Ég var að skrifa jólakort í vikunni og eins og venjulega fór ég í gegnum kortin sem ég fékk í fyrra til þess að tryggja að enginn fengi kort sem ekki skrifar mér og að ég skrifaði örugglega öllum sem sendu mér kort í fyrra. Þá sá ég eitt jólakort með prentuðum texta, væntanlega Gleðileg jól og farsælt komandi ár eða eitthvað þvíumlíkt. Auk þess var eitt orð og tala. Jólinn 2008. Undir var nafn sendandans. Það var rétt stafsett.
Svona var þetta. Bara eitt orð og það var rangt.
Þetta minnti mig á það þegar Jón Guðmundsson íslenskukennari kom inn í tíma hjá okkur í menntaskólanum og sagðist hafa tekið leigubíl í skólann. Hann bað um nótu og á henni var bara eitt orð. Axtur.
„Ætli þetta sé ekki eina orðið sem þessi maður skrifar,“ sagði Jón. Það var greinilegt að honum þótti íslenskukennsla fara halloka í málfarsstríðinu.
Þessi dæmi leiddu til þess að ég fór að hugsa um það hvort einstök orð skiptu máli. Einar Ben sagði:
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Á ákveðnum stundum geta orðin verið dýr. Þetta þekkja líklega allir. En eru það stök orð sem skipta máli eða heilar setningar?
Vitanlega þurfa menn að segja „já“ á réttum stundum. Fyrir altarinu jánka þeir sem koma upp orði á annað borð. Ef ekki verður það efni í gamanmyndir, þó að maður eigi erfitt með að hugsa sér dapurlegt hlutskipti hins, sem jánkaði með bros á vör.
Í stríði hrópar herforinginn „Árás!“ þegar hann telur stundina rétta. Ef dómarinn kallar „víti“ getur það breytt gangi leiksins. Skákmenn óttast að andstæðingurinn segi mát.
Samt eru orðin sjálf, þó að stök séu, einungis tjáning á því sem gerist. Dómarinn getur bent á vítapunktinn og menn eru mát ef kóngurinn getur sig hvergi hreyft, jafnvel þó að andstæðingurinn segi ekki orð.
Útgáfa íslensku þýðingarinnar á Orðræðu um Aðferð eftir Descartestafðist í mörg ár vegna þess að eitt orð vantaði í þýðinguna.
Halldór Laxness talar um að það sé bara til einn tónn og hann sé hreinn. Auðvitað er þetta bara stílbragð. Í tónlist eru margar nótur, en á ákveðnum stöðum í laginu passar kannski bara einn tónn. Garðar Hólm, söguhetjan í Brekkukotsannál, kunni ekkert að syngja þannig að hann hitti aldrei á rétta tóninn.
Atli Heimir Sveinsson kenni söng sem kallað var í menntaskólanum. Mest var það tónfræði og spjall Atla um það sem honum datt í hug þann daginn. Hann var þá farinn að semja það sem nú væri eflaust kallað framsækin tónlist. Okkur fannst hann ekki hitta á einn einasta hreinan tón í þessari tónverkasmíð. Þannig að útfrá því gat Laxness haft rétt fyrir sér.
Stundum eru rithöfundar lengi að leita að rétta orðinu. Lesendur vita hins vegar vel hvað það er:
Hættu!
I enjoyedd reading your post
Líkar viðLíkar við