Flestir kannast við það að þegar einhver varpar fram hugmynd um eitthvað nýtt kemur annar og finnur henni allt til foráttu. Þá skiptir ekki öllu hvers eðlis hugmyndin er; ef hún er ný hlýtur hún að vera slæm. Vegna þess að nýjungar eru hreyfiafl framfara er mikilvægt að átta sig á því hvernig þessi tækni slævir markvisst alla sem hafa áhuga á því að gera eitthvað nýtt. Samtök sem ekki leyfa hugarflug og frumkvæði eldast hratt og úreldast enn hraðar.
Fúll á móti tekur völdin
Þeir sem hafa verið á fundum kannast margir við þann sem drepur hugmynd á augabragði, oft án þess að neinn átti sig á því hvað er um að vera nema tillöguflytjandinn og tillöguböðullinn. Í öllum góðum rekstri hvetja framkvæmdastjórar í orði til frumkvæðis, en þegar undirtektir eru engar gefst fólk upp á því að stinga upp á nýjungum. Stundum er annarri aðferð beitt, þ.e. tillagan er samþykkt, en ekkert gert með hana.
Þegar hugmyndir koma fram á fundum er auðvitað eðlilegt að þær komi til atkvæða. Stundum telja fulltrúar gamla tímans nauðsynlegt að taka ekki þá áhættu að tillagan gæti verið samþykkt. Þá er auðvitað hægt að beita ýmiss konar fundarsköpum til þess að fresta atkvæðagreiðslu, tefja málið og rugla andstæðinginn í ríminu. Samt er miklu markvissari leið að drepa tillöguna strax, áður en til slíks kemur.
Einfaldar leiðir
Ein leið til þess að kæfa hugmynd í fæðingu er að láta eins og hún hafi ekki komið fram. Halda áfram spjallinu og láta eins og ekkert hafi verið sagt. Oft dugir þetta, ef enginn tekur undir uppástunguna.
Algengast er að gagnrýna hugmyndina, sem þarf ekki að vera slæmt. Samt er mikilvægt, að fyrst komi fram kostirnir áður en frumleg hugsun er rökkuð niður. Ef jákvæðu hliðarnar eru aldrei sýndar er hætt við að frumkvæði koðni niður.
Hægt er að ráðast á hugsuðinn og sýna að hann setji hugmyndina fram með eigin hagsmuni eða einhverra nátengdra í huga. Svo er gott að gera grín að þeim sem kemur með tillöguna, gretta sig og ranghvolfa augum, meðan hugmyndasmiðurinn heldur sína ræðu. Hinir taka varla undir hugmynd sem er hlægileg.
Smjörklípan er vinsæl leið. Þá er talinu beint að einhverju aukaatriði, sem þarf ekki einu sinni að tengjast málinu sjálfu. Smjörklípan fær alla athyglina og upprunalega tillagan gleymist.
Kurteislegra er að hrósa tillögunni, en með þeim hætti að allir skilji að ekki búi mikið að baki hrósinu. Segja: Þetta er skörp hugmynd frá þér, þannig að allir átta sig á að ekki var búist við miklum afrekum úr þessari átt.
Fyrir lengra komna
Oft er langbest að mótmæla alls ekki þegar hugmyndin lítur dagsins ljós heldur þvert á móti láta eins og þetta sé hin merkasta nýjung sem rétt sé að skrifa um skýrslu. Þar verði kostir og gallar greindir. Skýrsluna er hægt að eyða mjög löngum tíma í að skrifa.
Önnur leið sem sýnir þeim sem ber tillöguna fram virðingu er að skipa nefnd um hugmyndina. Nefndir eru yfirleitt besta leiðin til þess að tryggja að ekkert verði gert, sérstaklega ef þær eru fjölmennar.
Hinn gamalkunni frasi: „Við reyndum þetta einu sinni“ er yfirleitt eins og forspil að jarðarfararsálmi. Það er augljóst að hugmyndin er ekki einu sinni ný og það liggur í loftinu að ekki hafi gengið vel í fyrsta sinn.
Auðvitað er hægt að setja fram aðra hugmynd á móti, til þess að sýna að sú fyrri sé alls ekki sú eina sem til greina komi. Í þrefinu sem upp kemur deyr hin upprunalega uppástunga drottni sínum. Ein allra snjallasta leið til þess að snúa tillögu við, en jafnframt koma þeim sem hana setti fram á sitt band, er að hrósa henni í hástert og endursegja hana svo.
Í endursögn er það sem áður var sagt útþynnt og bætt í staðinn því sem andmælandinn vill. Sá sem fyrst talaði verður svo glaður að hafa verið lofaður að hann tekur ekkert eftir því að hugmyndinni hefur ekki bara verið stolið heldur líka skipt út. Þessi leið var oft notuð af bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Norðfirði sem stóð einn á móti meirihluta kommúnista (á Norðfirði mátti kalla þá komma).
Eftirskrift
Auðvitað kemur fyrir að sett er fram tillaga sem erfitt er að vera á móti, hversu óljúft sem það kann að vera að samsinna henni. Meðan Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði Reykjavík í gamla daga var notuð sú aðferð að fella allar tillögur minnihlutans, en endurvinna þær sem nothæfar voru. Þær voru svo fluttar og samþykktar í nafni meirihlutans eins og þær hefðu aldrei komið fram áður.
Góðir dauðadómar
Þetta virkar aldrei
Við höfum ekki efni á þessu
Við höfum aldrei gert þetta svona áður
Við erum ekki tilbúin í þetta
Þetta er ekki á okkar ábyrgð
Okkur gengur vel án þess
Við reyndum þetta einu sinni
Birtist í Vísbendingu 4. mars 2013.