Frelsisstríðum lýkur aldrei

Unnendur frjálsræðis glöddust þegar haft var eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra að hún fagnaði hamingjunni og frelsinu. Flokkur hennar hefur aldrei litið á sig sem fulltrúa frjálsræðis heldur þvert á móti forsjárhyggju á flestum sviðum. VG er til dæmis á móti fjölbreytilegu rekstrarformi í skólum og heilbrigðisþjónustu. Flokkurinn vill ekki að fólk fái sjálft að ráða því hver hugsar um heilbrigði þess eða menntun og leggur stein í götu vel menntaðra einstaklinga sem vilja opna hér læknastofur. Þá er ekki spurt um getu læknisins eða hag almennings heldur boðað að ríkið eitt skuli leysa allan mannanna vanda.

Nú leynist engum að forsætisráðherra er afar vel máli farinn og íhugull stjórnmálamaður. Því væri helst að vænta víðsýni úr þeim ranni VG og ekki útilokað að framsækinn pólitíkus af þessum armi stjórnmálanna gæti viljað söðla um, frá forsjá til frelsis. Því miður reyndist þetta tálsýn.

Að vísu boðaði ráðherrann að á Alþingi yrði lagt fram og samþykkt frumvarp um „framsækið lagaumhverfi“ vegna þess að Íslendingar hefðu „dregist aftur úr öðrum löndum í Evrópu hvað varðar lagaleg réttindi“. Illu heilli var ráðherrann þó ekki að boða víðtækt frelsi á öllum sviðum, þjóðfélag þar sem allir einstaklingar fengju að njóta sín án þess að ríkið reisti stöðugt hindranir gegn framtaki þeirra.

Ræðan var nefnilega ekki um frelsi og hamingju almennt heldur var aðeins rætt um að fólk skyldi hafa jöfn réttindi á öllum sviðum, óháð kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum og kyntjáningu. Auðvitað er frábært að berjast fyrir því sjálfsagða jafnrétti, en ræðan endurspeglar viðhorfið um að á sumum sviðum eigi jafnrétti og frelsi að ríkja, en annars staðar viti ríkið og VG hvað öllum er fyrir bestu.

Flokkurinn hefur aldrei viljað frelsi almennings til þess að borða það sem hann vill og svíkur jafnvel gefin loforð um aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Flokkurinn hefur aldrei stutt frelsi í sjávarútvegi heldur þvert á móti viljað sérmerkja „kvótapotta“ til valinna hópa. Nú síðast hefur flokkurinn forystu um að lækka gjöld á stórútgerðarmenn. Á leiðtogafund NATO, sem í nær sjötíu ár hefur verið brjóstvörn friðar í Evrópu, mættu tveir svarnir andstæðingar bandalagsins: Katrín Jakobsdóttir og Donald Trump.

Katrín veit samt vel hver er kjarni málsins, en sér hann bara þröngt:

„Það hefur líklega sjaldan verið mikilvægara en nú að standa fast í fætur og taka áfram þátt í að ryðja brautina. Réttindi hafa aldrei fengist án baráttu. Réttindi hafa aldrei fengist gefins. Og á síðustu misserum höfum við séð stjórnvöld í ýmsum ríkjum afnema réttindi sem lengi hefur verið barist fyrir.“

Mikið væri gaman að fá VG í lið með frelsinu almennt og setja svo á fulla ferð áfram.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.