Paul er ekki dauður enn

Paul McCartney var aldrei uppáhaldsbítillinn minn. Lennon var töffarinn sem samdi mörg kúl lög og hélt nokkurn veginn sínum standard eftir að Bítlarnir hættu. Harrison gaf út eina frábæra plötu og náði aldrei að gera neitt jafngott eftir það. Ringó er, tja Ringó. Svo kom auðvitað upp sá kvittur að Paul væri dauður. Því til sönnunar sögðu menn að Bítlarnir hefðu ekki gert neitt merkilegt eftir 1966.

Paul gaf út mjög mörg kúlútyggjólög og ég keypti enga plötu með honum fyrr en 1982, en hlustaði aðeins á Band on the Run. Lennon söng: „Those freaks were right when they said you were dead.“ Sólóferillinn hjá Paul olli mörgum bítlaaðdáendum vonbrigðum, en hann náði samt mörgum nýjum sem höfðu gaman af lyftutónlist.

Ég man ekki hvað 1982 platan heitir. Heldur ekki hin (hinar tvær?) sem kom út síðustu tíu árin. Nú um daginn kom út ein sem heitir Egypt Station (ég fletti henni upp). Hún var betri í annað skipti sem ég hlustaði á hana en fyrsta. Auðvitað er hann orðinn 76 ára, þannig að maður þarf ekki endilega að búast við Hamborgarfjöri frá honum. Það segir sína sögu að Hvíta platan sem var endurútgefin eftir 50 ár um daginn er í 11. sæti hjá Amazon og Egypt Station í 84. sæti.

Jæja, en til þess að gera langa sögu stuttu bar það einhvern veginn fyrir mín augu að Paul ætti að spila í Vínarborg í byrjun desember. Það tók vissulega sinn tíma, en ég ákvað loks að brjóta odd af oflæti mínu og skella mér þangað. Vigdís var vel til í það svo að ég fór á netið að leita að miðum. Þeir voru nægir, en þeir voru líka margir í Kraká, þannig að ég fylltist valkvíða í tvær vikur eða svo. Þá voru miðarnir í Vínarborg nánast búnir og sömuleiðis í Kraká, sagt frá tónleikum í Liverpool (hvern langar þangað?) og Kaupmannahöfn, sem væri auðvitað gaman að skreppa til fyrir jólin.

Sagan lengist, en niðurstaðan varð semsé sú að við hjónin brugðum undir okkur betri fætinum og sáum kappann í París. Þar tróð hann upp í Arena LaDéfense. París er hvorki jólaleg né hlýleg þessa dagana. Þegar við komum var nístandi kuldi sem fylgir haustþokum í evrópskum borgum en við þekkjum varla heima á Íslandi. Oft er talað um hve íslenskum stúdentum var kalt í Kaupmannahöfn og við upplifðum það um daginn.

Tónleikarnir byrjuðu klukkan átta eins og reiknað var með, þó að sölumennirnir hefðu reynt að hræða okkur með því að segja að þeir hæfust klukkan sjö. Kannski hafa þeir meint sjö að íslenskum tíma. Maður er auðvitað orðinn vanur því að þeir sem mæta á svona tónleika, sem eru einskonar minningartónleikar listamannanna um sjálfa sig, mæta margir býsna gráir og þunnhærðir. Kvöldið í kvöld var engin undantekning en ég held þó að meðalaldurinn hafi verið nálægt fimmtugu. Mér fannst svolítið fyndið að við fengum afhenta eyrnatappa áður en við fórum inn. Pabbi hefði skilið það vel að maður þyrfti vernd gegn bítlagarginu.

McCartney hefur vissulega sex ár um sjötugt frá því í sumar og röddin var sterkari þegar Bítlarnir voru upp á sitt besta. Miklu sterkari. En hann hefur afar gaman að því að koma fram, það leyndi sér ekki. Ég hef verið að skrifa um þá áráttu vinnuveitenda að senda fólk heim sjötugt eða yngra. Listamenn leika sér að því að skapa eitthvað sem við njótum miklu, miklu lengur.

Í Arena Le Defense var stuðið byrjað þegar við komum. Sem betur fer var ekkert upphitunarband, en spiluð lög af ferli stórstjörnunnar. Konan við hliðina á okkur var í mikilli sveiflu yfir einhverju Wings lagi af geisladiski!

Það byrjaði reyndar ekki björgulega hjá mér. Þegar þrjár mínútur voru í að tónleikarnir byrjuðu missti ég símann. Við vorum reyndar í fínum sætum, á fremsta bekk á svölum. Gallinn er sá að ef maður missir símann og hann er ekki undir sætinu er líklegt að hann hafi farið fram af brúninni.

Síminn minn var ekki undir sætinu.

Ég fór að skima framyfir handriðið, en sá lítið. Þá sá sessunautur minn, maður konunnar fjörugu, að síminn hafði lent á brík framan við handriðið. Sem betur fer tókst mér að koma höndinni á milli járnsins neðst og gólfsins. en þó að ég sé frekar úlnliðsgrannur festist höndin eins og í skrúfstykki. Eftir smá panik tókst mér að losa mig og þá bauðst hressa franska konan til þess að hjálpa. Við tók spennandi björgunarleiðangur, því ekki var hægt að sjá símann um leið og hún þreifaði eftir honum og brúnin ekki mjög breið. En á endanum bjargaðist síminn og urðu fagnaðarfundir hjá okkur.

Hálfri mínútu seinna gekk goðið á sviðið.

Kvöldið byrjaði á Hard days Night, sem var gott val. Gaf góðar vonir um stuð, vonir sem gengu eftir.

Það var enginn vafi á því að þetta voru tónleikar Pauls. Hljómsveitin sem var ágæt var hljómsveitin hans. Hann kynnti tónlistarmennina ekki einu sinni í lokin eins og yfirleitt er gert. Gítarleikarinn var flottur og trommarinn kraftmikill og stór maður sem stundum var við það að missa höfuðið. Svo voru blásarar og einn spilaði í hljómborð. Paul sjálfur spilaði á bassa, gítar, píanó og ukulele auk þess sem hann söng öll lög.

Paul sagði nokkrar setningar á frönsku sem hann las af miða. Mér fannst miklu auðveldara að skilja hann en Frakka og þeir virtust taka viljann fyrir verkið.

Framan af spilaði hann talsvert af Wings lögum, mörg róleg, en bætti svo smám saman í stuðið. Valdi reyndar ekki mörg af mínum uppáhaldsbítlalögum. Allt í allt tók hann 38 lög, 23 bítlalög, 14 með Wings og af sólóferlinum (þrjú af nýju plötunni) og eitt með The Quarry Men sem var forveri Bítlanna. Eitt lag, My Valentine, tileinkaði hann Nancy, konunni sinni, sem var í salnum. Hann mun hafa gifst henni eftir að stormasamt hjónaband við módel endaði. Dætrum hans leist ekkert á þá konu samkvæmt öruggum heimildum mínum.

Söngurinn gekk ágætlega þangað til röddin brast í Maybe I‘m Amazed. Þá hugsaði maður að nú væri þetta búið, sérstaklega eftir að hann kom varla upp orði eftir lagið. En karlinn lét sig hafa það og hélt ótrauður áfram. Fljótlega var hann kominn í eina franska lagið sitt, Michelle, sem fékk að sjálfsögðu góðar viðtökur. Hann átti líka í erfiðleikum með Blackbird, (sjá hér) en lét það ekki á sig fá. The show must go on.

Lady Madonna hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér, þannig að ég fagnaði því. Rokkuðu lögin gengu einna best, en reyna væntanlega á röddina.

Mér fannst skrítið þegar hann tók Something, lag Georges Harrisons, á ukulele og söng það svolítið hratt, en fór svo í rafmagnaða útgáfu. Hann minntist bæði á vini sína John og George, en nefndi ekki Ringo. Það er auðvitað ekki hægt að tala um alla á þriggja tíma tónleikum.

Being for the Benefit of Mr. Kite er eitt af mínum uppáhaldslögum og þeim tókst að ná effektum í þessu sérstæða Lennon-lagi. (Upptaka hér)

Back in the USSR var í miklu fjöri sem var svo róað niður með rómantísku Let it be. Í viðtali sem ég sá nýlega við Paul sagði hann frá því hvernig það væri þegar hann væri með gömlu slagarana. Þá væru allir með símana á lofti, en þegar hann kæmi með minna þekkt lög væri salurinn eins og svarthol. Þetta átti vel við á tónleikunum og í Let it be var salurinn nánast eins og lýsandi jólatré.

Í Live and let Die var mikið sjónarspil með flugeldum og ljóskösturum. Ég verð reyndar að segja að ljósastýring hefði mátt vera betri og sérstaklega hljóðstillingar. En þetta er auðvitað íþróttahús sem breytt er í hljómleikasal.

Svo endaði hann á Hey Jude, ofboðslega langri útgáfu þar sem salurinn söng Na, na, na, út í eitt með hendur út í loftið. Þrír lyftu meira að segja upp kveikjara, kannski fjórir. Það reykja margir Frakkar. Þegar Vigdís fór að sveifla höndum hallaði ég mér að franska sessunaut mínum til þess að enginn héldi að ég væri með henni, en ég held að enginn hafi tekið eftir þessu í myrkrinu þannig að mannorð mitt er enn í lagi (nú veit maður samt aldrei hvar myndavélar og segulbandstæki eru falin).

Eftir mikil fagnaðarlæti tók Paul svo bítlasyrpu: Birthday, Helter Skelter, Sgt. Peppers og þrjú lög af Abbey Road þannig að hann endaði á The End.

Svo það fari ekki milli mála þá voru þetta rosalega skemmtilegir tónleikar. Paul var í miklu stuði og auðvitað í aðalhlutverki. Hefði eflaust viljað halda áfram til miðnættis, en tónleikarnir hættu klukkan 11 eftir þrjá tíma. Hann er stundum svolítið hallærislegur, en ég fyrirgaf honum það alveg. Maður sem er 76 ára og þvælist heimshornanna milli með þriggja tíma tónleika og stórsveit er sannarlega ekki dauður úr öllum æðum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.