Fegursta ástarljóð á íslensku?

Ég fór í jarðarför í gær. Mér finnst jarðarfarir alltaf sorglegar. Í Útlendingnum eftir Camus var sögumaðurinn dæmdur af því að hann grét ekki við útför móður sinnar. Ég tárfelli stundum í jarðarförum fólks sem ég þekki ekki neitt. Einhver kann að spyrja hvað ég sé að gera í jarðarförum fólks sem ég þekki ekki, hvort ég sé haldinn einhverri jarðarfaraónáttúru. En það er ekki ástæðan, stundum fer ég til dæmis í jarðarfarir foreldra vina minna, jafnvel þó að ég hafi aldrei hitt þau.

En konan sem var jörðuð í gær var ekki ein af sem ég þekkti ekki. Það eru næstum fimmtíu ár síðan ég sá hana fyrst. Við unnum á sama stað í nokkur ár og svo var hún gift Halldóri frænda mínum Blöndal. Kristrún Eymundsdóttir var oftast brosandi. Að minnsta er hún þannig í minningunni og þannig var hún í minningarræðu prestsins. Synir hennar tveir sem ég þekki eru líka afskaplega ljúfir menn, þeir Eymundur og Pétur.

En ég ætla ekki að skrifa meira um þau í dag. Ég ætla að skrifa um eitt ljóðið sem sungið var í jarðarförinni.

Ég held að ég hafi fyrst heyrt þetta ljóð fyrir 27 árum í jarðarför frænda míns, Benedikts Blöndals. Kannski var það í jarðarför Kristínar, systur hans, ári síðar. Þau dóu bæði allt of ung. Rétt eins og Kristjana, mamma þeirra, rúmlega 35 árum áður. Krabbameinið lagði þau öll að velli, mein sem virtist ekki geta látið fjölskylduna í friði.

Ég man enn eftir því þegar Kristín var jörðuð, rétt fyrir jólin, hvað það var sorglegt að horfa á fjölskylduna við opna gröfina í svartasta skammdeginu. Þá streymdu tárin niður marga vanga.

Ljóðið sem var sungið í gær við lag Jóns Nordals er angurvært og einlægt. Það er dimmt yfir, en minnist tíðar þegar allt var betra. Stundum verða slík ljóð væmin, en ekki þetta, því að það er ort af einlægri tilfinningu. Kannski heyrði sú sem til var ort ljóðið aldrei.

Ég man ekki eftir að ljóð hafi snert mig svona og hef ég þó lesið þau mörg. En þetta einstaka ástarljóð er ekki þekktara en svo að mér tókst hvorki að finna það á netinu eða á tímaritsvefnum.

[Innskot: Ragnhildur Blöndal, dóttir Lárusar, skrifaði mér: Reyndar var ljóðið fyrst flutt við útför pabba, Jón Nordal hafði skömmu áður samið lag við það og pabbi var svo ánægður svo við ákváðum að láta syngja það við jarðarför hans. Aftur á móti var sálmurinn Hver stýrir veröld styrkri hönd fyrst sunginn yfir Margréti og svo Bensa og Stínu.]

Ég þekkti höfundinn vel. Eins vel og hægt er að þekkja mann sem er hálfri öld eldri en maður sjálfur og óskyldur. Lárus Blöndal bókavörður var giftur Kristjönu Benediktsdóttur, Stellu móðursystur minni, í meira en tuttugu ár og átti með henni fimm börn. Þegar hún dó var elsta barnið tvítugt og það yngsta sex ára. Þetta gerðist áður en ég fæddist.

Ég heyrði oft að mömmu þótti vænt um Lárus mág sinn og hann var henni góður, sendi henni bækur sem hann skrifaði og hringdi stundum í bæði hana og pabba. Lárus var indæll maður, en hann hafði sinn djöful að draga. Frekar tvo en einn.

Hann var kommi, sem var ekki vel séð hjá flestum ættingjum mínum, sem voru fjarri þeirri pólitík. Sagan er flókin. Hann hafði á sínum tíma haft áhuga á að stofna hægri flokk með Bjarna Benediktssyni, meðan þeir voru báðir ungir menn. Ekkert varð af því og ég hef heyrt, en ekki fengið staðfest, að hann hafi orðið undir í kosningu innan Heimdallar og snúist þá á hinn veginn.

Svo var hann rekinn úr Kommúnistaflokknum á fjórða áratugnum þegar þar voru hreinsanir að sovéskri fyrirmynd. Ég held að hann hafi ekki látið það neitt á sig fá og verið sami komminn til dauðadags. En það er ekki skynsamlegt að reka fimm barna föður úr flokki. Ekkert barnanna varð kommi.

Hinn drýsillinn var miklu erfiðari. Lárusi þótti allt of gott í staupinu. Svo mjög að það spillti fyrir honum, bæði í einkalífi og starfi. Þá sögu ætla ég ekki að rekja, enda þekki ég minnst af henni, en minnist þó áttræðisafmælis hans sem börnin hans héldu fyrir hann. Lárus hafði kviðið því mikið og taldi rétt að draga úr kvíðanum með því að fá sér aðeins neðan í því nokkrum dögum áður. Skemmst er frá því að segja að í afmælinu var hann orðinn afar valtur og vissi held ég vart hverjir komu eða til hvers. Og þó. Þegar ég fór var Lárus í faðmlögum við gamlan vopnabróður sinn, Einar Olgeirsson. Einar mun hafa verið einu atkvæði frá því að hljóta sömu örlög og Lárus í hreinsununum miklu.

Tíu árum seinna bauð Lárus mér í níræðisafmælið sitt og þar var allt með kyrrum kjörum og fór vel fram. Mér skilst að eftir áttræðisafmælið hafi samverustundum hans með Bakkusi fækkað mikið. Ósköp þótti mér vænt um að fá að vera í þeim hópi sem þangað var boðið.

Lárus gat gantast með þennan fylgifisk sinn. Einu sinni hitti hann séra Árna Berg Sigurbjörnsson í sundi. Lárus var alla tíð reffilegur og prestur hefur orð á því hvað hann líti vel út. „Það er ekki skrítið“, sagði Lárus, „ég hef alltaf verið svo reglusamur. Ég hef aldrei reykt.“ Þetta fannst þeim fyndið þegar hann sagði þeim það, mágkonum hans, mömmu og Ólöfu systur hennar.

Mamma sagði mér að þegar Stella veiktist hefði Lárus algjörlega misst máttinn. Hann sat löngum stundum við sjúkrabeð hennar og gat ekki á heilum sér tekið. Það var á þessum stundum sem hann orti ljóðið fagra. „Í dags míns heimi varstu veröld mín, um veröldina sjálfa lítt ég hirti.“

Í duftsins smæð

Í duftsins smæð við beðinn þinn ég bíð,
að bærist til mín líf úr augum þínum.
Í fjarska niðar farin ævitíð
með fótatakið þitt á vegum mínum.

Ég veit, að líf mitt verður senn án þín,
og veit mín bíður, að í lofti syrti.
Í dags míns heimi varstu veröld mín,
um veröldina sjálfa lítt ég hirti.

Um sumardag í hreiðri fyrr ég hló,
en hreiðrið mitt er tómt og nálgast vetur,
ég hími einn í haustsins bleika skóg
með hrím á væng, sem aldrei flogið getur.

Hjörtur Halldórsson skrifaði í minningargrein um Kristjönu: „Fyrir tæpum tveim árum kenndi hún fyrst þess sjúkdóms sem dró hana að lokum til dauða. Skurðaðgerð kom ekki að haldi. Sjúkdómurinn tók sig upp aftur og síðast liðið ár mátti heita að hún væri sárþjáð hverja stund, þótt út yfir tæki síðustu mánuðina. En svo var hún æðrulaus, að lítt fannst á henni í tali allt til hins síðasta, og hlaut hún þó að hafa vitað fyrir löngu, að hverju fór. Var það í samræmi við hina styrku skapgerð hennar og þá stillingu sem hún sýndi hversdagslega í önnum og amstri daganna. En fyrir mann og börn, frændur og vini var það sárara og þyngra en orð fá lýst, að sjá þessa ungu og tápmiklu konu heyja hina þungu baráttu þar sem engin von var um sigur.“

Samkvæmt frásögn mömmu var Lárus magnvana mánuðum saman eftir að Stella lést. Þá giftist hann aftur, kannski öllum að óvörum, Margréti sem var ekkja eftir frænda hans og nafna. Margrét var indæl kona og kom sem kyrrlátur frelsandi engill inn í líf Lárusar.

Engum duldist harmur Lárusar og Guðni Jónsson vinur hans reyndi að hughreysta hann í minningargrein: „Stella mun lifa. Hún lifir í sál þinni og huga sem fögur endurminning. Hún lifir í börnunum ykkar, sem bera svip hennar og eðliseinkenni til komandi kynslóða. Og ef til vill lifir hún enn sjálfstæðu, persónulegu lífi og vakir sem fyrr yfir velferð ástvina sinna.“

Og Stella lifir líka í þessu fallega ljóði Lárusar, einlægri ástarjátningu og trega þess sem lýsir missinum sem hann á í vændum.

Kannski er þetta með sínum hætti fallegasta ljóð Íslandssögunnar. Það á sannarlega skilið eilíft líf.

2 comments

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.