Stundum er talað um að stjórnmálaflokkar séu í tilvistarkreppu, en það á ekki við um núverandi stjórnarflokka. Þvert á móti er meginmarkmið þeirra einmitt þetta: Að vera til. Lítið fer fyrir eiginlegum stefnumálum sem er auðvitað kostur fyrir slíka stjórn. Sá sem hefur enga stefnu getur farið hvert sem er.
Væntingar til ríkisstjórnarinnar voru aldrei miklar og hún er fyrst og fremst mynduð um að gera „það sem allir eru sammála um“ og vernda sérhagsmuni. Samt var forvitnilegt þegar forsætisráðherra skrifaði alllanga grein í Fréttablaðið fyrir nokkrum dögum. Þó að þar væri auðvitað eðlilegt sjálfshól stjórnmálamanns kom meginstefna ríkisstjórnarinnar glöggt í ljós.
Strax í upphafi stjórnarsamstarfsins gerðu flokkarnir sig seka um alvarlegan fingurbrjót. Í stjórnarsáttmála er talað um aðgerðir í tengslum við væntanlega kjarasamninga. Allir sem til samningatækni þekkja vita að svona yfirlýsingar eru lítils metnar. Verkalýðsforingjar eru líkir stjórnmálamönnum að því leyti að þeir vilja eigna sér sigrana. Réttir sem koma fullmatreiddir af borði stjórnmálamanna bragðast ekki eins vel og þeir sem allir elda saman. Þær bætur sem búið er að lofa verða hinn nýi grunnur sem bæta þarf ofan á.
Aftur gerði ríkisstjórnin sig seka um dómgreindarleysi þegar hún auglýsti að forystumenn hennar hefðu átt fund með forystumönnum flugfélaganna. Forsætisráðherra gaf í kjölfarið út yfirlýsingu sem ekki var hægt að misskilja: „Það er ekki ríkisábyrgð á flugfélögum hér á landi, svo að það sé sagt.“ Það sem þjóðin heyrði var: „Nú er íslenskt flugfélag á leiðinni á hausinn“, þó að það væri ekki sagt berum orðum.
Öllum geta orðið á klaufaleg ummæli í óundirbúnum viðtölum. Hið skrifaða orð vegur auðvitað þyngra, því að þá gefst tími til yfirlestrar og íhugunar. Því var fróðlegt að lesa grein forsætisráðherrans.
Skynsamleg ákvarðanataka er með þessu móti: Vandinn er greindur, fundið hvað er að, bent á lausnir og valin sú leið sem þykir best. Málflutningur VG í stjórnarandstöðu var aftur á móti yfirleitt á þessa leið: Hér er allt ómögulegt og það þarf að eyða meiri peningum. Sú stefna er óbreytt. Í grein forsætisráðherra kom fram að ákveðið hefði verið „að auka framlög til heilbrigðismála“, setja „innspýtingu í samgöngumálin“ og „aukin framlög til menntunar“.
Það segir sína sögu að stefnan hefur ekkert breyst þó að flokkurinn sé kominn í ríkisstjórn með Sjálfstæðismönnum. Nú er þar enginn Pétur Blöndal og enginn Vilhjálmur Bjarnason.
Vissulega er gaman að geta tekið undir með skáldinu: „Í dag er ég ríkur – í dag vil ég gefa. … Það er ókeypis allt …“. Sérstaklega er vinstri stjórnum ljúft að gefa fé almennings. Nýja peningastefnan blasir við: Eyðum sem allra mestu. Í einhvern fjárann.