, hvar á jörðu sem eru, eða hverrar þjóðar,
  • eða að allir eigi ekki jafnan og greiðan aðgang að því, að ná rétti sínum, að afla sér þekkingar, yfirleitt njóta unaðar af listum og vísindum, þæginda hraðskeytasambandsins, beztu samgöngubóta o. fl. o. fl.

 

  • 2. Vér megum eigi gleyma því, sem hingað til hefur um of viljað við brenna, að alþjóðlega hjálparskyldan, og þá jafnframt siðfræðilega ábyrgðin, sem á öllum hvílir, er einmitt enn ríkari, þar sem í hlut eiga hinir afskektu, fámennari eða fátækari.Að til þess að kippa öllu þessu í rétt horf, ættu allir íbúar jarðarinnar, hverrar þjóðar, sem eru, og hvar sem eru, að greiða árlega alþjóðlega skatta, og alt hið framangreinda að vera háð alþjóðlegu eftirliti. Óskandi þess, að frakknesku þjóðinni megi auðnast, að eiga sem flesta ötula forgöngumenn, er fyrir nýnefndum skyldum mannkynsins berjast, leyfi ég mér að færa henni hlýjustu heillaóskir íslenzku þjóðarinnar.

A heimleið frá Rouen-hátíðahöldunum p. t. Leith á Skotlandi 17. júní 1911.

Skúli Thoroddsen

Alþingisforseti Íslendinga.

Vona eg að íslendingum, sem öðrum, þyki greinin orð í tíma talað, og læt svo úttalað um þetta mál.

Reykjavik */? 1911.

Skúli Thoroddsen“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.