Í fróðlegri bók Gunnars F. Guðmundssonar um Nonna er sagt frá því hvernig söguhetja skrifar um Ísland eins og nútíma ferðasali:
„Það er enginn vafi á því að Ísland er eitt af fegurstu og skemmtilegustu ferðamannalöndum í heimi. Loftslagið er, að minnsta kosti á sumrin, framúrskarandi gott. Hvergi í Evrópu er loftið eins hreint, heilnæmt og ferskt og á Íslandi, enda hafa læknar skrifað sérstakar ritgerðir um ágæti loftslagsins þar.
Og náttúrufegurð landsins er svo frábær að mikilleik og fjölbreytni að vart verður með orðum lýst. Að minnsta kosti verð ég aldrei leiður á að ríða íslenskum hestum um hin hrikalegu héruð landsins. Og svo er enn eitt. Gestrisni fólksins! Hvergi í heiminum hef ég mætt annarri eins gestrisni og á Íslandi.“
Manni, litli bróðirinn, hafði allt aðrar hugmyndir um landið og sá þjóðina ekki í hillingum. Textinn hér á eftir er úr bréfi og færður í átt að nútíma málfari og ritreglum:
„Máske að ég muni einhverntíma fara til okkar gamla Íslands og reyna að reisa þar hug og dug manna og fá þar mótspyrnu af alls konar kringumstæðum. Þar helsta sem ég vildi gera fyrir Íslendinga er að koma þeim meira inn í nútímann. Þeir eru eins og hálfvilltir menn að skoðun annarra þjóða, því þeir gera ekkert til að efla hagi sína og hugsa ekki um annað en hina fornu dýrð Íslands og eru stoltir af hinu forna, en gera svo ekkert fyrir núverandi ástand. Það er ekki nóg. Ferðamenn sem fara til Íslands héðan úr löndum og ég hef oft heyrt og lesið af þessum ferðum segja:
Íslendingar! Það er þjóð frá elleftu öld, þeir þekkja ekki til framfara þjóðanna, vísindanna og verka. Þeir elska afar mikið föðurland sitt og eru mjög stoltir af sögum hins forna Íslands; þeir hafa rétt fyrir sér um það, en það er nú samt ekki nóg. Af öllu þessu koma öll þeirra bágindi, hungursneyðir og þessi kúldun allrar þjóðarinnar. Ef þessi litla þjóð (Danir) léti Íslendinga starfa sjálfa í nokkra mánuði myndu þeir deyja úr hungri. Það er mjög leiðinlegt fyrir okkur að heyra þetta allt.
Elsku móðir, þess vegna vildi ég gera allt sem mögulegt væri að gefa þeim anda og líf.“
Birtist fyrst í Vísbendingu 7.1 2014.