Nýlega birti Verðlagsnefnd búvara úrskurð um að mjólkurvörur sem „sæta opinberri álagningu“ skuli hækka um 4,8%. Margir þurftu að láta segja sér það tvisvar að enn væri að störfum nefnd sem ákveður verð á mjólk. Það lá við að ég gripi gömlu innkaupatöskuna til þess að rölta út í mjólkurbúð til þess að kaupa nokkrar mjólkurhyrnur, áður en ég áttaði mig á því að það er ekki árið 1965 heldur 2018.
Á sínum tíma var nánast allt verð ákveðið af verðlagsnefndum og niðurstaðan samþykkt í ríkisstjórn. Líklega er sú ekki venjan lengur, en ríkisstjórnin hefur eflaust fagnað ákvörðun þessarar góðu nefndar. Varla hefur þó verið skálað í mjólk vegna úrskurðarins. Kampavín er drykkur ríkisstjórnarinnar.
Þegar búvörusamningarnir voru samþykktir á sínum tíma (með atkvæðum 19 þingmanna) með 15 milljarða árlegu fjárframlagi til landbúnaðarins var lofað að rýmkað yrði um tollkvóta á sama tíma, neytendum til heilla. Þetta var auðvitað svikið af stjórnarmeirihlutanum á Alþingi síðastliðið vor. Engan undrar að þessi stjórn skuli þannig snúast gegn lægra verðlagi og fjölbreyttara úrvali af matvöru. Með þessum flokkum saman gat útkoman ekki orðið önnur.
Líklega er búvörusamningurinn lélegasti samningur sem um getur. Nærri lætur að hann megi kenna við hamfarir af mannavöldum. Fyrsta gildisárið var ekki liðið þegar sauðfjárbændur þurftu að taka á sig rúmlega þriðjungs verðlækkun, vegna þess að samningarnir hvöttu til offramleiðslu. Ekki er hægt að hugsa sér verri samninga en þá sem draga úr vöruúrvali, hækka verð til neytenda, auka ríkisútgjöld og leiða til verri afkomu fyrir bændur, sem er ekki öfundsverðir af sínum launum, sem eru lægri en hjá flestum, ef ekki öllum, öðrum stéttum.
Stuðningur ríkisins við landbúnaðinn kemur aðallega fram með tvennum hætti: Bein útgjöld ríkisins vegna búvörusamnings og miklu hærra verð til neytenda en ella vegna tollverndar og innflutningshafta. Alls kostar stuðningurinn samfélagið nálægt 40 milljarða króna á ári. Það eru á milli 250 og 300 þúsund krónur á hvert heimili á ári.
Oft heyrist því fleygt að nauðsynlegt sé að styrkja landbúnaðinn vegna fæðuöryggissjónarmiða, ef innflutningur stöðvast til landsins. Þetta eru auðvitað falsrök, því að landbúnaðarvélar ganga fyrir erlendu eldsneyti og áburður og fóður er jafnmikið innflutt og aðrar erlendar vörur. Núverandi forsætisráðherra hefur líka haldið því fram að kolefnisspor innfluttra matvara séu sterk rök gegn innflutningi. Flokkur hennar hefur þó ekki enn beitt svipuðum rökum gegn útflutningi á sjávarafurðum.
Líklega munu systurflokkarnir þrír í ríkisstjórn sameinast um viðnám gegn hag neytenda á komandi vetri. Orðið frelsi er merkingarlaust í þessum flokkum. Nema auðvitað frelsi þeirra vildarvina.