Sama daginn og K-6 hópurinn hittist yfir glasi birtist grein eftir mig: Ég hef aldrei verið sammála sjálfum mér. Einn kunningi minn spurði mig: Hvernig er hægt að vera ósammála sjálfum sér? Atburðir undanfarinna daga skýra það vel.
Í greininni segir meðal annars:
„Lýðskrumarinn telur engin gögn afsanna sína kenningu og segir óhikað: „Þetta hef ég aldrei sagt“, jafnvel þó að til sé myndskeið og upptaka þar sem sést nákvæmlega hvað hann sagði.“
Mér fannst viðtalið í kvöld við hinn góða foringja K-6 hópsins áhugavert. Hann er spurður um selahljóðið eftir að einhver í hópnum uppnefnir Freyju Haraldsdóttur og kallar hana Freyju Eyju.
Sigmundur finnur nýjar og nýjar skýringar. Hann útskýrði í samtali við Freyju Haraldsdóttur að selahljóðin hefðu líkega verið stóll að hreyfast og að uppnefnið Freyja Eyja hefði orðið til þegar fjarlægja þurfti vegg (sem hann kallaði eyju) af skrifstofu Miðflokksins vegna aðgengis.
Blaðamaður: Þetta er til á upptöku, Sigmundur?
SDG: „Nei.“
Blaðamaður: Samtalið er til. Þið segið að það hafi verið að draga einhverja stóla til. Það er búið að sannreyna það, það var ekki svo?
SDG: „Er búið að sannreyna það, já. Hvernig þá?“
Blaðamaður: Það var gert í dag af blaðamönnum.
SDG: „Ég er ekki að segja að þetta hafi verið stólar dregnir til en þetta voru einhver umhverfishljóð sem menn taka eftir ef þeir hlýða á samtalið.
Hann finnur auðvitað nýja skýringu: „Þetta gat verið reiðhjól að bremsa fyrir utan gluggann en þetta fipaði í engu umræðuna og breytti henni í engu. Allt sem var þarna sagt á sér skýringar en enginn þeirra snýr að því að menn hafi verið að gera grín að fötlun Freyju.“
Nú verður maður að taka undir með Bastían bæjarfógeta í Kardimommubænum þegar einn ræningjanna sagði að pulsan hefði dottið óvart ofan í vasa hans: „Þetta er ekki ósennilegt.“
Greinin sem var skrifuð áður en K-6 hópurinn gerði sér glaðan dag endaði svona:
„Til þrautavara kveður hann ummæli sín slitin úr samhengi og segir keikur: ´Ég mótmæli öllu sem ég hef áður sagt og held hinu gagnstæða fram‘.“