Ódýrt flug er allra hagur

Við græðum öll á því að fólk vilji búa sem víðast á Íslandi. Vissulega eru margir kostir við að búa úti á landi þar sem frelsið er meira, náttúran nær og streitan minni en á Reykjavíkursvæðinu.

Höfuðborgin hefur samt líka upp á margt að bjóða sem eðli málsins samkvæmt er erfitt að veita alls staðar á landinu. Þar er boðið upp margvíslega menningu, mat og drykk, skemmtun sem bæði þeir sem búa í borginni og aðrir landsmenn hafa gaman að því að njóta öðru hvoru. Í Reykjavík er líka fjöldinn allur af sérfræðingum á ýmsum sviðum lækninga og heilsuverndar sem eiga erfitt með að veita liðsinni nema undir fjögur augu.

Góðir stjórnmálamenn reyna að skapa sem best skilyrði til atvinnurekstrar almennt og láta fólk svo ráða því sjálft hvað það starfar. Ef styrkja á fólk til þess að búa á ákveðnum stöðum, sem getur vel verið skynsamlegt, er heillavænlegast að styrkja innviði, ekki ákveðnar atvinnugreinar.

Meginatriði er að samgöngur og fjarskipti séu sem allra best alls staðar á landinu. Þess vegna leggjum við vegi, borum göng og leggjum ljósleiðara um land allt. Við styrkjum ferjur og sjúkraflug, sem og beint flug í nokkur fámenn byggðalög.  Vegna þess að flugfar er of dýrt, fljúga færri og farið verður enn dýrara en ella. Flugið ætti að vera hluti af almenningssamgöngum, en almenningur hikar við vegna verðsins.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að ríkið styðji þá sem búa fjarri höfuðborginni til þess að kaupa flugmiða. Fyrir kosningarnar 2016 sömdum við Hildur Betty Kristjánsdóttir, frambjóðendur Viðreisnar, þennan texta sem hún flutti á fundi á Egilsstöðum:

„Viðreisn telur að brýnt sé að auka lífsgæði þeirra sem búa á landsbyggðinni með því að lækka flugfargjöld þeirra sem þar búa. Við teljum eðlilegt að greiddir verði niður flugmiðar þeirra einstaklinga sem búa á landsbyggðinni, þannig að fargjaldið lækki um ákveðna prósentu hjá öllum.

Fyrirmynd er að finna í Skotlandi þar sem íbúar í byggðum fjarri höfuðborginni fá fargjöld lækkuð um helming. Það er áfram farþeganum í hag að velja ódýrasta fargjaldið og Samkeppniseftirlitið gæti til dæmis haft eftirlit með því að flugfargjöld hækki ekki við slíka aðgerð. Með þessu móti er stórt skref stigið til þess að jafna aðstöðu þeirra sem búa á landsbyggðinni við hina sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Jú við viljum að ákveðinn hluti aflaheimilda verði seldur á markaði og söluverðið sett í sjóð til þess að byggja upp innviði á því landssvæði sem aflaheimildirnar voru áður á.“

Með aukinni eftirspurn verður innanlandsflugið ódýrara, ekki bara fyrir landsbyggðarfólk heldur alla landsmenn, ferðum mun fjölga og flugið verður eftirsóknarverðari ferðamáti. Þannig græða allir.


Birtist í Morgunblaðinu 18.12.18

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.