Þeir sem segjast vera af ´68 kynslóðinni halda að þeir séu merkilegri en aðrir vegna þess að það gerðist svo margt merkilegt það ár. Ég er ekki af þessari kynslóð, en ég man vel árið 1968. Jafnvel hjá mér var það viðburðaríkt, þó að ég hafi bara verið strákur sem var að verða unglingur. Ég fylgdist vel með í heimsmálunum og pólitíkinni hér heima, las öll dagblöð sem ég kom höndum yfir og hlustaði á fréttir í útvarpinu. Sumt skildi ég ekki þá og sumt skil ég öðruvísi núna en þá. Margt skil ég ekki enn. En nú ætla ég sem sé að rifja upp þetta ár. Ef ég fer rangt með eitthvað er það minnið sem svíkur, því að ég ákvað að fletta nánast engu upp.
Áramótin man ég ekki sérstaklega, hvorki í upphafi né í lokin. Önnur hafa eflaust verið heima í Laugarásnum og hin hjá Ólöfu móðursystur minni í Sporðagrunni. Þær héldu upp á áramótin saman systurnar þangað til afkomendur og viðhengi voru farin að yfirfylla húsin. Það var ekki fyrr en tíu árum seinna. Tólf ára hef ég verið orðinn of gamall til þess að safna rakettuprikum. Samt gæti ég hafa gengið upp að brennunni í Holtinu og kíkt á hvort í henni kynnu að leynast einhverjar glæður enn. Á þessum árum söfnuðu strákar dóti í brennur, en okkur gekk illa að koma í veg fyrir að einhver kveikti í þeim daginn fyrir gamlárskvöld. Einu sinni voru fjórar brennur í Holtinu (þar sem nú er fjölmenn íbúðabyggð, en þá voru bara blokkirnar þrjár sem gnæfðu yfir umhverfið). Þessi áramót voru þær í mesta lagi tvær og við grunuðum alltaf strákana sem voru með hina brennuna um að kveikja í okkar, en af því að við vorum prúðir piltar kom auðvitað ekki til greina að svara í sömu mynt.
Hverfið okkar var eiginlega ferningur, vandlega afmarkaður af Dyngjuveginum að ofan og Laugarásveginum að neðan. Sunnan megin (eða er það austan) var göngustígur milli gatnanna tveggja sem endaði í tröppum efst. Hann er þar enn. Einu sinni reyndi ég að fara niður hann á hjólinu mínu, en sú ferð endaði með ósköpum, ég datt af hjólinu og fékk bæði blóðnasir og skrámur. Kannski var það sumarið 1968. Við hina hliðina var neðra Holtið, þar sem nú er Áskirkja, reist á gamla körfuboltavellinum okkar, sem stundum var líka fótboltavöllur. Þessi staðsetning hentaði illa í fótmennt því að ef boltinn fór út af rúllaði hann kannski alla leið niður á götu og þá varð langt hlé.
Á þessum reit held ég að hafi búið milli 50 og 70 krakkar í 18 húsum. Talan er ekki nákvæm því að sumir sem voru krakkar þegar þeir fluttu í hverfið voru orðnir fullorðnir árið 1968. Þorsteinn Einarsson íþróttafulltrúi og Ásdís Jesdóttir áttu tíu börn á fimmtán árum, en í mínum huga voru bara tvö þau yngstu krakkar. Líklega er skilgreining mín á krökkum í hverfinu þau sem eru fædd frá ’51 til ’63. En ég þekkti flest hinna líka í gegnum eldri systkini mín. Ég hef komið inn í öll húsin á „okkar“ reit. Það var sjálfsagt og ég þekkti líka flest fullorðna fólkið. Nú eru ekki mörg börn í mínu nágrenni sem hafa komið inn í húsið sem við búum í núna. En svona var þetta þá.
Fljótlega keypti ég Magical Mystery Tour bítlaplöturnar sem voru kannski það besta sem bítlarnir hafa gert. Mér finnst öll lögin á henni frábær. Fool on the Hill og I am the Walrus eru með þeirra bestu lögum.
Það var dapurlegt í þjóðlífinu þessi áramót. Síldin hafði tekið upp á því að synda burt frá landinu og ríkisstjórnin hafði orðið að fella gengið til þess að rétta af þjóðarskútuna. Dollarinn hækkaði úr 43 krónum í 57. Bjarni frændi minn var forsætisráðherra og hafði verið heldur dapur í áramótaávarpinu á gamlárskvöld. Lífið var síld á þessum árum og þess vegna skildi ég vel athugasemdina í skýrslu útlendra spekinga í fyrra þegar þeir sögðu: „Ferðamenn eru ekki síld.“
En frá degi til dags voru tólf ára krakkar ekki að velta fyrir sér stöðunni í efnahagsmálum. Í skólanum vorum við enn með einn umsjónarkennara. Okkar hét Þorvaldur Sæmundsson og var frægastur fyrir að vera bróðir Helga Sæm, sem var þekktur maður í þjóðfélaginu, líklega fyrir að vera Krati, blaðamaður og gott ef ekki hagyrðingur. Þorvaldur var fyrsti maður sem ég sá spenna greipar framan á maganum og láta þumlana snúast hvorn um hinn. Sumir kölluðu hann Býró, vegna þess að hann talaði um býrópenna en ekki sjálfblekunga. Hvort tveggja virðist vera útlenska í dag. Þorvaldur vissi margt, var duglegur að fræða okkur og kom skikk á bekkinn aftur, en á honum var los, eða að minnsta kosti nokkrum okkar. Hann varð aldrei vinur okkar eins og sumir aðrir kennarar, til dæmis Einar Ólafs leikfimikennari, sem var einn af feðrum körfuboltans á Íslandi.
Ég tefldi mikið á þessum árum. Fléttan, biblía sovéska skákmannsins, var uppáhaldsbókin mín. Fyrir nokkrum árum sá ég mér til angurs að Bobby Fischer hafði lítið álit á þessari bók. Líklega hef ég tekið rétta ákvörðun að hætta við að verða atvinnumaður í skák, sem ég gerði þegar ég sá að ég yrði líklega aldrei heimsmeistari. Um vorið ’68 lenti ég í öðru sæti í unglingameistaramóti Íslands og mátaði í fyrstu umferð Guðlaugu Þorsteinsdóttur, verðandi Íslandsmeistara í skák í sex leikjum. Hún var jafngömul leikjunum. Ég fékk far heim með Geir Hallgrímssyni borgarstjóra sem lék fyrsta leikinn í landsliðsflokki. Mín skák var svo stutt að hann var ekki farinn heim. Geir bjó í einu af húsunum 18 og ég þekkti hann auðvitað eins og flesta hina íbúana.
Þetta sama vor vann ég Leif Jósteinsson skákmeistara í fjöltefli. Hann entist einum leik lengur en Guðlaug eða í sjö leiki, féll í alþekkta gildru þar sem ég fórnaði drottningunni og mátaði hann svo.
Um sumarið var svo Fiske-skákmótið sem alltaf var borið fram með e-inu aftast, því annars hefðu menn haldið að þetta væri mót útgerðarmanna. Fiske hafði gefið bókasafnið Íþöku við Menntaskólann (en það heitir í höfuðið á heimabæ hans Ithacha í Bandaríkjunum), auk þess sem hann gaf Grímseyingum taflsett. Ekki tefldi ég þar, því þar voru bara stórmeistarar, en hreyfði menn á sýningarborði með priki. Þarna sá ég í fyrsta sinn í návígi hvað Friðrik Ólafsson var góður skákmaður, en hann lenti í þriðja sæti eftir að hafa í tímahraki tapað vænlegri skák við Rússann Vasjúkoff. Vasjúkoff og Taimanoff skiptu með sér efsta sætinu.
Þeir sögðu í viðtali fyrir mótið að Bobby Fischer væri alls ekki eins góður skákmaður og Rússar og Daninn Bent Larsen væri bæði betri skákmaður en Fischer og greindari og viðkunnanlegri maður. Þremur árum síðar vann Fischer Taimanoff í einvígi 6-0. Svo skemmtilega vildi til að Vasjúkoff var aðstoðarmaður Taimanoffs. Í kjölfarið vann Fischer svo Larsen líka 6-0. En þetta gerðist ekki fyrr en árið 1971 og er því útúrdúr. Ég man að Haraldur Blöndal frændi minn var blaðamaður Morgunblaðsins á þessu móti og mætti á hverju kvöldi. Þá var metnaður í blaðamennsku á Íslandi.
Bankaríkjamenn börðust af krafti í Víetnam og Lyndon B. Johnson forseti var nánast hrópaður af í óeirðum víða um landið. Ég man eftir því að hann kom til Íslands þegar hann var varaforseti og skömmu seinna var John F. Kennedy skotinn og Johnson varð forseti. Maður velti því fyrir sér hvort Johnson stæði ekki á bakvið morðið. Einhver vitleysingur gerði kvikmynd um þar sem gefið var í skyn (eða kannski sagt) að Nixon hefði lagt á ráðin um tilræðið. Johnson var að mörgu leyti merkilegur forseti og kom í gegn breytingum á almannatryggingum sem horfðu til heilla. En Víetnam-stríðið var hans pólitíski banabiti. Það varð líka til þess að strákur eins og ég sem hafði alltaf verið viss um að Bandaríkin hefðu alltaf rétt fyrir sér og Sovétríkin rangt fór að efast um það fyrrnefnda.
Róbert Kennedy auglýsti framboð sitt til forseta og þann 1. apríl var flutt frétt um það í Útvarpinu að Johnson ætlaði að draga sig í hlé. Sumir héldu að þetta væri aprílgabb, en löngu seinna komst ég að því að hann flutti ávarpið 31. mars í Bandaríkjunum.
Þá var spurningin: Hver verður næsti forseti Bandaríkjanna? Jeane Dixon, sem var árum saman spákona Morgunblaðsins og sagt var að hefði sagt fyrir um morðið á John Kennedy í Dallas árið 1963, kom með merkan spádóm. Næsti Bandaríkjaforseti myndi byrja á stafnum R. Frambjóðendurnir voru þá Rockefeller, Reagan, Romney, Richard Nixon og Robert Kennedy. Dixon var enginn smá spámaður.
Martin Luther King var þekktur á Íslandi eins og annars staðar fyrir baráttuna fyrir réttindum blökkumanna eða negra, eins og þeir voru kallaðir þá, án þess að í því fælust nokkrir fordómar. Þess vegna tók maður vel eftir því þegar hann var skotinn í byrjun apríl. Morðinginn fannst ekki fyrr en talsvert síðar, James Earl Ray, handtekinn af frægum breskum lögreglumanni. Svo eins og alltaf efast menn eftir á um að hlutirnir hafi verið svona en ekki öðru vísi. Samsæriskenningar koma ekki bara upp á Íslandi. Ég mundi að King hafði fengið friðarverðlaun Nóbels árið 1963 eða ´64.
Ég vel eftir því þegar mamma sagði mér að Róbert Kennedy hefði verið skotinn um leið og hún vakti mig. Mér brá við það, þó að ég sé ekki viss um að ég hafi verið sérstakur stuðningsmaður Kennedys. Morðingi hans var Shiran Shiran og er enn á lífi, eftir því sem ég best veit. Skaut hann vegna þess að Kennedy studdi Ísrael. Róbert Kennedy var svolítill flautaþyrill, var á sínum tíma aðstoðarmaður hins alræmda McCarthys sem stóð fyrir kommúnistaleitinni miklu í Bandaríkjunum, en Kennedy bræður voru síðar taldir frjálslyndir. Hans er núna ekki síst minnst fyrir að hafa sofið hjá Marilyn Monroe, þegar eldri bróðir hans mátti ekki vera að því. Gott ef ekki Jacky Kennedy líka, eftir að bróðir hans dó. Það er gaman þegar hægt er að hafa svona sameiginleg hobbý í fjölskyldunni. Annars held ég að Róbert hafi átt 11 börn með konunni sinni.
Um vorið hófust stúdentaóeirðir víða um Evrópu. Eftirstríðsárakynslóðin byggði sér götuvígi, efnt var til fjöldaverkfalla og verksmiðjur herteknar. Sérstaklega man ég eftir rauða Danna í Frakklandi og rauða Rudi í Þýskalandi, en þeir voru í forystu í sínum stúdentahópi hvor. Ekki man ég glöggt hvers þeir kröfðust, en hafa eflaust haft lítinn þokka á kapítalismanum og kröfðust kosninga. Áratugum seinna voru þeir báðir orðnir virðulegir þingmenn á Evrópuþinginu.
De Gaulle Frakklandsforseti kom þá með krók á móti bragði, rauf þing og boðaði til kosninga og fékk þrjá fjórðu hluta þingmanna. Svo runnu þessar óeirðir út í sandinn, en urðu samt kannski til þess að það var hlustað á stúdenta.
Svo var kosinn forseti á Íslandi. Ég studdi Gunnar Thoroddsen eins og pabbi og mamma. Pétur Benediktsson, móðurbróðir minn, lagðist á sveif með Kristjáni Eldjárn og það gerðu líka bræðurnir Benedikt og Haraldur Blöndal. Bjarni Ben. var stuðningsmaður Gunnars, en sagði svo ári síðar þegar við hittum hann í sumarbústaðnum á Þingvöllum að þjóðin hefði kosið rétt.
Mörgum fannst Gunnar gallaður að ýmsu leyti. Ég man að Árni Geirs, nágranni minn og vinur, hafði það fyrir satt að hætta hefði þurft við kosningafund Gunnars því að hann hefði verið svo fullur. Þetta var auðvitað lygi, en sýnir hvernig baráttan var. Á kjördag vann ég á kosningaskrifstofu Gunnars sem var í Lystadúnhúsinu við Elliðavog. Við stjórnuðum okkar kjördeild Bjössi Líndal nágranni minn og ég. Ég man að Gunnar kom á skrifstofuna og stoppaði á öllum borðum, sem námu tugum, nema hjá okkur drengjunum. Svona merkilegur maður þurfti ekki að tala við börn.
Gunnar tapaði svo, fékk um þriðjung atkvæða. Á kosninganóttina voru fyrstu tölur á þá lund að litlu munaði í Reykjavík, Kristján með 13 þúsund atkvæði en Gunnar með 11 þúsund. Þá hafði Páll Líndal, formaður kjörstjórnar, ákveðið að hagræða tölunum svo áfallið yrði ekki jafnmikið fyrir Gunnar. Páll bjó líka í hverfinu okkar, pabbi Bjössa. Þá voru engar skoðanakannanir fyrirfram og ég man að Gunnar sagði í fyrsta viðtali að þetta kæmi sér mjög á óvart. En flestir vissu nú samt að Kristján ynni.
Tómas bróðir minn og Fríða kærasta hans giftu sig 29. júní og Tómas sagðist ánægður með að ná því áður en Ásgeir Ásgeirsson léti af störfum. Ég man ekki hvort forseti þurfti að skrifa upp á hjúskaparvottorð þá, þau höfðu að minnsta kosti bæði aldur til að gifta sig svo ekki þurfti sérstakt leyfi. Í brúðkaupsveislunni töluðu Halli Blöndal, Jón Hjörleifur aðventistaprestur og Eiríkur Stefánsson kennari við Langholtsskólans, en Fríða var í miklu uppáhaldi hjá honum. Halli sagði að það væri svo undarlegt með unga menn, í ungum stúlkum þeir yrðu bálskotnir enn, en Jón Hjörleifur sagði að þó að það væri yfirleitt ekki sagt að karlmenn þykknuðu undir belti gerðist það samt í svona fínum veislum þar sem væri gnægð matar. Báðir sögðu þeir það sama í fimmtugsafmæli Tómasar, en Eiríkur sagði ekki neitt, enda var hann löngu látinn.
Sá atburður sem hafði mest áhrif á mig þetta sumar var innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu þann 21. ágúst. Vorið í Prag hafði vakið gleði allra, frjálslyndir foringjar höfðu náð yfirhöndinni í kommúnistaflokki landsins og leiddu í lög ýmsar umbætur, meðal annars mál- og ritfrelsi. Íslenskir sósíalistar töldu að nú væri loks kominn fram kommúnismi með mannlegu yfirbragði, en unnendur frelsis fögnuðu auðvitað umbótum. Morgunblaðið fór seint í prentun og náði að segja frá innrásinni um nóttina strax um morguninn, en Þjóðviljinn varð seinheppinn og sagði í margtilvitnaðri grein þennan sama dag: „Mikið mega Tékkóslóvakar fagna því að hafa engan „Sjálfstæðisflokk“ í landi sínu. Og ekkert Morgunblað.“ Á forsíðu Moggans var myndin sem fylgir greininni.
Alexander Dubcek, formaður kommúnistaflokks Tékkóslóvakíu, var handtekinn. Hann var reyndar ekki drepinn, en smám saman lækkaður í tign og endaði sem garðyrkjumaður, áður en hann varð svo forseti þingsins eftir fall kommúnismans. Dó þá í undarlegu bílslysi, en það er líka önnur saga.
Þennan dag voru haldnir tveir fundir til þess að mótmæla innrásinni. Klukkan fimm héldu Sjálfstæðismenn fund við Miðbæjarskólann. Ég man að þar talaði Ragnhildur Helgadóttir. Um kvöldið var svo haldinn fundur í Gamla bíói sem allir aðrir flokkar stóðu fyrir og þar mætti ég líka. Ekki man ég aðra ræðumenn en Guðmund G. Hagalín, en hann flutti hálfgerða vellu og ég man að mér datt í hug hvort hann væri aðeins í kippnum, þó að ég viti ekkert um það.
Á fundinum kallaði líka maður upp: „Svoboda!“ Menn létu sér ekki bregða við það og héldu fundahöldum áfram. Þá kallaði hann aftur „Svoboda“, en Svoboda var forseti Tékkóslóvakíu. Þá litu margir á manninn, en vissu ekki vel hvort hann væri truflaður á geði. Loks sagði hann í þriðja sinn: „Svoboda þýðir frelsi!“ Þar með var hans innslagi á fundinum lokið.
Eftir þennan fund var haldið að Tékkneska sendiráðinu við Sóleyjargötu og ég man að þar komu út menn sem mann fannst ósköp dauft yfir. Svo var haldið að Sovéska sendiráðinu við Garðastræti. Götunni hafði verið lokað með röð lögreglumanna sem kræktu saman örmum. Einhver fulltrúi fundarins fór þó í gegn, en kom að læstum dyrum. Fyrr um daginn höfðu einhverjir brotið rúður í sendiráðinu og einhver stóð fyrir utan með sviðahaus á stöng og viðhengt skilti sem á stóð: Bresneff. (Hann var formaður Sovéska kommúnistaflokksins). Þarna um kvöldið reyndi múgurinn að ráðast inn í götuna, sem ekkert gekk með fíleflda lögregluþjóna til varnar. Þá fann einhver hópur stóran trjádrumb, líklega fallinn símastaur, og réðst á lögreglusveitina með hann að vopni. Ég held að þeir hafi náð að mynda skarð í fylkinguna og örugglega slasað þann eða þá sem fyrir urðu.
Þetta voru fyrstu mótmælafundir sem ég mætti á. Þessi dagur markaði spor í mínum huga sem líklega eru þar enn í dag, hálfri öld síðar. Þá og ætíð síðan hef ég verið sannfærður um að ég ætti ekki heima í yfirgangsliði stórvelda.
Um haustið byrjaði ég svo í gagnfræðaskóla, fór í fyrsta bekk og við hættum að hafa einn kennara og fengum marga. Þeir voru flestir ágætir í okkar huga. Jenna Jensdóttir, landsfrægur barnabókahöfundur, var umsjónarkennarinn okkar og kenndi íslensku, Ragnheiður Finnsdóttir, sem einu sinni bjó í mínu hverfi, kenndi sögu og landafræði, Haukur Ágústson sem samdi Litlu ljót, frægt leikrit á þeim árum, kenndi okkur eðlisfræði. Pabbi var ekki hrifinn af öllum eðlisfræðikenningum Hauks, sem stundaði nám í guðfræði á þessum árum. Halldór Þórarinsson kenndi okkur stærðfræði. Hann seldi líka bækur frá Almenna bókafélaginu á kvöldin. Svo kenndu þeir líka bræðurnir Birgir og Reidar Albertssynir, sem ráku líka Guðmundarbúð á horni Langholtsvegs og Hólsvegs. Þetta var allt merkilegt fólk í huga þrettán ára krakka. Merkilegur var kannski Matthías Haraldsson, sem sá um skákkennslu og sérhæfði sig í kennslu fyrir tornæma. Hann varð seinna skólastjóri.
Um haustið var gengið fellt enn meira og dollarinn var kominn í 88 krónur. Síldin sást ekki aftur og ofan á þau áföll féll fiskverð, þannig að við Íslendingar áttum lítinn pening. Boðið var upp á viðræður um þjóðstjórn, en ekkert varð úr henni.
Heimsmálin héldu áfram sinn gang. Nixon var kosinn Bandaríkjaforseti, vann Hubert Humpfrey naumlega. Nixon var skrítinn fugl, eiginlega furðufugl, sem hraktist úr embætti sex árum síðar. Maður hugsar oft til hans núna, en munurinn er samt sá að Nixon var greindur maður, þrátt fyrir alla sína galla.
Allt árið höfðu staðið yfir friðarviðræður í Víetnam-stríðinu, en um jólin gerðu Bandaríkjamenn snarpa loftárás á Hanoi, eins og til þess að berja kommúnista til hlýðni. Þessi árás fór ekki vel í mig. Hvers vegna þurftu góðu gæjarnir að grípa til svona úrræða?
Svo endaði árið eins og það síðasta á ávarpi forsætisráðherra. Bjarni frændi var ósköp þreytulegur og las ræðuna af blaði, sem hann var ekki vanur að gera.
Í lokin var skotið upp flugeldum og kveikt í brennu. Árið var liðið og kom aldrei til baka. En samt hefur það lifað innra með mér í hálfa öld.