Bræður munu berjast: Átökin um sambandslögin

Sambandslögin árið 1918 voru samþykkt nær einróma í báðum deildum Alþingis eins og það starfaði þá, neðri og efri deild. Nær einróma, en tveir þingmenn börðust þó hatrammlega á móti. Annar þeirra var afi minn, Benedikt Sveinsson. Svo vill til að dagurinn í dag, 2. desember, er einmitt afmælisdagurinn hans. Umræður í þinginu urðu snarpar, en hann var einn á sínum málstað. Fann hann samningunum ýmislegt til foráttu og taldi ekki nægan árangur hafa náðst.

Aðallega tókst hann á við þrjá menn: Einar Arnórsson, fyrrum ráðherra, Jón Magnússon forsætisráðherra og Bjarna Jónsson frá Vogi. Litlir kærleikar voru á milli Jóns og Benedikts, en Bjarni frá Vogi og afi voru gamlir vopnabræður úr sjálfstæðisbaráttunni, báðir foringjar úr Sjálfstæðisflokknum gamla. Mörgum fannst sorglegt að þeir skyldu nú deila harkalega á ögurstundu og eflaust ekki síst þeim sjálfum.

Hvað var að samningnum?

Hér á eftir rek ég hluta af umræðunum sem voru langar og ítarlegar. Sagan leiddi í ljós að ótti Benedikts við samningana reyndist ástæðulaus, þó að auðvitað væri ekki hægt að vita það allt árið 1918.

Helstu mótbárur Benedikts voru:

  • 1. Danir höfðu rétt til að veiða í íslenskri landhelgi. Þar sagði hann meðal annars: „Þeir eru beint leystir frá því að auka nokkuð strandvarnirnar og þurfa ekkert að gjalda fyrir rétt sinn.“
  • „Að vísu eru Íslendingum heimilar fiskiveiðar í landhelgi Danmerkur, en eins og allir vita, er það fremur nokkurskonar skop en alvara. Það er rétt eins og tveir bændur semdu með sér, að hvor skyldi hafa rétt til veiða í landareign hins. Á annarri jörðinni eru 30—40 vinnumenn, og þar í landareigninni hornsílaleirtjörn, en hinn bóndinn er einyrki, en á ágætt veiðivatn í sinu landi. Allir sjá, hversu slíkur samningur væri hagfeldur einyrkjanum.“
  • 2. Lögjöfnunarnefnd sem átti að fara yfir um sérmál annars hvors ríkisins, sem einnig varða hitt ríkið og stöðu og réttindi þegna hins.
  • „Eins og allir hljóta að sjá eru Danir hér að tryggja sér, að Íslendingar gangi ekki á þennan afar ríka rétt, sem þeir hafa búið sér með samningnum. Nær þetta árvakra eftirlit nefndarinnar ekki einungis til sammálanna, heldur og sérmála Íslands, og sannast hér það, sera skáldið kvað, að
  • öll vor lifskjör, lítil eða stór,
  • þau liggja helkrept undir sömu klóna.
  • Tilætlunin er vitanlega sú með samræminu að Íslendingar sníði sín lög eftir dönskum.“
  • 3. Danir væru að hlunnfara Íslendinga í fjármálum. „Ég hefi lagt til, að upphæðin [sem Danir myndu greiða Íslendingum] sé 2½ miljón kr. Hefi ég þar ekki farið eftir fyllstu kröfum Jóns Sigurðssonar, heldur miðað við 60 þús. kr. tillagið sem vexti; eru það 4% af l½ miljón kr. Garðstyrkinn og hitt annað vil ég meta sem vexti af 1 miljón kr. Verða það þá 2½ miljón kr. Er hér mjög hóflega í sakirnar farið, og alls ekki miðað við verðfall peninga, sem þó hefði mátt koma til greina.“
  • Ég er ánægður bæði með núvirðinguna hjá afa og hinu að hann hefur áttað sig á því að verðtrygging gæti verið skynsamleg þegar peningarnir falla í verði.
  • Stofna átti sjóð til þess að „efla andlegt samband milli Danmerkur og Íslands, styðja íslenska vísindastarfsemi o. s. frv.“ Mjúk eru orðin og áferðargóð, en kemur hér ekki fram alveg sami andinn og sami tilgangurinn sem lýsir sér í orðum Nellemanns gamla, fyrrum Íslandsráðherra, er hann mælti fram með styrk til íslenskra manna úr dönskum menntasjóðum: De maa föle sig som Danske.“
  • 4. Of ströng skilyrði væru til þess að segja upp samningnum. „Að minnst 75% kjósenda sæki kjörfund, og að minnst 75% af þeim skuli vera með til þess, að þessi samningur öðlist gildi.“
  • Þessi ótti var ekki út í hött árið 1918 því að kjörsókn hafði þá aðeins tvisvar farið yfir 75% í Alþingiskosningum. Kosningaþátttaka var ekki nema 43% um sambandslögin þetta sama ár.
  • Þegar til kom árið 1944 komu 98,6% atkvæðisbærra Íslendinga á kjörstað og úrslit urðu þau að 99,5% þeirra sem mættu á kjörstað greiddu atkvæði með skilnaði frá Dönum!
  • 5. Gagnkvæm þegnréttindi Dana og Íslendinga. Benedikt óttaðist að Danir gætu í krafti stærðar náð hér undirtökum. „Það er því engin hætta á, að Íslendingar mælist einir við hér á landi um eða eftir árslok 1940. Þá verður orðið hér fullt af útlendingum í skjóli sambandslaganna.“ Þetta gerðist auðvitað ekki og alltaf verið miklu meiri straumur frá Íslandi til Danmerkur en öfugt.
  • 6. Aðstæður væru nú til að ná betri samningi. Um alla Evrópu blésu frelsisvindar og margar þjóðir fengu sjálfstæði einmitt um þessar mundir. „Nú er það orðin alheimsstefna, að hver þjóð fái að ráða sér sjálf, og þeim mun fremur á Ísland rétt á því að verða viðurkennt, þar sem það er gamalt menningarland með sérstöku þjóðerni. Og þótt þjóðirnar berist á banaspjót, þá eru þær þó sammála um þetta. Hver þjóðin af annarri fær nú frelsi sitt á ný. Það væri því beint brot á stefnu tímans, ef Íslendingar fengju ekki fullkomið vald yfir sinu landi nú, afarkostalaust. Þeir fá það, ef þeir hafa sjálfir dug og drengskap til að krefjast þess.“

Bent var á það í umræðum að Benedikt og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum hefðu áður verið til í að ganga skemur og hann svaraði því: „Kröfur þjóðarinnar hafa einnig skýrst og vaxið síðan 1908. öll aðstaða innanlands og gagnvart öðrum löndum hefir gerbreyst. Það, sem var við hlítandi þá, getur verið óhæfilegt nú.“

Benedikt notaði ýmsar líkingar í sínu máli, vitnaði bæði í Grýlu og Sturlungu: „Þetta er ein af þeim grýlum, sem afturhaldsmenn ota að fólkinu, til þess að skjóta því skelk í bringu.

Afturgengin grýla
gægist yfir mar;
ekki er hún börnunum
betri en hún var.

Það er annars um þennan sáttafund Íslendinga og Dana, eins og um fleiri slíka fundi, að sinn segir hvað af fundunum, þegar heira er komið. Mér dettur í hug sáttafundurinn, sem getið er um í Sturlungu, milli þeirra Sturlu Sighvatssonar og Þorleifs í Görðum. Urðu þeir sáttir á fundinum, en þegar heim kom, bar ekki sögum þeirra alveg saman, því að sinn sagði hvað. Hlaust af þessu enn verri fjandskapur en nokkru sinni áður og lauk með mannskæðum bardaga.“

Deilurnar við Bjarna frá Vogi

Bjarni Jónsson frá Vogi var eins og áður sagði nánasti samstarfsmaður Benedikts í allri sjálfstæðisbaráttunni og honum sárnaði greinilega hvernig staðan var orðin.

Bjarni frá Vogi
Bjarni frá Vogi

Hann sagði: „Ég hefi nú setið á meðan sætt var. Það er öllum kunnugt, að ég hefi unnið töluvert að þessum málum undanfarin ár í samvinnu við (B Sv.). En er hann nú stendur upp og segir, að ég hafi látið glepjast og gert mitt til að brjóta mínar fyrri kenningar og stefnur í málinu, þá er ég neyddur til að svara og fara um þetta verk mitt nokkrum orðum.“

„Þá er samningurinn. Hann er verslun, sem gerð er við Dani. Íslendingar þurftu ekki að biðja Dani réttinda. Vér höfum átt þau og eigum enn.“
„Hið eina er, að Danir og Íslendingar hafa jafnfrjálsa heimild til fiskiveiða hér, en það breytir þó engu um, því að ef þeir vilja senda skip sin í land og verka fiskinn hér, þá verða þeir að beygja sig undir löggjöf vora um atvinnurekstur, sem vér í Danmörku. Hér er því engu tapað. Það getur verið, að hér hafi skollið hurð nærri hælum, en fór þó svo, að ekki varð eftir nema kápan; Sæmundur komst út.“

Benedikt svaraði: „Þá kem ég að ræðu Bjarna frá Vogi, og er það óvanalegt, að ég þurfi að eiga í höggi við hann um þessi mál — Mér hafa aldrei þótt jafnveilar röksemdir hans sem nú í þessu máli.“ … „Hann kvað hér allt fengið, sem Íslendingar hafa krafist; jafnvel þeir, sem óskað hafa eftir skilnaði, mundu láta sér nægja „fullveldi“. En það er einmitt kjarni málsins, að „fullveldi“ er ekki nóg á pappírnum eingöngu.“

Benedikt vitnaði í samþykkt fundar Sjálfstæðisflokksins gamla sem bæði hann og Bjarni frá Vogi voru í: „Komi sendimaður frá konungi og hafi ótakmarkað umboð, þá er flokkurinn fús að semja við hann um hreint konungssamband milli Danmerkur og Íslands. Þetta er allt, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefir undirgengist að ganga til samninga við Dani um, og annað ekki.“

Nú kallast þeir á, Benedikt og Bjarni frá Vogi.

Benedikt: „Á þetta var lögð hin mesta áhersla, ekki síður af Bjarna Jónssyni en öðrum. En nú hefir hann horfið frá þessu. (Bjarni: Þetta er ekki haft rétt eftir mér). Ég hefi það skrifað hérna eftir fundarbókinni, og þingmaðurinn getur borið það saman. (Bjarni: Þetta er ekki rétt skilið). Skilyrðin eru svo ljós og skýr, að ekki verður villst á þeim.“

Svo eru sveðjurnar dregnar fram.

Benedikt: „Er mér það óskiljanlegt af öðrum eins þjóðskörung og Bjarna frá Vogi hefir verið, að hann skuli nú vera að tala um, að það þurfi að versla við Dani um ríkisréttindi vor. Nú eru þeir tímar liðnir, að ástæða væri til slíkrar verslunar. Virðist hann nú vera kominn á alt aðra sveif en áður og farinn að aðhyllast „opportunismann“ [tækifærismennskuna], sem dr. Valtýr Guðmundsson hefir verið að prédika um í Eimreiðinni, og þykir mér mjög leitt að vita minn gamla samherja (B.J.) kominn inn á þá braut. Kemur hann nú fram eins og gamall Valtýingur með aflóga kenningar.“

Valtýr var einn helsti andstæðingur Sjálfstæðismanna og afi gat ekki valið neinum verri orð en að hann væri Valýingur.

Bjarni var hófstilltari í orðum: „Annars þykir mér fyrir um deilur þessar. Fyrst og fremst þykir mér illt að deila við gamlan samverkamann minn og samherja, því að mér er óhætt að segja það, að á okkur hefir ýmislegt oltið, og að nokkru leyti er það okkur að þakka, hvert komið er framgangi málsins, að nú er það fengið, sem við höfum barist fyrir.

Draumsjónirnar eru að rætast, og nú gerist sá viðburður í sögu landsins 1. des. næstkomandi, að meiri er sigurinn en ég hafði nokkurn tíma gert mér vonir um, á svo skömmum tíma. Þykir mér nú leitt, að (B. Sv.) skuli ekki sjá þegar sigurinn er unninn, en gott þykir mér hitt, að við höfum sigrað.“

Bjarni bætir við: „Ég býst varla við, að ég hafi þolinmæði til þess að rekja öll þau orð, sem Benedikt hefir látið sér um munn fara um frv., enda er margt af þeim staðleysustafir. Það er ósköp hægt að setja út á þetta frv., því að við hefðum allir kosið að orða sumt öðruvísi, ef við hefðum átt einir öllu að ráða. En hér var um samninga að ræða.
Benedikt reyndi til að gera þetta frv. óvinsælt með því að vitna til þeirra orða minna, að þetta hefði verið verslun. En þetta hlýtur hann að hafa sagt i spaugi, því að allir samningar eru í raun og veru verslun. Það mun því vel geta verið, að ég sé ekki síður stórkaupmaður á réttindi landsins heldur en stórsali.“

„Benedikt talaði um skilnaðinn sem grýlu, sem afturhaldsmenn væru vanir að koma með. Ég er ekki hörundsár og læt mér liggja i léttu rúmi, hvað ég er kallaður. Þar sem okkar leiðir hafa nú skilist og hann fer um mig hrakyrðum, vil ég benda honum á, að ég var ekki vanur að sækja vit eða þor í hann eða aðra, sem nú hafa frá mínum málstað skilist.“

Í lokaorðum sagði Bjarni: „Nú hefir nokkur mótstaða orðið hér í þinginu, þar sem einn af merkustu mönnum þingsins hefir nú hafið herskjöld móti frv. og hvergi hlífst við. Árásir hans hafa þó orðið með þeim hætti, að hann hefir ekki getað fært nein skynsamleg rök fyrir því, að frv. bæri að hafna. Má því telja víst, af því að þingmaðurinn (B. Sv.) er skýr maður, að engin stórlýti séu á smíð okkar. Hefir því þessi prófsteinn einnig orðið til þess að festa mig í þeirri trú, að frv. sé til hinna mestu þjóðheilla. Get ég því lokið þessu máli með góðri samvisku.“

Rimmunni var þó ekki alveg lokið. Benedikt tók líkingu úr Gylfaginningu:

„Skal ég svo að lokum láta um mælt, að ekki veit ég nú þann mistiltein fyrir mold ofan, er hættulegur sé íslenskri þjóð, ef hann er ekki fólginn í þessum sambandslagasamningi.“

Bjarni gat ekki setið undir þessu: „En þar sem hann (B. Sv.) lauk máli sinu með því að segja, að ekki mundi til vera skaðlegri mistilteinn þjóðerni Íslendinga en þetta frv., ef það yrði samþykkt, þá tel ég það vera munu öfugmæli, því að ekki væri hægt að hnekkja Íslendingum með öðru meir en að fella þetta frv.

Það lítur því ekki öðruvísi út en að snöggleg blinda hafi gripið Benedikt og að einhver hafi rétt að honum þann mistiltein, er hann svo ætlar að skjóta að þeim Baldri, er hér er á ferðinni. En hann mun ekki hitta, því að ekki mun sá Loki, sem rétti að háttv. þm. (B. Sv.) þennan mistiltein, vera jafnhittinn og sá Loki, er löngu er liðinn. Munu það vera gæfumunurinn, að Íslendingar samþykki frv. þetta og Ísland hljóti blessun af.

Benedikt átti síðasta orðið: Samskonar fagurgala og háttv. þm. Dala. (B. J.) lét konungsfulltrúinn sér um munn fara á þjóðfundinum 1851.

Danir eru latir!

Einar Arnórsson vitnaði í danskan mann til þess að sanna að engin hætta væri af gagnkvæmum réttindum Dana og Íslendinga:

Einar Arnórsson

„Danskur maður, sem vel þekkir landa sina, sagði nýlega við mig: Við Danir erum fremur latir, okkur liður vel heima í landi okkar, og hræddur er ég um, að okkur mundi finnast veðurátt ykkar hörkuleg og land ykkar hrjóstugt, og hræddur er ég um, að ekki mundi auðvelt að fá marga af okkar mönnum til þess að taka fasta bólfestu í landi ykkar. Það eru allmörg ár síðan farið var að minnast á skilnað landanna hér í landi.

Sennilegt er, að engum hafi dottið í hug, að sá skilnaður mundi fram fara án þjóðaratkvæðis, hvorki Íslendingum né Dönum. En hvað hafa Danir gert til þess að reisa skorður við honum? Ekki hafa þeir streymt inn i landið á undanförnum árum, til þess að vera viðbúnir því, að greiða atkvæði gegn skilnaðinum.“

Benedikt svarar: „Þá streymdu ýmiskonar spámæli af vörum Einars Arnórssonar og meðal annars taldi hann Dani lata menn, sem ekki myndu hafa dug í sér til þess að flytjast út hingað. En þetta er ekki rétt, því að Danir eru viðurkenndir dugnaðarmenn og framgjarnir. En skiljanlega hafa dönsku nefndarmennirnir látið það í veðri vaka, er um þetta hefir verið rætt, að Danir væru værukærir og mundu ekki sækja Ísland heim til þess að nota sér landið. Þessi sama regla kemur fram í orðtækinu gamla: Snælega snuggir, kváðu Finnar, áttu andra fala. [Innskot mitt: Þetta hef ég ekki hugmynd um hvað þýðir.] En vera má, að þessir menn hafi haft stálhnefa í silkihanska, og að oss geti orðið að því.“

Forsætisráðherrann er ekki allur þar sem hann er séður

Sem fyrr segir var afa lítið um Jón Magnússon forsætisráðherra:

Benedikt:„Ég veit, að hann er ekki allur þar sem hann er séður, og kann ef til vill að haga sér samkvæmt hinum alkunnu orðum stjórnmálamannsins franska: „Málið er gefið mönnunum til að dylja hugsanir sinar, en ekki til þess að birta þær“. Það getur því vel verið, að hæstv. forsætisráðherra hafi þótt nóg um röksemdir í mínu máli, en hafi ekki verið við því búinn að svara og hnekkja þeim.“

Jón Magnússon

Benedikt mun hafa sagt eitthvað á þá leið að þetta væri svo auðskilið að allir ættu að ná því nema ef vera skyldi forsætisráðherrann, sem þótti reyndar lítill skörungur.

Jón Magnússon svaraði: „Benedikt Sveinsson beindi nokkrum orðum til mín persónulega. Hann talaði um, að ég mundi ekki allur þar, sem ég væri séður. Því miður er þetta oflof um mig, því að last skoða ég það ekki. Benedikt sagði eitthvað á þá leið, að ef sér veittist nægur tími, myndi hann geta talað þingmenn svo sundur og saman, að þeir féllu allir frá frv., allir nema ég. Það tel ég ekki heldur last, þótt Benedikt treysti mér til að standa við skoðun mína öllum öðrum fremur; hitt er, að þar kennir aftur fremur oflofs.

Hitt var leitt, að (B. Sv.) varð eigi fyrir því að flytja fánamálið, því að hver má vita, nema Danir hefðu heykst fyrir hans mikilúðuga svip og sterka róm. Annars er það náttúrlega illt, að ég er ekki svo gerður, en þau ámæli verð ég að þola.“

Smáspeki frá Gísla Sveinssyni

Gísli Sveinsson var einn fárra þingmanna utan við þá sem að framan eru nefndir sem tók til máls. Hann sagði meðal annars: „Mér vitanlega er Benedikt einn um þessa skoðun í neðri deild, og í efri deild er aðeins einn, Magnús Torfason þingmaður Ísfirðinga, á sömu skoðun og hann, eða réttara sagt, Benedikt er á sömu skoðun og Magnús. (B. Sv.: Eða i þriðja lagi: Þeir eru á sömu skoðun). Já, svo mun vera!“

Gísli Sveinsson

Niðurlag

Hér að framan hef ég einfaldað mikið umræðurnar og sett inn nöfn þingmanna þar sem við á en tekið út ávarpið háttvirtur þingmaður, sem auðvitað var notað.

Málfar var skáldlegt á Alþingistíðindum: „Umræðu var því næst frestað um stund, og var þá sem næst miðmunda.“ Orðabók segir að miðmundi sé tíminn mitt á milli hádegis og nóns eða 13.30.

Það vakti athygli mína að fyrri hluti einnar ræðu Bjarna frá Vogi hefur týnst, líklega þegar hann eða annar var að lesa próförk.

Forseti sameinaðs þings var hátíðlegur að leiðarlokum: „Þessu stórmáli er þá lokið, og verður frv. nú afgreitt til stjórnarinnar sem lög frá Alþingi, quid felix faustumque sit!“ [Lat: Sem vonandi verður til heilla og hamingju].

Reynslan sýndi að fullveldissamningurinn varð Íslendingum til heilla. Þeir hættu að kýta um sjálfstæðismál og stjórnmálaumræður urðu líkari því sem tíðkast enn þann dag í dag. Mér sýnist á umræðunum að afi hafi á þessum tíma verið einn þeirra sem átti erfitt með að ganga frá samningum af ótta við að semja af sér.

Í einu reyndist hann sannspár: „Danir segja við oss Íslendinga: „Við förum með utanríkismál ykkar þegar enginn vandi er á ferðum, en þegar vanda ber að höndum, verðið þið að eiga ykkur“. Þetta var einmitt það sem gerðist þegar Danmörk var hertekin í apríl 1940.

Hann sagði undir lok síðustu ræðu sinnar: „Ef reynslan sýnir, að ég hefi litið rétt á, þá er það ekki mín sök, þótt ég hafi ekki reynst fær um að snúa þinginu til rétts vegar — að fella frumvarpið.“

En reynslan sannaði ekki hans mál og Íslendingar náðu fullum aðskilnaði frá Dönum rúmum aldarfjórðungi seinna. Mesta gagnið af mótstöðu Benedikts og Magnúsar var að farið var nákvæmlega yfir atriði samningsins við Dani, miklu betur en verið hefði ef ekki hefði komið til þessara snörpu umræðna.

Í raun var samningurinn ekki hamlandi fyrir Íslendinga. Kannski var það versta við hann að Íslendingar gátu slitið samkomulagi sínu við Dani um myntsláttu, sem þeir gerðu fljótlega með slæmum afleiðingum fyrir þjóðina.

Þeir Bjarni frá Vogi sættust síðar, þó að illa hefði kastast í kekki. Bjarni lést árið 1926. Benedikt flutti eina af hátíðarræðunum á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar Ísland sleit sambandinu við Dani að fullu.

Benedikt Sveinsson á Þingvöllum 1945

Guðmundur G. Hagalín rithöfundur lýsir stemningunni á Alþingi meðan á umræðum stóð:

„Þeir, sem voru á þingpöllum, þegar Benedikt Sveinsson flutti þessa ræðu, munu vart gleyma látbragði hans, svip hans og rödd. Þarna stóð hann teinréttur, svipurinn þungur, festulegur og hreinn, röddin hreimmikil, heit og svo sem lítið eitt sár. Einn stóð hann að þessu sinni – og nú sem andstæðingur þess manns, sem lengst hafði sótt fram við hlið hans á vettvangi baráttunnar fyrir réttindum Íslands. Það mun ekki hafa verið honum sársaukalaust. En hann dirfðist ekki að eiga neitt á hættu, þar sem um var að tefla sjálfstæði Íslendinga.“

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.