Ef ríkisstjórnin væri gamanleikrit væri hún býsna fyndin. Sjálfstæðisflokkurinn kenndi sig á sínum tíma við frelsi og slagorðið Báknið burt. Nýtt fjárlagafrumvarpið boðar dæmalausa útgjaldaaukningu og ný bannár í uppsiglingu.
Meira að segja Sigmundur Davíð sér að Sjálfstæðisflokkurinn virðist nú vera kominn með kjörorðið Bætt í báknið. Sigmundur bætir við: „Þetta er sérstakt áhyggjuefni því það er ekki að sjá nein merki um að það eigi að verja þessum peningum á skynsamlegan hátt.“
Á meðan Sjálfstæðismenn bæta við báknið vilja aðrir ráðherrar stjórna athöfnum þegnanna í stóru sem smáu. Samgönguráðherra sneri sér að rútufyrirtækjum sem aka frá Reykjavík að Jökulsárlóni og til baka á sama degi. Formaður Framsóknar veit hvað er öðrum fyrir bestu og sagði í viðtali „út í hött að bjóða ferðamönnum upp á slíkar dagsferðir“.
Ekki nóg með það: „Þetta er bara bull, þetta þarf að koma í veg fyrir, þessu þurfum við að stýra með einhverjum hætti. Fólk verður bara að gista ef það ætlar svona langt. Bílstjórinn getur ekki verið að keyra fimm til sex hundruð kílómetra á þessum tíma og svo er þetta bara galin upplifun fyrir fólkið“. Það styttist greinilega í að kynnt verði nýtt rútubílafyrirtæki, Framsóknarferðir.
VG, sem lét það verða sitt fyrsta verk að falla frá tillögum fyrri ríkisstjórnar um hækkun á kolefnisgjöldum og dísilgjaldi, telur að betra sé að banna en að láta þá sem menga borga. Á kynningarfundi margra ráðherra voru kynntar tillögur um að „nýskráningar dísil- og bensínbíla verði óheimilar eftir árið 2030.“ En eins og svo oft er skilin eftir glufa fyrir vildarvini: „Bannið verður þó ekki afdráttarlaust því skoða á möguleikann á undanþágum í sérstökum tilfellum“. Það verður bara allt bannað sem ekki er sérstaklega leyft.
Stærsta hlutverkið í farsa ríkisstjórnarinnar leikur heilbrigðisráðherrann sem kemur í veg fyrir nýjar, einreknar læknastofur. Ráðherrann átti setningu mánaðarins um að það „hjálpaði ekki parkinsonssjúklingi á Þórshöfn ef opnuð yrði ein stofa taugalæknis í Reykjavík.“
Í Sjúkratryggingum Íslands starfar einn samviskusamasti embættismaður þjóðarinnar, Steingrímur Ari Arason. Gefum honum orðið um afstöðu ráðherrans: „Það er niðurstaða [Sjúkratrygginga] að það að synja mönnum um aðild að samningnum með þeim hætti sem gert er, standist ekki samninginn.“ Hann heldur áfram: „Það er alveg ljóst að við viljum … að það sé staðið við gerða samninga, annars er verið að grafa undan því fyrirkomulagi sem samningsgerð er og það að tryggja þjónustu sem þörf er fyrir með samningum.“
Steingrímur Ari lætur af störfum eftir nokkrar vikur. Fáránleikanum verður allt að vopni í þessum dapurlega raunveruleikaþætti. Og Sjálfstæðismenn láta sér vel líka.
Birtist í Morgunblaðinu 15.9.2018
Myndin er eftir Halldór Baldursson, snilldarteiknara Fréttablaðsins