Krónan: Íslenska rúllettan

Fyrir hrunið haustið 2008 bárust fregnir af því að þessi eða hinn auðmaðurinn hefði „tekið stöðu gegn krónunni“. Á mannamáli þýðir þetta að þeir veðjuðu á að krónan myndi falla gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Þegar það gekk eftir stóðu þeir sem áttu gjaldeyri og ætluðu að nota hann á Íslandi betur en áður.

Sumir kenndu þetta við svindl. Þeir sem skiptu peningum í erlendan gjaldeyri hefðu orðið ríkari á viðskiptunum. Þessi fullyrðing er afstæð. Nær öll heimsbyggðin notar annan gjaldmiðil en krónuna. Urðu þá allir í útlöndum ríkari við gengisfellinguna? Svarið er auðvitað nei. Íslendingar sem áttu bara krónur eða eignir á Íslandi urðu aftur á móti fátækari í evrum þegar gengið féll. Þeir sem skulduðu lán í erlendri mynt á móti íslenskum eignum voru sérstaklega illa staddir, því að lánin hækkuðu mikið í íslenskum krónum talið.

Hagur þeirra sem ráku fyrirtæki sem borguðu laun í íslenskum krónum en seldu vöruna til útlanda vænkaðist aftur á móti mjög þegar gengið féll. Útgerðarmenn hafa margir grætt á tá og fingri undanfarin ár. Margar stórar útgerðir hafa endurnýjað skipastól sinn og sumar jafnvel getað borgað nýju skipin án þess að taka lán, svo góð er staðan orðin. (Vinstri græn telja að einmitt þá sé rétti tíminn til að lækka auðlindagjöld á stórútgerðir, en það er efni í annan pistil.)

Gengisfelling er tilfærsla á fjármunum frá almenningi til útflutningsfyrirtækja, eins konar öfugur Hrói höttur sem stelur frá þeim fátæku og færir þeim ríku. Þetta eiga stjórnmálamenn og fulltrúar atvinnurekenda við þegar þeir lofa og prísa sveigjanleika krónunnar. Sumir tala hátt um krónuna sem bjargvætt Íslendinga, en geyma sjálfir sína peninga í útlöndum. Tökum eftir því hvað þeir gera, ekki hvað þeir segja.

Ætla mætti að gengisstyrking væri himnasending fyrir almenning og hún er það til skemmri tíma litið. Erlendar vörur og utanlandsferðir verða ódýrari í krónum talið og lífið skemmtilegra. Fyrirtækin stynja aftur á móti ákaft því að tekjur af útflutningi minnka og samkeppni við innflutning harðnar meðan kostnaður vex. Galdurinn er að finna jafnvægi þarna á milli og halda því. Það mun aldrei takast með íslensku krónunni.

Hvað getur almenningur gert til þess að tryggja sig gegn þjófnaðinum næst þegar gengi krónunnar fellur? Því miður er það er bara eitt. Fyrir þá sem geta lagt eitthvað fyrir er skynsamlegt að færa hluta af sínum sparnaði í erlenda mynt. Eftir að síðasta ríkisstjórn losaði krónuna úr höftum mega allir kaupa gjaldeyri og stofna gjaldeyrisreikninga. Gengi krónunnar fellur fyrr eða síðar. Ríkisstjórnin hefur þegar misst verðbólguna fram yfir mörk Seðlabankans og lækkandi gengi er skrifað á vegginn. Munum að við tryggjum ekki eftirá.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.