Næstbestu bítlalögin

Hér er ég loksins kominn nálægt bestu bítlalögunum, þó að menn hafi réttilega bent á það að jafnvel í hratinu eru gullmolar. Bítlarnir voru svona góð hljómsveit. Þegar komið er í 35 bestu lögin verð ég að segja að nánast öll þessi lög tengjast einhverjum minningum og öllum góðum. Ekki veit ég hvers vegna, en ég man ekki eftir mörgum leiðinlegum minningum um tónlist. Helst er það þó þegar væmin eða leiðinleg lög eru ofspiluð. Um lög á það sjaldnast við að svo megi illu venjast að gott þyki.

Ég hef ekki fylgst vel með á Facebook að undanförnu þannig að ég veit ekki hve langt Guðmundur Andri er kominn í sínum bítlalista. Hann er auðvitað upptekinn við að rífast við Píu vinkonu sína um hvort Íslendingar eða Danir séu meiri rasistar.

Ef ég stikla á stóru þá er Hey Bulldog að sumu leyti ferskasta lagið. Það fór framhjá mér að mestu vegna þess að það var á Yellow Submarine plötunni og hún er eiginlega ekki venjuleg bítlaplata.  Helmingurinn af henni er bíómúsik eftir George Martin. En Hey Bulldog er fjörlegur rokkari.

Real Love er næstum því ekki Bítlalag, kom á Anthology 2 plötunni, gert eftir kassettuupptöku frá John og hinir spila svo með. Synd því að lagið er svo fallegt og rómantískt að það á skilið að vera ofar.

Magical Mystery Tour er fulltrúi fyrir nokkur lög: Sgt. Pepper‘s, Back in the USSR og sjálft sig. Hress opnunarlög á plötum. Glass Onion uppgötvaði ég ekki heldur vel fyrr en ég var búinn að hlusta á Hvíta Albúmið í mörg ár. Það er tvímælalaust sú plata/plötur sem er með flest góð lög. Hve vitlaus sem indverski jóginn kann að hafa verið, þá sömdu þeir félagar mörg góð lög á Indlandi.

Got to Get You into My Life valdi ég af því að það er öðru vísi en flest lögin sem á undan komu. Birthday er flott rokklag sem kemur mér alltaf í gott skap. Stundum spila ég það á afmælinu mínu.

I‘m so Tired er frábært lag og sýnir að Lennon gat samið lög þó að hann væri úrvinda. Raggi sjúkraþjálfari sagði mér reyndar að George Martin hefði sagt að Paul McCartney væri eini maðurinn sem hann væri til í að láta semja lög á tímakaupi. „En ég verð svo að fá að velja lögin sem eru notuð“, bætti hann við. Það hefur einmitt háð Paul eftir að hann hætti í Bítlunum að henda ekki úr mesta ruslinu.

Blue Jay Way er gerólíkt öllum öðrum lögum, samið af George þegar hann var að komast í stuð. Skemmtilegur hluti af MMT lögunum. Nowhere Man er svipað og I‘m so Tired, lag sem er samið þegar andinn er ekki yfir Lennon, en verður samt snilld.

Sexie Sadie finnst mér skemmtilegt og seiðandi lag. Ég kann söguna bakvið það, en nenni ekki að endurtaka hana hér. Lady Madonna er gott rokklag eftir Paul. Miklu betra en Hey Jude sem var samið á svipuðum tíma.

Blackbird er fallegt lag af Hvíta Albúminu og hefur orðið mörgum hugstætt. Blackbird er hvorki svartfugl né svartbakur heldur svartþröstur, sem gerir það aðeins erfiðara að þyða textann en ella.

Næst setti ég Long and Winding Road eiginlega bara vegna góðra minninga. Það var vinsælt á sama tíma og Bridge over Troubled Water með Simon og Garfunkel. Mér fannst það alltaf svolítil stæling á því og Lennon segir að svo sé. Þannig að ég var ekki alveg viss um að það ætti heima svona ofarlega, en lét tilfinningarnar ráða. Across the Universe er fallegt Lennon lag, líka af Let it be. Hann gat ekkert síður verið melló en Paul.

Being for the Benefit af Mister Kite er eiginlega ofar í vinsældum hjá mér en ég set það hér. Frá fyrstu spilun sumarið 1967 greip það mig og hefur haldið mér síðan. Það er eitthvað seiðandi við það, drungalegt og hressilegt um leið. Ég man vel eftir því þegar ég fór í Hljóðfærðaverslun Sigríðar í Moggahöllinni og keypti Sgt. Peppers. Við lögðum saman í púkk Guðrún systir og ég. Það var góð fjárfesting.

Einhver vælir eflaust yfir því að Twist and Shout sé ekki eftir Bítlana, en það er frábært bítlalag frá fyrstu árunum. Margur svitadropinn hefur fallið í dansi við það.

Help! er flott lag, þó að myndin sé ekkert sérstök. Ég hef ekki séð hana síðan í Tónabíói í gamla daga, en auðvitað fannst manni hún stórkostleg þá. Tíu-ellefu ára strákur gerir ekki miklar kröfur.

Dear Prudence er enn eitt fallega lagið sem varð til á Indlandi. Ég heyri að sumum finnst While my Guitar Gently Weeps svolítið þreytt, en mér hefur alltaf fundist það glæsilegt, ekki síst vegna grátandi gítars Claptons.

We can Work it out er ekemmtilegt lag með góðan boðskap sem við förum allt of sjaldan eftir: Life is very short and there’s no time for fussing and fighting my friend.

Hard Day‘s Night er miklu betri mynd en Help og lagið er líka flott. Ég hef séð hana nokkrum sinnum síðan og hún leynir sannarlega á sér.

Elinor Rigby kemst svona hátt vegna þess að það sönglaði inni í höfðinu á mér haustið 1973 þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda og hugsaði: Look at all these lonely people, þegar ég horfði yfir fólksmergðina á Strikinu.

Strawberry Fields er merkilegt lag og mikið í það lagt. Sumum finnst það besta bítlalagið, en þó að það sé í miklu uppáhaldi hjá mér eru samt önnur ofar.

Something er eflaust besta bítlalagið eftir George, eitt besta lagið á Abbey Road plötunni (þau eru samt tvö í topp tíu). Fallegt lag og það sama má segja um lagið sem er í ellefta sæti: Norwegian Woods fallegt lag með sérstæðum blæ. Hér er sem sagt listinn:

11 Norwegian Wood 1965
12 Something 1969
13 Strawberry Fields Forever 1966
14 Eleanor Rigby 1966
15 A Hard Day’s Night 1964
16 We Can Work It Out 1965
17 While My Guitar Gently Weeps 1968
18 Dear Prudence 1968
19 Help! 1965
20 Twist and Shout 1963
21 Being for the Benefit of Mr. Kite! 1967
22 Across the Universe 1968
23 The Long and Winding Road 1969
24 Blackbird 1968
25 Lady Madonna 1968
26 Sexy Sadie 1968
27 Nowhere Man 1965
28 Blue Jay Way 1967
29 I’m So Tired 1968
30 Birthday 1968
31 Got to Get You into My Life 1966
32 Glass Onion 1968
33 Magical Mystery Tour 1967
34 Real Love 1980
35 Hey Bulldog 1968

Myndin sem fylgir er af Þorgeiri heitnum Kjartanssyni vini mínum. Við ræddum oft bítlalögin og rifumst um hver þeirra væru best. Það var uppbyggilegt að rífast um það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.