Það var aldrei neinn púki á fjósbitanum

Margir segjast kannast við „púkann á fjósbitanum“. Þeir sem um hann tala telja sig væntanlega vera að vísa í þjóðsögu um þann fræga púka. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þó að sögur í Þjóðsögum Jóns Árnasonar séu tvær af púkum, þá var hvorugur þeirra á fjósbita.

Annar var í fjósi og hinn á kirkjubita en einhverntíma hefur þeim slegið illilega saman. Jón G. Friðjónsson skrifaði um þetta í Morgunblaðið árið 2004:

„Í annarri sögunni segir frá því að Sæmundur lét púka í fjósið hjá fjósamanni sem honum þótti of blótsamur en með þeim hætti hugðist hann sýna honum að kölski hefði blótsyrði og illan munnsöfnuð mannanna handa sér og púkum sínum til viðurværis. Fjósamanni tókst að stilla sig í nokkurn tíma og sá hann að púkinn horaðist með hverju dægri. Þó kom að því að hann hellti yfir hann óttalegum illyrðum og hroðalegu blóti en þá lifnaði púkinn við og varð svo feitur og pattaralegur að við sjálft lá að hann hlypi í spik þar sem hann lá á básnum sínum. Til þessa vísar orðatiltækið að fitna eins og púkinn í fjósi Sæmundar.

Í hinni sögunni segir frá púka sem sat á kirkjubita og skráði hjá sér skammaryrði tveggja kerlinga sem sátu undir kirkjubitanum. Til þessa vísar orðatiltækið að gleðjast eins og púkinn á kirkjubitanum.“

Þjóðsögur Jóns Árnasonar komu út á árunum 1862-4. Púkinn komst ekki í tímarit fyrr en um aldamótin. Skúli Thoroddsen skrifaði árið 1900 um „Þjóðólf, sem allir vita, að ekki þrífst á öðru, en íllindum og skömmum, eins og púkinn á kirkjubitanum.“ Hann fer sem sé alveg rétt með. Þessi rétta útgáfa af púkanum kemur 13 sinnum fyrir í tímaritum frá 1900 fram til dagsins í dag, síðast í áðurnefndum pistli Jóns Friðjónssonar.

Púkinn í fjósinu kemur aftur á móti ekki nema sjö sinnum fyrir í íslenskum tímaritum. En samkvæmt vefsvæðinu timarit.is klifraði hann ekki upp á fjósbitann fyrr en árið 1936 í grein Páls á Þverá í Morgunblaðið: „En stjórn hinna vinnandi stjetta þrífst eins og púkinn á fjósbitanum.“ Páll getur þess ekki hvort það er vegna ills umtals eða blótsyrða sem stjórnin þreifst.

Sigfús Halldórs frá Höfnum talaði svo um púkann á fjósbitanum í útvarpserindi árið 1940 þar sem hann hefur áhyggjur af því hve ungar íslenskar stúlkur séu hrifnar af setuliðinu. Hann tengir púkann blótsyrðum, en það var púkinn í fjósinu sem lifði á þeim.

Morgunblaðið segir í ómerktri grein í júlí 1948: „En það fer eins og áður að púkinn á fjósbitanum gleðst og hressist við að hlusta á það, sem ljótt er.“ Það var einmitt púkinn á kirkjubitanum sem hresstist við það.

Magnús Kjartansson, síðar ritstjóri Þjóðviljans og ráðherra, skrifaði árið 1949: „Líkt og púkinn á fjósbitanum er draugur þessi alinn og fitaður á ragni og formælingum“. Draugurinn var vofa kommúnismans.

Það var sem sé þverpólitísk samstaða um orðasambandið „eins og púkinn á fjósbitanum“ sem hélt áfram að dafna, rétt eins og … tja, … púkinn í fjósinu.

Púkinn línurit

En eins og sést á línuritinu fer vegur þessa ranga orðatiltækis þó heldur minnkandi. Eftir 1990 minnkar stöðugt notkun á því. Vonandi endar það eins og púki Sæmundar sem veslaðist á endanum upp.

Jón Friðjónsson bendir réttilega á það í Mogganum  að myndin af fjósbitapúkanum á sér ekki stoð í þjóðsögum Jóns Árnasonar, en bætir svo við með fágætu umburðarlyndi: „Þar með er ekki sagt að hún sé röng og að engu hafandi, málvenja og málkennd sker úr um það.“

Þessu er ég alveg ósammála. Ef myndin er ekki hjá Jóni Árnasyni þá er hún röng. Sem betur fer á ég mér góðan bandamann um þessa skoðun.

Þórarinn Eldjárn orti um þessa tvo púka sem margir hafa sameinað í einn:

Um púka þann er þekktur var
það skulu menn vita:
Sá var í fjósi Sæmundar
eða sat á kirkjubita.

Á fjósbitanum fann sér stað
og fitnaði enginn púki.
Óráðshjali öllu um það
er því best að ljúki.

Þ. Eld.

Sem sagt. Ef einhver talar um púkann á fjósbitanum, þá er líklega heldur ekki að marka annað sem hann segir.


Myndin sem fylgir greininni er eftir Freydísi Kristjánsdóttur sem myndskreytti útgáfu Heims á Íslenskum þjóðsögum árið 2014.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.