Í dag, 7. október, eru 135 ár frá því að Steinunn amma mín fæddist.
Mér þótti ósköp vænt um ömmu sem kom í heimsókn til okkar annað hvert ár og sigldi þá með Esju eða Herðubreið, skipum Skipaútgerðar ríkisins. Eitt af mínum fyrstu bréfum var sent áður en ég kunni að skrifa og ég las það fyrir, en Guðrún systir mín skrifaði: „Elsku amma mín. Einu sinni gafst þú mér tíu krónur. Það er nú orðið langt síðan. Þinn Bensi.“
Ekki þarf að orðlengja um það að skömmu síðar kom bréf frá ömmu með tíu krónu seðli í.
Pabbi minn, Jóhannes Zoega, skrifaði í æviminningar sínar:
„Hún hét Steinunn Símonardóttir, bóndadóttir úr Borgarfirði, fædd í Bakkakoti í Skorradal 1883, fluttist þaðan að Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal. Þegar hún er 12 ára gömul, sumarið 1896, varð Símon faðir hennar bráðkvaddur úti á túni 58 ára gamall. Hann var sonur Herdísar Jónsdóttur og Jóns Símonarsonar í Efstabæ í Skorradal, sem Efstabæjarætt er kennd við. Eftir eitt ár eða svo leystist búið upp og elstu börnin réðu sig í vist. Þau yngstu þrjú, Magnús, Herdís og mamma fluttust með mömmu sinni til bróður síns, séra Bjarna Símonarsonar á Brjánslæk. Amma mín í móðurætt var Sigríður Davíðsdóttir frá Miðsandi á Hvalfjarðarströnd. Hún ólst þar upp, dóttir hjónanna Davíðs Björnssonar og Sigríðar Sveinsdóttur. Sigríður var fædd árið 1799, en það var lengi trú margra eftir 1970 að Axel Thorsteinsson fréttamaður, sonur Steingríms skálds væri eini maður sem væri á lífi sem ætti afa eða ömmu fædd á 18. öld. Þetta var náttúrlega ekki rétt því að sama gilti um mömmu, Herdísi og Magnús systkini hennar. Eiginlega var þetta merkilegra hjá mömmu því að það var í kvenlegg, en í karllegg hjá Axel, en karlarnir geta náttúrlega átt börn lengur en konurnar. Afi og amma eignuðust 6 börn sem lifðu. Bjarni, Jón og Ingigerður voru eldri en mamma, en Herdís og Magnús voru yngri. Auk þess átti mamma hálfbróður samfeðra, Jóhann.
Afi og amma voru fátæk en voru talin hjálpfúst fólk, starfsöm og dugmikil meðan heilsa leyfði. Þau giftust 28. júní árið 1873. Þau bjuggu í þrjú ár á Litla-Sandi og fluttu þaðan að Geitabergi og bjuggu þar í sex ár. Þaðan fluttu þau að Bakkakoti í Skorradal og þar fæddist mamma. Eftir fimm ár fluttu þau að Iðunnarstöðum í Lundarreykjadal árið 1886. Það var ein fyrsta minning mömmu þegar hún var reidd á hesti yfir fjallið í þeirri ferð. Afi missti heilsuna, fékk skæða sótt kvefpestarárið 1894 þegar hann var á ferðalagi en komst heim eftir mikla þrekraun og lá síðan lengi. Eftir þetta tók hann aldrei á heilum sér þótt hann hefði fótavist til dánardægurs.
Mamma fór í vist á nokkra staði á Vestfjörðum og hélt svo til náms í Reykjavík. Hún safnaði peningum fyrir náminu meðal annars með því að vera vinnukona hjá fólki á Framnesveginum. Árið 1902 settist hún í 4. bekk Kvennaskólans og útskrifaðist árið á eftir og stóð sig afbragðsvel. Hún hefur verið vel undirbúin og sagði sjálf að hún hefði haft mikið gagn af þessu námi. Hún vann svo við verslunarstörf í Reykjavík hjá Braunsverslun og kannski víðar þar til hún fluttist til Seyðisfjarðar og þaðan til Norðfjarðar árið 1911. Þar réðist hún til verslunar Konráðs og kynntist pabba.“
Þorstein Víglundsson skólastjóra í Vestamannaeyjum kynntist ömmu og afa, Tómasi Zoega sparisjóðsstjóra, á Norðfirði. Hann skrifaði í Blik árið 1978:
„Árið 1883, 7. okt., fæddist bændahjónunum í Bakkakoti í Skorradal, Símoni bónda Jónssyni og frú Sigríð Davíðsdóttur, húsfreyju, meybarn. Það var vatni ausið, eins og komizt er að orði í merkum heimildum, og skírt Steinunn.
Tæplega tvítug að aldri lagði Steinunn Símonardóttir leið sína til Reykjavíkur, þar sem hún vildi stunda framhaldsnám. Þar settist hún í 4. bekk Kvennaskólans, en því marki hafði hún stefnt að á undanförnum árum með heimanámi, sem henni reyndist notadrjúgt, því að hún var skynsöm og skapföst og ástundunarsöm námsmey, sem setti markið hátt. Þegar hún hafði lokið þessu námi, stundaði hún verzlunarstörf í Reykjavík um sinn.
Árið 1911 leitaði hún sér atvinnu austur á Fjörðum. Ferð sú var farin af einskonar ævintýraþrá, því að miklar sögur fóru þá syðra af aflasæld og mikilli atvinnu á Austfjörðum, ekki sízt á Norðfirði. Ungfrú þessi réðst til Norðfjarðar og gerðist verzlunarmær við verzlun Konráðs Hjálmarssonar í kauptúninu. Þar kynntust þau Tómas Zoëga og hún, og leiddu þau kynni sem sé til hjúskapar.
Þau giftust 17. jan. 1914. Þá tóku þau á leigu íbúð hjá hjónunum á Hóli þarna á Stekkjarnesinu, fósturforeldrum mínum. Síðan áttu þau heimili sitt á Norðfirði.
Á Hóli bjuggu þau í skemmtilegu og hlýju sambýli. Tómas var dagfarsprúður maður og snyrtimenni mikið. Hann átti það til að vera fyndinn og spaugsamur. Og ég, unglingurinn, hafði ánægju af að kynnast honum náið. —
Það leyndi sér ekki, að nýgiftu hjónin voru mannkostafólk. Unga frúin var fóstru minni góð og þær hvor annarri. Á sumrin efndu ungu hjónin til ferðalaga. Þau fengu sér leigða hesta í Norðfjarðarsveit og riðu út, eins og það var kallað. Eitt sinn fengu þau leigðan hest handa mér, unglingnum, sem aldrei hafði fyrr á hestbak komið. Ég þáði boðið og gerðist útreiðarmaður. Þessi ferð er mér minnisstæð, sérstaklega sökum þess, hversu erfiðlega mér gekk að halda jafnvægi á klárnum.
Ég minnist þess, að æði fyrirferðarmikil taska með eldunaráhöldum var óluð við hnakkinn minn. Þegar svo klárinn tók til að skokka undir mér, hringlaði eitthvað í töskunni. Við þennan skarkanda kipptist klárinn við, lifnaði allur og tók á sprett, svo að ég mátti hafa mig allan við að detta ekki af baki, óvanur með öllu að sitja hest.
Inni í Fannardal var numið staðar og áð æðilanga stund. Þar voru eldunaráhöldin tekin fram úr töskunni, hlóðir hlaðnar og kveiktur eldur, sem glæddur var við sprek, mosa og tað, sem við tíndum þarna í úthaganum. Hitað var kaffi matlystugum ferðalöngum, og hið bezta meðlæti skorti ekki. Það eitt er víst.
Allt tókst þetta vonum framar, og ég var reynslunni ríkari eftir ferðalagið. Aldrei bar ég hestamennsku við eftir þetta eða ferðalag á hestbaki. Til reiðmennsku fannst mér ávallt mig skorta jafnvægisgáfu, svo að ég væri öruggur um það að detta ekki af baki og beinbrjóta mig. Þessi vinsemd Tómasar Zoëga og þeirra hjóna að taka mig með í ferðalagið og leigja undir mig hest, færði mér heim sanninn um það, að ég hefði enga eiginleika til að stunda reiðmennsku, enda hefi ég aldrei komið á hestbak síðan.
Brátt keyptu ungu hjónin sér eigið hús, sem þau bjuggu í um tugi ára. Það stóð þarna ofan við Strandveginn í námunda við fjarðarströndina, og þau kölluðu það Sæból.“
Hér kemur aftur frásögn frá pabba:
„Mamma lifði pabba um rúmlega 20 ár. Hún flutti fljótlega til Reynis bróður míns eftir að pabbi dó. Hún kom stundum að heimsækja okkur og kom alltaf sjóleiðina með Esju. Hún var þá í nokkrar vikur hjá okkur. Stundum fór hún þá líka til bræðra sinna á Stóru-Fellsöxl. Það var gaman að fá hana til okkar, börnin kynntust henni þá betur. Mamma var greind kona og var víða vel heima, til dæmis í ættfræði Borgfirðinga og annarra. Hún sagði ágætilega frá og fylgdist vel með þjóðmálum. Pabbi og mamma voru bæði miklir sjálfstæðismenn alla tíð en það dugði skammt því að kommarnir höfðu alltaf meirihluta í bæjarstjórninni.
Mamma undi sér afar vel hjá Reyni og Sigríði konu hans enda voru þau henni bæði mjög góð. Síðustu tíu árin var hún bæði heyrnardauf og nær blind. Hún varð býsna veik þegar hún var um áttatíu og fimm ára og lá á spítala. Henni sagðist svo frá að hana dreymdi að til sín kæmi maður sem segði við hana að nú yrði hún að koma með sér. Hún svaraði að hún mætti ekkert vera að því vegna þess að hún ætti svo margt eftir ógert. Það gekk eftir og hún lifði mörg ár eftir þetta.
Hún var andlega hress til síðasta dags og dó eftir skamma dvöl á spítala árið 1977. Hún var jörðuð í Fossvogskirkjugarðinum, vildi heldur vera í sólinni hér fyrir sunnan en Austfjarðaþokunni.“
Amma var ósköp góð kona og ég held að öllum sem henni kynntust hafi þótt vænt um hana.