Tíu bestu bítlalögin

Þá er komið að því. Tíu bestu bítlalögin.

Svo margt hefur verið sagt og skrifað um Bítlana að oft er erfitt að mynda sér sjálfstæða skoðun á hvaða lög eru best. John og Paul hafa blaðrað ósköpin öll um hin og þessi lög, George Martin líka, að ógleymdum hinum fjölmörgu spekingum sem láta ekki sitt eftir liggja (eins og ég núna). Ég reyndi að láta allt það sem ég hef lesið lítil áhrif hafa og setja bara fram það sem mér finnst.

En af því að ég hef gaman að tölum datt mér í hug að bera saman minn lista og úrvalið á Bítlaplötunum 1962-66 og 1967-70. Á fyrstu plötunni (nú disknum) var ég með tvö af 13 lögum. Tíu af þrettán á þeirri næstu. Sex af fjórtán á þeirri þriðju og sex af fjórtán á þeirri fjórðu. Sem sé: Ég valdi 24 lög af 54 sem valin voru á úrval af þeirra lögum meðan þeir voru allir á lífi og gátu haft áhrif á hvað færi á þessa safnplötu.

Þetta segir eitthvað um hve úrvalið er mikið og smekkurinn ólíkur. Ég sá einhvers staðar skrifað að af öllum bítlalögunum væri bara eitt lélegt, en ég man ekki hvað það var. Sé að Revolution #9 kemst á flesta lista yfir leiðinlegustu lögin.

Best að koma sér að efninu.

Because hefur mér alltaf fundist afar fallegt lag. Það var líka fallegt að heyra sönginn einan á Anthology 3. Bítlarnir voru einfaldlega snillingar á svo mörgum sviðum. Þeir gátu komið með skemmtilegar og frumlegar útsetningar sem lyftu lögunum, en svo gátu þeir líka komið með falleg lög þar sem þeir spiluðu bara á gítar – Because sem hefði örugglega líka sómt sér vel á plötu í söngútgáfunni og haft mikil áhrif.

Michelle er líka mjög fallegt og rómantískt lag sem mér skilst þeir hafi átt í handraðanum í mörg ár þangað til þeir sáu að það var vel nothæft. Ég held að ég hafi fyrst heyrt það almennilega í þætti sem Atli Heimir var með um tónlist af ýmsu tagi. Ég er ekki viss um að allir hafi áttað sig á því þá að viðeigandi væri að spila bítlalög í alvarlegum þætti um tónlist. Reyndar man ég að Stefán Þengill júdómeistari og söngkennari í Langholtsskóla talaði líka um bítlalögin þegar hann var að reyna að kenna okkur um takta. Hann sagði að öll bítlalög væru í sama takti, en það var reyndar alls ekki rétt.

Let it be er eins og ég hef sagt áður í flokki með Bridge over Troubled Water og Long an Winding Road hjá mér. Kannski vegna þess að þetta voru allt vangalög.

Eftir þrjú rómantísk lög er kominn tími á eitt töff. I am the Walrus er dæmi um lag sem er frábærlega útsett og enginn náð að gera það jafnflott. Samt fann ég rúmlega 40 útgáfur á netinu (en meira en 300 af Michelle). Magical Mystery Tour og Hvíta albúmið voru toppurinn á ferli Bítlanna, sem er vissulega toppur á hásléttu.

Næsta lag er eina lagið af fyrri hluta ferilsins sem náði inn á topp tíu hjá mér. Girl finnst mér frábært lag sem ég raula oft án þess að átta mig á hvaða lag ég er að syngja.

Þá kemur aftur töff lag. Come Together er eitt af óvenjulegu bítlalögunum, lag sem sker sig úr öðrum á Abbey Road plötunni. Ég veit ekki hvers vegna Lennon var alltaf að væla yfir því að hann hefði ekki komist neitt að á seinustu plötunum. Á þessari síðustu plötu sem þeir unnu saman á hann tvö af sínum bestu lögum, Because og Come Together.

The Fool on the Hill er annað nýstárlegt lag af MMT. Mér hefur alltaf þótt það seiðandi og hugljúft lag.

She‘s Leaving Home er líka afar fallegt lag sem er með margs konar innkomu og segir líka sögu frá fleiri en einu sjónarhorni. Afar snjallt lag sem mér þykir vænt um.

Julia er einfalt lag en óskaplega fallegt og einlægt. Oft er fegurðin í einfaldleikanum. Meðan Tryggvi Þorsteinsson læknir tjaslaði saman á mér handleggnum sönglaði ég Júlíu.

Toppurinn: A Day in the Life. Lagið er fallegt, vel unnið úr því, búturinn eftir Paul í miðju lagi passar vel og tengingarnar gerðar af miklu hugviti. Varla hægt að hugsa sér betur heppnað lag.

Ég hef heyrt að einhverjir eru ekki sáttir við mitt val, enda er það skiljanlegt ef menn hafa árum saman átt sér sín uppáhaldsbítlalög og komast svo að því að þau eru ekki meðal þeirra bestu. Það er engin ástæða til þess að örvænta yfir því. Bítlarnir gerðu einfaldlega svo mörg góð lög, að jafnvel mörg þeirra sem eru ekki jafngóð og þau bestu, eru miklu betri en það sem allir aðrir voru að gera. Það hafa komið komið fleiri góðar hljómsveitir, en jafnvel þær bestu komast ekki með tærnar undir hælana á bítlaskónum.

1 A Day in the Life 1967
2 Julia 1968
3 She’s Leaving Home 1967
4 The Fool on the Hill 1967
5 Come Together 1969
6 Girl 1965
7 I Am the Walrus 1967
8 Let It Be 1969
9 Michelle 1965
10 Because 1969

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.