Margir undrast hve auðvelt sumt fólk virðist eiga með að segja ósatt. Algengt er reyndar að menn telji að í stjórnmálum sé það sjálfsagt að segja eitt í dag og annað á morgun. Bæði orð og loforð eru lítils virði. Einstaka menn hafa þann fágæta eiginleika að geta logið blákalt og ítrekað án þess að kippa sér upp við það, meðan á öðrum er hægt að sjá að þeim finnst óþægilegt að skrökva.
Fyrir átján árum birtist í Vísbendingu grein eftir Sigurð J. Grétarsson og Ástu Bjarnadóttur. Greinin hét: Hvers vegna brjóta menn af sér í starfi? Hún endar svona:
„Margir sem dæmdir hafa verið fyrir efnahagsbrot eða spillingu eru svo efnaðir að erfitt er að skýra hegðun þeirra nema sem einhvers konar fíkn. Menn geta sótt í þá áhættu sem fylgir misferli, eða notið þeirrar tilfinningar að þeir geti spilað með umhverfi sitt.
Loks þarf að minnast á þá sem á íslensku eru kallaðir geðvilltir eða siðblindir. Þá skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra og finnst sem þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hjá þeim sé starfsemi óvenjudauf á heilasvæðum sem móta tilfinningaleg viðbrögð, eins og kvíða, iðrun og réttlætiskennd.
Sjaldgæft er að þetta ástand sér greint hjá manni fyrr en eftir að hann hefur brotið ítrekað af sér. Reyndar er hugtakið siðblinda iðulega notað sem merkimiði á síbrotamenn, fremur en til forvarna. En næsta víst er að blygðunar og óttaleysi er ekki alltaf til trafala í viðskiptum og sumir álíta, án þess að það sé fræðilega staðfest, að siðblindir menn njóti oft velgengni.
Eðli málsins samkvæmt er erfitt að vara sig á slíkum mönnum, tunguliprum, óttalausum og blygðunarlausum, og því er sem stendur erfitt að veita önnur ráð en almenna varkárni til að verjast slíkum sendingum.
Þó gæti verið til leiðsagnar að það er ekki rétt, sem oft er haldið fram, að flestir efnahagsbrotamenn brjóti aðeins einu sinni af sér og því óvarlegt að treysta mjög á bót þeirra og betrun.“
Hér fjalla fræðimennirnir auðvitað bara um siðblindu í viðskiptum og vitanlega gilda allt önnur lögmál í stjórnmálum.
Þessi pistill birtist í Vísbendingu 10. 11. 2014