Ég hef aldrei verið sammála sjálfum mér

Lýðskrum hefur verið hluti af pólitík frá upphafi. Það kemur frá hægri, vinstri eða miðju, en hefur sömu einkenni hvaðan sem það kemur. Aðferðirnar eru alltaf af sama meiði. Rennum yfir nokkrar þeirra til upprifjunar:

·       Lýðskrumarinn finnur sér óvin

·       Lýðskrumarinn vekur ótta

·       Lýðskrumarinn skeytir ekki um sannleikann

·       Lýðskrumarinn sakar andstæðinginn um drottinssvik

·       Lýðskrumarinn kann ekki að skammast sín, hann biðst aldrei afsökunar, en ræðst á þá sem eru honum ósammála

Sennilega hefur hættan af lýðskrumurum ekki verið meiri en núna allt frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Víða um lönd stinga þeir upp kollinum og vara við ímynduðum óvini. Oftast er hann útlendur, en minnihlutahópar innan landamæranna geta nýst í baráttunni. Óvinurinn getur líka verið stofnun eða samningur, helst eitthvað flókið sem almenningur þekkir ekki vel. Eða auðkýfingurinn George Soros sem samkvæmt samsæriskenningum hefur margt á samviskunni.

Sannleikurinn er óvinur lýðskrumarans, en hann nýtir sér samt staðreyndir. Ekki þessar venjulegu staðreyndir sem byggja á óyggjandi sönnunum, myndum, upptökum, prentuðum heimildum eða vísindalegum niðurstöðum fræðimanna. Þvert á móti býr hann sér til nýjar „staðreyndir“, hliðstæðan sannleika, gervivísindi. Margir vilja trúa því að veröldin hljóti að vera öðruvísi en hún er, sérstaklega ef hliðstæði veruleikinn hentar betur.

Lýðskrumarinn segist vera hugsjónamaður og fulltrúi æðri gilda. Hann kemur fram eins og hvítþeginn engill, en skeytir engu um reglurnar sem hann segist berjast fyrir. Hann fordæmir þá sem brjóta lög, þó að hann hiki ekki við að sveigja framhjá þeim sjálfur. Þegar hann er gripinn segir hann að sitt mál sé svo tæknilegt að heimskur fjölmiðlamaður geti alls ekki skilið það, hvað þá sauðsvartur almúginn.

Fyrir lýðskrumarann skiptir miklu að hæðast að þeim sem eru ósammála honum. Hann kemst á flug þegar hann ber sér á brjóst fyrir sín einstæðu afrek, þó að þau séu hvergi til nema í hans eigin hugskoti. Blaðamenn eru óvinir sem ber að gera lítið úr, en mikilvægt að geta vísað í sinn miðil, oft heimasvæði sem haldið er úti af almannatengli.

Skrumarinn sjálfur er aðalatriðið, hann safnar um sig jámönnum, málstaðurinn er sá sem best hentar hverju sinni. Þegar hann verður undir hefur augljóslega verið haft rangt við, en ef betur gengur er sigurinn sá glæsilegasti í sögunni.

Lýðskrumarinn telur engin gögn afsanna sína kenningu og segir óhikað: „Þetta hef ég aldrei sagt“, jafnvel þó að til sé myndskeið og upptaka þar sem sést nákvæmlega hvað hann sagði. Til þrautavara kveður hann ummæli sín slitin úr samhengi og segir keikur: „Ég mótmæli öllu sem ég hef áður sagt og held hinu gagnstæða fram.“


Birtist í Morgunblaðinu 20.11.2018

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.