Á byrjunarstigi

Svona byrjar það, hugsaði ég.

Það var sama hvar ég leitaði, þessi kvittun sem ég leitaði að var hvergi. Þó mundi ég vel eftir því að hafa stungið henni í vasann í Krónunni. Bað sérstaklega um að fá kennitölu á reikninginn. Mig minnti að ég hefði stungið bréfinu í brjóstvasann, ég geri það oft með hluti sem ég vil ekki týna, en hann var tómur. Galtómur. Stundum er þar hálf tafla af íbúfeni, en hún var farin veg allrar veraldar.

Jakkavasarnir tveir voru næstir. Þeir voru auðvitað ekki ólíklegir. Þegar maður er með fangið fullt þá setur maður kvittunina bara eitthvert. En í hægri vasanum var bara húslykillinn heima og í þeim vinstri hárbursti. Lítill plastbursti sem hægt er að brjóta saman þannig að hann gerir ekki göt á flíkurnar. – Þarna var hann þá. Gott að vita af honum. Mér gengur ágætlega að greiða mér svona yfirleitt, makkinn leggst vel nema nokkur hár aftan á hnakka við hvirfilinn. Ég hélt enginn tæki eftir þessu, en svo sá ég að Halldór Baldursson grínmyndateiknari passaði yfirleitt að hafa einmitt þessi hár upp í loftið. Maður felur ekkert fyrir Halldóri.

Innri vasarnir voru líka klappaðir og hendurnar settar á kaf í þá. Þar var ekkert nema veskið, alltaf á sínum stað, og síminn.

Á frakkanum eru auðvitað vasar líka, en þeir eru yfirleitt troðfullir af hönskum og húfu á þessum árstíma. Illur grunur læddist að mér. Kannski hafði ég sett nótuna í frakkavasann, tekið svo hanskana upp úr og kvittunin dottið út.

Þreifaði samt í rassvasann líka, en hann var tómur að vanda og ekkert í buxnavösunum þegar ég strauk niður eftir þeim.

Leitaði svo á skrifborðinu þar sem ýmsir pappírar eru, en þar var ekkert. Auðvitað var þar margt og merkilegt, en ekki þessi kassakvittun.

Þetta voru reyndar ekki nema tæplega fjögur þúsund krónur sem ég keypti fyrir, þannig að ég myndi lifa það af að tapa þeim, en samt var þetta gremjulegt.

Ef kvittunin hafði dottið úr frakkavasanum var líklegast að það hefði annað hvort gerst í bílnum eða á leiðinni af bílastæðinu. Þannig að ég reyndi að þræða sömu leið og ég gekk frá bílastæðinu. Besti hefði verið að ég hefði misst hana í stiganum í Þórunnartúni. Þar er ekki nokkur maður sem tekur upp það sem á gólfinu liggur, nema ég. Ég gerði einu sinni tilraun og lét bréfsnifsi ósnert í þrjá daga í tröppunum þangað til ég þoldi það ekki lengur. Það vinna ekki nema 100 manns í þessu húsi.

En ekkert var í stigaganginum, né heldur á gangstéttinni fyrir utan. Hvað þá í Bríetartúni eða Hátúni.

Þegar ég opnaði bílinn kviknaði von. Var ekki hvítur miði milli sætanna? Reyndar.

Með lagni tókst mér að veiða hann upp. Mér til vonbrigða var þetta bara vísanóta, engin kassakvittun með kennitölu, en samt. Hún var reyndar upp á 3.782 krónur, sem var um það bil fjárhæðin sem ég hafði keypt fyrir. Hinir pappírarnir hlutu að vera undir sætinu eða í hurðavösunum, en þar var ekki neitt.

Betra en ekkert, hugsaði ég, þó að ég vissi vel að það væri eiginlega ekki rétt.

Þegar ég kom heim horfði ég betur á miðann og sá að hann var bæði gamall og alls ekki úr Krónunni. Ekkert á honum að græða.

Um helgina gleymdi ég þessu næstum því (svona eins og maður getur gleymt svona missi), gekk á Úlfarsfellið á sunnudeginum og tók til í eldhúsinu. Þvoði meira að segja einhvern þvott.

Á sunnudagskvöld kom fólk í heimsókn til okkar og ég varð að skipta um buxur. Hengdi upp gallabuxurnar á herðatré og fór í bláu léreftsbuxurnar. Sem ég er að strjúka úr þeim krumpur finn ég að það er eitthvað í vinstri vasanum. Ég sting hendinni í vasann og dreg upp kassakvittun með viðheftri kortanótu.

Þetta er auðvitað yfirskilvitlegur atburður, en ég ætla ekki að dvelja lengur við hann hér, því ég er hræddur um að lesendur myndu ekki skilja hann.

Enda styttist í enn merkilegri tíðindi.


Á mánudagsmorgni vaknaði ég snemma og var albúinn að halda að heiman og fór yfir venjulegan gátlista:

Bíllykill. Tékk.
Húslykill. Tékk.
Sími. Tékk.
Gleraugu. Tékk.
Viðreisnarmerkið í barminum. Tékk.
Veskið.

Veskið …

Það var ekki um að villast. Veskið var ekki í brjóstvasanum. Ég mundi vel að ég hafði sett það með lyklunum og símanum á borðið í forstofunni þegar ég kom úr göngunni.

En þar var ekkert. Til öryggis kannaði ég hvort Krónukvittunin hefði líka orðið geimverum að bráð, en hún var á sínum stað enn.

Af því að ég er nýbúinn að lýsa annarri leit í smáatriðum fer ég hratt yfir sögu. Eldhús, stofa, svefnherbergi, aðrir jakkar. Steinunn dóttir mín hafði átt afmæli daginn áður og ég flaggaði. Ég gat rakið sporin og þar var ekkert. Gekk aukahring um flaggstöngina til öryggis.

Það blasti auðvitað við að Vigdís hafði komið veskinu einhvers staðar fyrir, en ég vildi auðvitað ekki saka hana beint um það og fór annan hring til öryggis. Sérstaklega yfir öll föt, ég hafði verið í einhverjum öðrum fötum á laugardagskvöldið, en í þeim vösum var ekkert.

Ég mundi eftir ráði frá Rubinstein vini mínum um að líklegra væri að finna hluti sem maður hefði týnt á stöðum þar sem maður hefði verið en annars staðar. Þess vegna fór ég aftur yfir öll föt í fataskápnum og strauk alla vasa. Ég klappaði meira að segja gallabuxunum sérstaklega, áður en ég gerði það augljósa. Hringja í Vigdísi.

Nei, hún hafði ekki séð veskið (mundi auðvitað ekki hvar hún hafði óvart sett það, hugsaði ég, en sagði ekki neitt. Hafði ég kíkt á náttborðið? Eða í fötin sem ég hafði verið í?

Hvað heldur Vigdís eiginlega að ég sé vitlaus?

Takk, elskan, sagði ég og hætti þessu tilgangslausa símtali. Fór samt yfir náttborðið og alla jakka og frakka sem ég hafði verið í undanfarið hálft ár eða svo.

Tók pullurnar úr sófanum í sjónvarpsherberginu. Þar eru ekki einu sinni tíkallar lengur. Það ganga engir með reiðufé á sér núorðið nema Sjálfstæðismenn og eiturlyfjasalar.

Þvottahúsið, fataskápurinn, bíllinn, eldhúsið aftur.

Í hvaða úlpu hafði ég verið í göngunni? Á öðrum vasanum á henni er ekki hægt að renna upp rennilásnum alveg. Hefði veskið getað dottið úr honum?

Nei þar voru allir vasar tómir. Þar var ekki einu sinni íbúfentaflan sem ég hef alltaf með mér á gönguferðum, ef bakið léti á sér kræla, sem það gerir aldrei þegar ég geng.

Bíddu, bíddu, bíddu. Taflan var þarna í gær og ég tók hana upp úr og setti í buxnavasann. Og ég hafði heldur ekki fundið hana þegar ég leitaði í þeim. Heil tafla hefði ekki leynt sér.

Ég fór enn einu sinni að herðatrénu og kafaði nú í vasana. Í hægri vasanum var auðvitað heil pilla og veskið mitt. Þó að ég væri búinn að margþukla buxurnar þá héngu vasarnir niður en ekki upp. Bannsett þyngdarlögmál.

Þó ég væri í huganum búinn að semja langan pistil til þess að flytja fyrir Vigdísi um kvöldið að hún ætti alls ekki að færa til mína hluti, var sá fyrirlestur gleymdur að sinni og ég ákvað að vera ekkert að minnast á þetta við hana frekar.

Því segi ég eins og aðrir stjórnmálamenn: Ég þarf að leita mér hjálpar og vinna í mínum málum.

En hver þau eru man nú enginn.

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.